Þurfa konur að réttlæta þátttöku í fegurðarsamkeppni?

Sumum finnst Ungfrú Ísland stuðla að óraunhæfum útlitskröfum og vera barn síns tíma sem á ekkert við í nútímasamfélagi. En afhverju er þá alltaf nóg af konum sem vilja taka þátt, og nóg af fólki sem  horfir á keppnina? Hvað er það nákvæmlega við Ungfrú Ísland sem stuðlar að óraunhæfum útlitskröfum? Stuðla Músíktilraunir að óraunhæfum kröfum um hljómhæfileika? 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Það er auðvitað af hinu góða að Ungfrú Ísland keppnin hefur tekið ýmsum breytingum, víkkað hóp þátttakenda og breytt ýmsum áherslum. En á meðan  ennþá er áhugi fyrir því að taka þátt í Ungfrú Ísland ættu keppendur ekki í sífellu að þurfa að verja og réttlæta að þeir ákváðu að taka þátt. Rétt eins og keppandi í Ísland Got Talent ætti ekki að þurfa í sífellu að útskýra að hann sé  með til að hafa gaman og kynnast nýju fólki, þó að það sé örugglega feitur plús við keppnina. Afhverju verða þáttakendur í Ungfrú Ísland þá sífellt fyrir aðkasti í fjölmiðlum? Snýst kvenfrelsi ekki um að fá að taka eigin ákvarðanir og þurfa ekki sífellt að verja þær? Verða allar konur alltaf að ábyrgjast það að öðrum hugnist ekki það sem þær eru að gera, að fólk sé öfundsjúkt út í þær, eða vilji að þær geri hitt frekar en þetta?

Gera ekki útlitskröfur

Birgitta Líf Björnsdóttir er framkvæmdastýra Ungfrú Íslands, og hafði ýmislegt að segja. Hún kveðst ekki skilja afhverju sumir séu á móti keppninni eins og hún er í dag. “Ég skil það algjörlega miðað við hvernig keppnin var áður, hún var náttúrulega bara gamaldags. Að mínu mati mega allir gera það sem þeir vilja, og mér finnst femínistabaráttan snúast um það að konur hafi frelsi. Mér finnst vera frekar öfugsnúið að gagnrýna að stelpur séu að taka þátt í Ungfrú Ísland, að það sé það sem þær vilja. Konur eiga mismunandi áhugamál og vilja mismunandi hluti. Þannig að þær sem hafa áhuga á því sem viðkemur Ungfrú Ísland, að koma fram, læra förðun og að sitja fyrir; auðvitað mega þær gera það.” Hún segir að stjórnendur keppninnar í dag séu ekki með neinar útlitskröfur, og leggi áherslu á að ferlið sé skemmtilegt og uppbyggjandi.

En afhverju taka konur þátt í Ungfrú Ísland? Það hefur verið áberandi að þátttakendur segist vilja læra framkomu og stíga út fyrir þægindaramman. ,,Ég held að það séu náttúrulega mjög mismunandi ástæður hjá hverri og einni, en almennt langar stelpum að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt, kynnast nýjum stelpum. Að standa á sviði, koma fram í sjónvarpi, fara í viðtöl.”

Það þarf að velja úr

Síðast þegar valið var úr umsóknum um þátttöku í keppninni var markmiðið að setja saman fjölbreyttan og skemmtilegan þátt. Birgitta segir að það sé engum neitað um þátttöku út af einhverjum útlitsatriðum. ,,Í viðtölunum kom kannski í ljós að einhver var að fara til útlanda í heilan mánuð yfir sumarið og þá náttúrulega passaði ekki að taka þátt í ferli sem er yfir allt sumarið. Sumar voru of ungar og hefðu kannski áhuga á að koma eftir eitt til tvö ár. Við í rauninni bara ræðum við umsækjendur um hvort það passi að taka þátt akkúrat núna. Það er alltaf næsta ár. Þetta er bara eins og með allt annað, það geta ekki alltaf allir verið með. Það þarf að velja úr. Við erum líka mjög fjölbreyttur hópur sem tekur viðtölin, og setur saman skemmtilegan hóp sem virkar saman hvert ár.” 

Látið konur í friði

Markmiðið hjá núverandi eigendum keppninnar er að breyta keppninni og gera hana nútímalegri, og að breyta ímynd fólks á keppninni. “Við erum með öðruvísi markmið og okkar eigin sýn. Við höfum séð svo ótrúlega margar stelpur blómstra í gegnum þetta ferli og okkur langar að veita öllum tækifæri til þess, á meðan að við getum.” 

Auðvitað er það góður hlutur að keppnin sé að verða nútímalegri, en hvort sem keppnin væri það eða ekki, að þá er orðið frekar þreytt að konur fái ekki bara að sinna áhugamálum sínum í friði, hvort sem það er að farða sig eða að ditta að gömlum bílum. 

PENNI: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search