Rúmlega 500 einstaklingar komu til Frú Ragnheiðar

Frú Ragnheiður fagnaði tíu ára afmæli í fyrra. Umræða og viðhorf um skaðaminnkandi úrræði hefur mikið breyst undanfarin ár.

Eitt af verkefnum Rauða krossins felst í því að veita jaðarsettum hópi í samfélaginu heilbrigðisaðstoð og málsvörn, með hugmyndafræði skaðaminnkunar að leiðarljósi. Frú Ragnheiður er bíll sem er keyrður um höfuðborgarsvæðið af sjálfboðaliðum og hefur þann tilgang að veita nálaskiptaþjónustu fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Elísabet Brynjarsdóttir byrjaði að sem sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði en var svo ráðin þar til starfa sem hjúkrunarfræðingur verkefnisins. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Frá upphafi hefur verkefnið haft þann tilgang að ná til jaðarsettra hópa í þeirra nærumhverfi. ,,Allt okkar starf byggir á gagnreyndri þekkingu. Rannsóknir sýna að jaðarsettir einstaklingar mæta mörgum hindrunum þegar þeir ætla að sækja sér þjónustu innan heilbrigðiskerfisins.” Opnunartímar, biðtímar og samgöngur geta verið hindrandi fyrir þennan hóp og segir Elísabet það vera vegna öðruvísi forgangsröðunar á þörfum sem þessi jaðarsetti hópur þarf að sinna. ,,Þessir einstaklingar þurfa að forgangsraða öðrum þörfum framar en að sækja sér heilbrigðisþjónustu, eins og til dæmis að redda sér húsnæði yfir nóttina eða að verða sér út um fæði.” Það getur orðið til þess að jaðarsettir einstaklingar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda fái ekki að njóta hennar fyrr en til dæmis sýkingar eða hverskyns vandamál sem baga þá eru orðin mjög alvarleg.

Förguðu 3400 lítrum

Frú Ragnheiður gerir þjónustuna aðgengilegri og gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að grípa fyrr inn og draga úr skaða.” Nálaskiptaþjónustan felst í því að veita einstaklingum sem nota vímuefni um æð hreinan búnað til þess. ,,Við leggjum mikið upp úr því að einstaklingar noti alltaf hreinan búnað, deili ekki búnaði með öðrum og noti sama búnaðinn ekki oft, til að lágmarka sýkingarhættu og smithættu milli einstaklinga á fyrst og fremst HIV og lifrabólgu C. Svona nálaskiptaþjónusta hefur borið árangur í gegnum tíðina og dregið úr lífshættulegum sýkingum og smitum.” Jafnframt segir Elísabet að rannsóknir sýna fram á að slík þjónusta hvetji ekki til sprautunotkunar hjá þeim sem hafa ekki stundað hana áður, heldur dragi fyrst og fremst úr skaða hjá þeim sem eru þegar með sprautufíkn. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Hluti af þjónustunni er að gefa einstaklingum sem koma til Frú Ragnheiðar nálabox svo þeir geti fargað búnaði á öruggan máta. Frú Ragnheiður tekur svo við boxunum og fargar þeim í samstarfi við Landspítalann. Elísabet segir að í því felist samfélagsleg skaðaminnkun, því það dregur úr fjölda notaðra nála og sprautna sem finndust annars úti á víðavangi. Árið 2019 fargaði Frú Ragnheiður um 3400 lítrum af nálaboxum. ,,Við upplifum að skjólstæðingar okkar eru mjög ábyrgir í sinni skaðaminnkun fyrir samfélagið og vilja bera ábyrgð á sínum lífsháttum eins og þeir geta.”

Fólk má nota dulnefni

Þjónusta Frú Ragnheiðar er alltaf veitt í samráði við skjólstæðinga sína. ,,Öll okkar þjónusta byggist á þeirri hugmyndafræði að fólk sækir hana á sínum forsendum.” Í gegnum árin hefur Frú Ragnheiður öðlast gott samband og traust frá skjólstæðingum sínum. ,,Við reynum eins og við getum að búa til öruggt umhverfi fyrir skjólstæðinga okkar. Þegar fólk kemur til okkar þá er það ekki skráð í nein kerfi og það má nota dulnefni. Fólk kemur á sínum forsendum. Í gegnum tíðina höfum við náð að byggja upp einstakt traust mjög jaðarsetts hóps í samfélaginu, sem er algjörlega magnað að hafa fengið að vera hluti af.”

Eins og var nefnt ofar þá er Frú Ragnheiður sjálfboðaliðaverkefni Rauða krossins. Bíllinn er keyrður sex kvöld vikunnar af þremur sjálfboðaliðum hvert sinn. ,,Ég byrjaði sjálf sem sjálfboðaliði fyrir þremur árum og var svo ráðin inn sem hjúkrunarfræðingur til að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni sem er veitt í bílnum. En þetta er í grunninn sjálfboðaliðaverkefni. Sjálfboðaliðarnir okkar leggja af mörkum í kringum 5000 klukkustundir á ári. Það er ótrúlegt að svona sérhæft og mikilvægt verkefni í samfélaginu okkar sé haldið uppi af sjálfboðaliðum á þennan hátt.”

Heildræn nálgun mikilvæg

Elísabet segir skjólstæðinga Frú Ragnheiðar koma úr mörgum mismunandi áttum. Árið 2019 notuðu 530 einstaklingar þessa þjónustu. ,,Við aðstoðum alla sem koma til okkar. Við reynum fyrst og fremst að styðja ungmenni, konur og einstaklinga sem eru húsnæðislausir, en einstaklingar úr öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins koma til okkar og sumir eiga húsnæði. Við mismunum auðvitað ekki og þjónustum alla sem þurfa á okkar hjálpa að halda.” Sumir koma oftar en aðrir og vandinn getur verið misalvarlegur hjá fólki.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Oft kemur fólk til Frú Ragnheiðar sem þarf á sálrænum stuðningi að halda eða þarfnast aðstoðar við að komast í önnur úrræði. ,,Allir okkar sjálfboðaliðar þurfa að ljúka löngu, sérhæfðu námskeiði þar sem er meðal annars farið yfir samskiptatækni og áhugahvetjandi samtal, hvernig er hægt að styðja einstaklinga sem koma til okkar. En við erum ekki meðferðarúrræði, við erum skaðaminnkandi úrræði. Það er okkar sýn og trú að þetta þurfi allt að starfa saman, meðferðarúrræðin, eftirfylgni, endurhæfing og skaðaminnkun. Það þarf heildræna nálgun.” 

Starf Elísabetar felst meðal annars í því að mál sem skjólstæðingar Frú Ragnheiðar bera á borð til sjálfboðaliða komist í góðan farveg í samráði við þá. ,,Ef það kemur eitthvað upp í bílnum sem einstaklingur opnar á, þá getum við vísað þeim leiðina í þau úrræði sem eru í boði, ef einstaklingurinn hefur áhuga á því.” Þó það sé ekki hægt að segja að Frú Ragnheiður sé geðheilbrigðisúrræði, þá segir Elísabet skjólstæðinga Frú Ragnheiðar oft treysta sjálfboðaliðum og starfsmönnum fyrir hlutum sem þeir hafa ekki sagt neinum öðrum. ,,Það er mjög mikill sálrænn stuðningur sem fer fram í bílnum.”

Með mannúð að leiðarljósi

Elísabet hefur frá því hún hóf störf hjá Frú Ragnheiði verið áberandi í umræðunni um skaðaminnkandi úrræði. ,,Stór hluti af okkar starfi, bæði starfi sjálfboðaliðanna og starfsmanna Rauða Krossins, er málsvarastarf. Við gerum okkar besta til að vekja athygli á stöðu hópsins okkar. Við störfum með mannúð og virðingu að leiðarljósi. Þessi þjónusta sem þessi hópur fær í gegnum þetta sjálfboðaliðaverkefni ætti auðvitað að vera sjálfsögð. Það þarf að gera ráð fyrir þörfum allra í samfélaginu.” 

Málsvarastarf Frú Ragnheiðar er unnið í samstarfi við skjólstæðinga um áherslur og hvernig þeir vilja að sé talað um sig og sín málefni. ,,Rosalega gott dæmi um það er að það var skjólstæðingur sem mætti á fund varðandi málefni jaðarsettra einstaklinga. Þá var alltaf talað um þá sem utangarðsfólk, en þessi einstaklingur benti á að sjálfur myndi hann aldrei kalla sig utangarðsmann. Það að segja að einhver sé utangarðsmaður gefur í skyn að viðkomandi sé fyrir utan samfélagið og ekki hluti af því.” Elísabet segir hann hafa sagt að honum sárnaði þegar væri talað um utangarðsfólk af hálfu sveitarfélagsins. Hann hafi þar að auki bent á að það hafi verið hið opinbera sem hafi valið að nota það orð, en ekki þeir einstaklingar sem eiga að telja hóp utangarðsfólks. ,,Vegna þess var þetta orð tekið úr notkun og nú er rætt um jaðarsetta einstaklinga, sem endurspeglar þeirra stöðu betur. Þannig það er ótrúlega mikilvægt að heyra frá notendum og fá þá að borði.”

Sjálf getur hún ekki fullkomlega sett sig í spor skjólstæðinga sinna, en starfsfólk Frú Ragnheiðar er oft kallað til við stefnumótun ríkis og borgar í þessum málum, sem sérfræðingar í skaðaminnkun á vegum Rauða krossins. ,,Skjólstæðingar mínir eru auðvitað best til þess fallnir að tala sínu máli og hafa sína rödd. Þess vegna er að mínu mati langbest, ef maður er að vasast í þessum málaflokki, að gera það í samráði við notendur.”

Ekki sjálfskaparvíti

Viðhorf til skaðaminnkandi úrræða við hluta vímuefnavandans hafa breyst mikið á síðustu árum, sömuleiðis hafa viðhorf til einstaklinga með fíknisjúkdóm og þeirra sem misnota vímuefni breyst mikið. ,,Það sem liggur að baki þess að vera með svona þungan vímuefnavanda eru oft áföll. Þetta er ekki sjálfskaparvíti, einstaklingar eru oft að nota vímuefni sem bjargráð í flóknum aðstæðum. Þegar maður á þetta samtal um hvað það er sem felst í skaðaminnkun og hvað liggur oft að baki stöðu þessara einstaklinga, þá finnst mér fólk vera mjög fljótt að skilja. Jákvæðar afleiðingar skaðaminnkunar fyrir samfélagið eru auðvitað að nálaboxum og búnaði er fargað á öruggan hátt, vímuefnanotkun verður ábyrgari og það er hægt að draga úr skaða og smitum.”

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Elísabet finnst að umræðan í dag sé orðin raunsærri og horfi til mannúðar. ,,Fólk er farið að tala um þetta sem heilbrigðismál og að þessir einstaklingar þurfi á heilbrigðsaðstoð að halda.  Reykjavíkurborg hefur til dæmis algjörlega tekið sig á og er að þróa allskonar búsetuúrræði. Heimilisleysi er eitt af því versta sem getur komið fyrir einstakling.” Þó skaðaminnkun sé í raun mjög sértækt úrræði segist Elísabet upplifa að margir viti í hverju skaðaminnkandi úrræði felast í þessum málaflokki. ,,Mér finnst fólk nálgast þennan málaflokk af skilningi og virðingu fyrir þeim einstaklingum sem þurfa á aðstoðinni að halda, og hafa mannúðlega nálgun að leiðarljósi frekar en refsistefnu.”

PENNI: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search