Þægindarammagerðin

Stefán Árni Gylfason | Neminn.is

Spurningar: María Árnadóttir

Svör: Karítas Bjarkadóttir

Þægindarammagerðin

Ég frétti að Karítas og 19 aðrir einstaklingar eru að vinna að því verkefni að gefa út bókina Þægindarammagerðina sem kemur út í júní. Ég sendi nokkrar spurningar á hana um áfangann og verkefnið sjálft sem hópurinn vinnur að. 

Fyrir hvaða áfanga eruð þið að gera verkefnið?

Áfanginn heitir Á þrykk og er kenndur á meistarastigi í ritlist, ritstjórn og útgáfu.

Hvað eruð þið mörg að vinna verkefnið saman?

Höfundar bókarinnar eru 16 talsins og ritstjórarnir fjórir. Auk þess njótum við leiðsagnar og aðstoðar Huldar Breiðfjörðs, kennara námskeiðsins, og Einars Kára, aðstoðarkennara og útgefandi.

Voruði öll í hópnum samnemendur? Hvaða nám stunduðuð þið? 

Við erum öll ýmist í ritlist eða ritstjórn og útgáfu. Áfanginn er aðeins í boði fyrir þessar námsleiðir og þetta er frábært tækifæri fyrir þessar tvær, nátengdu námsleiðir til að kynnast betur og læra að vinna saman.


Hvað felur verkefnið í sér? 

Verkefnið felur í sér að ritlistarnemarnir prófi að fá ritstjórn á verkin sín sem mörg þeirra hafa ekki fengið áður og að ritstjórnarnemarnir læri ritstjórn með því að framkvæma hana á ritlistarnemunum. Auk þess sér hópurinn um fjármögnun bókarinnar, hönnun og kynningarmál.

Hafið þið lært um útgáfu bóka á námsferli ykkar?

Það er ýmislegt sem hægt er að telja til. Áfanginn Á þrykk er mjög upplýsandi að því leyti að maður lærir með því að gera, og ætli það sé ekki einn besti lærdómurinn. Auk þess er boðið upp á námskeiðið Ritstjórn og hönnun prentgripa þar sem kennd eru undirstöðuatriði í praktískum skilningi. Afhverju það skiptir máli að velja rétt letur, réttan pappír, umbrot, gridd, myndmál og prentun, til dæmis. Námskeiðin snerta öll á mismunandi fletum útgáfunnar og því hægt að fullyrða að reynslan og vitneskjan sem við fáum á þessum tveimur námsleiðum sé fjölbreytt.

Sjáið þið aðeins um útgáfuferlið eða skrifið þið til dæmis einnig texta fyrir bókina? 

Ritlistarnemarnir sextán sáu um samningu textanna og Una útgáfuhús sá um þann hluta útgáfunnar sem hópurinn gerði ekki. T.a.m. samskipti við prentsmiðju, innflutning og dreifingu.

Er þetta fyrsta bókin sem þessi hópur gefur út saman? 

Já. Áfanginn er kenndur einu sinni á ári að vori og fólkið sem situr hann er mismunandi eftir árum. Því hefur þessi tiltekni hópur ekki gefið út verk saman áður, þó ritlistarnemarnir gefi líka út bók með örsögum hver jól. Bókin Heima kom út fyrir jólin núna.

Hvernig hefur útgáfuferlið gengið? Getið þið útskýrt hvers konar vinna fellst í útgáfuferlinu? (Til dæmis sjáið þið um prófarkalestur og umbrot) 

Það fyrsta sem þarf að gera er auðvitað að semja textana sjálfa. Fyrst um sinn var aðalvinnan hjá höfundunum sem þurftu að skrifa textana frá grunni, eða þá endurvinna tilbúna texta og laga að formi bókarinnar. Því næst fengu ritstjórarnir textana í hendurnar og þá hófst vinnan þeirra fyrir alvöru í samráði við höfundana. Þá er textunum kastað fram og til baka með athugasemdum og lagfæringum og að lokum er komið að prófarkalestri. Allur hópurinn hjálpaðist að við hann og svo tóku Huldar og Einar stóran þátt í þeirri vinnu. Við erum svo heppin að okkar eigin Elín Edda, sem er einn höfunda bókarinnar, er stórflinkur hönnuður og umbrotskona og hún sá um hönnun bókarinnar og umbrot.


Hvað heitir bókin og um hvað fjallar hún?

Bókin í ár heitir Þægindarammagerðin og er smásagnasafn. Hver höfundur er með mislangar 1-3 sögur í bókinni sem eiga það þó allar sameiginlegt að vera stórskemmtilegar. Eðli málsins samkvæmt er ekki beint hægt að segja að bókin fjalli um neitt ákveðið nema kannski lífið sjálft, og það er það sem gerir smásagnasöfn svo skemmtileg. Allt er svo opið!

Hvenær er bókin gefin út? 

Bókin kemur út í júní ef ekkert kemur upp á, við mælum með að fólk fylgi okkur á FaceBook, Þægindarammagerðin. Þar er hægt að fylgjast með útgáfunni og kynningarmálum. Við erum líka með Instagram: @thaegindarammagerdin

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search