Hlutir til að gera annað en að læra fyrir vorpróf

Penni: Katrín Valgerður 

Nú með vorprófum yfirvofandi er gott að dreifa huganum með því að gjörsamlega hunsa skyldustörfin. Einnig eru vorpróf líka ofmetin og ég tel að engin manneskja sem er annt um andlegu heilsuna sína læri fyrir þau. Að því sögðu hef ég sett saman smá lista af hugmyndum sem hægt er að dunda sér við á huggulegu sunnudags eftirmiðdegi sem meðal annars hefði betur verið nýtt í að lesa fyrir íslenskupróf. 

1.     Labba upp að gosstöðvum í gallabuxum og air force

Ef þú hefur ekki nú þegar gert þér ferð að gosinu er eins gott að þú farir og drífir þig þangað og ef air force og gallabuxur eru ekki tilvalin til útivistarfatnaðar þá veit ég ekki hvað. Það er líka miklu mikilvægara að líta vel út við gosið en að vera ekki kalt þar sem þú ert að öllum líkindum að fara hitta allar manneskjur sem þú hefur nokkur tíman kynnst á leiðinni.

2.     Hugleiða

Það eru örugglega til heill aragrúi af vísindalegum rannsóknum sem segja eitthvað jákvætt um hugleiðslu þannig að ég tel hugleiðslu vera mjög góða leið til þess að drepa tíma. Á meðan þú hugleiðir getur þú samtímis hugsað um öll óskiluðu verkefnin og ókláruðu ritgerðarnar.

3.     Finna birthchartið hjá crushinu þínu og bera það saman við þitt

Stjörnuspá er væntanlega það heitasta í augnablikinu svo það er eins gott að allir viti sun, moon og rising signið sitt og hjá crushinu þínu svo þú geti síðan farið og gert ítarlega rannsókn á hvort að þið passið ekki örugglega saman. 

4.     Fara í vínsmökkun með vinahópnum

Ef maður vill dekra aðeins upp á sig og líða aðeins betur með sjálfan sig er þá er þetta tilvalin leið til að blekkja egóið. Miklu ásættanlegri kostur en eitthvað kojufyllerí sem endar oftast með öllum grenjandi í trúnó.

5.     Horfa á Æði

Æði er án efa eitt það besta íslenska sjónvarpsefni sem ég hef séð. Ég horfði á báðar serjurnar yfir eina helgi og ég skemmti mér konunglega. Ég missti örugglega tæplega 30 greindarvísitölustig í leiðinni. Ég verð nú að játa að ég man lítið eða ekkert hvað gerðist í fyrstu serjunni en það er annað mál.

6.     Synda yfir Ermasund.

Þetta er góð leið til þess að rifja upp það sem maður lærði í skólasundi og til að koma manni aftur í ásættanlegt form. 

7.     Uppgvöta 119. frumefnið og nefna það Sigmar

Ef þú ert efnafræði manneskja ætti þetta að vera lauflétt fyrir þig, nú ef ekki þá er þetta tilvalið tækifæri til þess að taka efnafræðina upp frá grunni. Það er líka orðið tímabært að fólk hætti að nefna frumefnin einhverjum rugl nöfnum sem enginn getur munað. Sigmar er miklu betra.

8.     Finna upp þitt eigið covid-mótefni og fjöldaframleiða það

Ef að þú ert orðinn óþreyjufullur á að bíða eftir bólusetningu skaltu bara halda kjafti og finna upp þína eigin sprautu.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search