Leiddist í Argentínu og fór að yrkja ljóð

Uppgjör

Ég las of mikið 

í þögnina. 

Hún hefði átt að 

vera. 

Þá værum við. 

Þetta ljóð samdi Hólmfríður Hafliðadóttir sem vann fyrsta sæti í ljóðakeppni Framhaldsskólablaðsins. Hún stefnir á leiklistanám í en er líka að hugsa um bókmenntafræði og íslenskunám í Háskóla Íslands.

Hólmfríður byrjaði að semja limrur og vísur þegar hún var 17 ára skiptinemi í Argentínu. ,,Mér leiddist svo í skólanum að ég fór að semja mikið og vinna með ýmiskonar ljóðform. Ég skrifaði til dæmis eina sonnetu. Síðan þróaðist það út í að ég fór að skrifa formlaus ljóð.” Ljóðaáhuginn hefur svo fengið að vaxa og dafna með árunum, en Hólmfríður les mikið af öðrum skáldum og sækir innblástur héðan og þaðan. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Fæst orð segja mest

,,Ég á eitt uppáhalds ljóðskáld, það er Stefán Hörður Grímsson. Ég byrjaði að lesa hann á síðasta ári. Annars sæki ég innblástur mikið úr daglegu lífi. Það kemur kannski einhver og segir eitthvað, sem blundar einhvern veginn í mér og ég skrifa það niður.” Þegar kemur svo að skrifunum segist Hólmfríður reyna að vinna með tungumálið með sem stílhreinasta hætti. ,,Það að nota sem fæst orð til að segja sem mest.” 

Vegna þess hve persónuleg ljóð Hólmfríðar eru oft segir hún að það sé heldur ekkert þægilegt ef fólk fattar nákvæmlega hvað hún er að tala um. ,,Ég vil frekar að tilfinningin sjálf komi fram. Þannig að fólk geti tengt og hugsað: ,,Já þetta ljóð er um mig,” en ekki að fólk geti lesið sögu mína úr ljóðunum mínum.” 

Ætlar að hætta fullkomnunaráráttunni

Hólmfríður hefur nú verið að yrkja ljóð í fjögur ár og þroskast mikið sem skáld á þeim tíma. Ljóð sem henni fannst flott fyrir þremur árum finnst henni kannski ekki jafn frábær í dag, en fullkomnunaráráttan hefur eitthvað um það að segja. Það er líka sökudólgurinn sem hefur helst hindrað framkvæmd þeirrar hugmyndar að gefa út bók. ,,Mig hefur alltaf langað að gefa út ljóðin mín en fundist þau kannski asnaleg.” 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Vinningar fyrir fyrsta sæti ljóðakeppni Framhaldsskólablaðsins eru gjafabréf í Natura Spa, 10 gróðursett tré til kolefnisjöfnunar hjá Kolviði og prentun á 50 eintökum af ljóðabók hjá Litlaprenti. Þarna er því komið gullið tækifæri fyrir Hólmfríði til að gefa út sína fyrstu bók. ,,Ég held ég hætti þessari fullkomnunaráráttu og gefi þau ljóð út sem hafa staðið upp úr í gegnum mánuðina. Ég á líka alveg helling af ljóðum sem mér finnst ennþá flott.”

Góð þerapía fyrir fólk

Maður má líka ekki gleyma því þegar maður sest niður og ætlar sér að yrkja ljóð, að vera ekki hræddur við að byrja bara. ,,Ljóðið er frábært form til að greiða úr tilfinningum sínum og átta sig á líðan sinni. Þetta er mjög góð þerapía fyrir fólk. Ljóð eru fyrir alla til að lesa, vinna með og túlka. Ekki hafa áhyggjur af því að þú skrifir léleg ljóð, flest ljóð sem ég hef skrifað eru léleg. En það að setjast niður og vinna með tungumálið á skapandi hátt er mjög gefandi.”

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search