Frestunarárátta

Penni: Elís Þór Traustason

Frestunarárátta, hvílík gjöf til mannkynsins. Ég var að kára 1000 orða ritgerð fyrir ensku fimm mínútum fyrir miðnætti. Ég á eftir að fylla hálfa síðu af kvótanum mínum í þessu blaði og verð að gera það á síðustu mínútu. Ég er haldinn alvarlegri frestunaráráttu. 

Frestunarárátta þarf ekki að vera slæm. Oft segi ég sjálfum mér að ég vinni betur undir pressu. Það er lygi, sæt og hvít lygi, til að forða mér frá þeim veruleika að ég á eftir latínupróf á mánudaginn og hef ekki orkuna í mér að einu sinni hugsa um það. Svo á ég eftir ritun í íslensku um bók sem ég er ekki byrjaður á og svo ýti ég út í horn öllum hinum fögunum sem verða að bíða betri tíma. Stúdentsprófin eru á næsta ári, þau eru seinni tíma vandamál. Ég næ alveg að redda mér. Renni í gegnum efnið á síðustu stundu til að bjarga mér fyrir horn. Það virkar (ekki) langoftast. 

Það er stundarmótefni við einkennunum, ekki sjúkdómnum. Eina ráðið er skipulag. Þess vegna hef ég keypt mér punktadagbók til að ná betur utan um allt sem ég geri. Hún er enn í plastinu. 

Ég hef haldið mér gangandi gegnum þetta með óhóflegri kaffidrykkju, sem hefur áreiðanlega einhver neikvæð áhrif seinna á lífsleiðinni. Aðallega svefnleysi sem getur leitt til aukinna líkna á Alzheimers. Næs. 

Kannski er ég að fara yfir um. Kannski þyrfti ég bara aðeins að slaka á, taka stutt skref. Setja lítil markmið, fylgja þeim eftir og gera hlutina í dag, ekki á morgun. Beita mig smá aga. Það er líklega eina leiðin út úr þessum vítahring að takast á við það, ekki bara bíða til morgundagsins. Fylgja þeirri rútínu sem ég hef sett fyrir mér. 

Nei, vitið þið hvað, ég ætla bara að klára þetta dæmi seinna. Það tók of mikið á að hugsa um þetta. 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search