Lífið á stúdentagörðunum

Penni: Elís Þór Traustason

Stúdentagarðarnir eru oft fyrsti viðkomustaður þeirra sem flytja að heiman. Þetta er rómantísk hugsun að búa í lítilli íbúð niðri í miðbæ og ganga í skólann á hverjum degi. En hvernig virka þeir eiginlega? Hvað annað er í boði á háskólalóðinni?

Hverjir sjá um þetta allt?

Félagsstofnun stúdenta eða FS sér um stúdentagarðana við Háskóla Íslands og ýmsa aðra þjónustu við skólann. Hún heldur líka uppi Bóksölu stúdenta, Leikskólum stúdenta, Stúdentakjallaranum og Hámu sem er mötuneyti. FS er sjálfseignarstofnun sem þýðir að hún er ekki rekin með hagnaði. Þannig er hægt að bjóða upp á sem ódýrasta þjónustu fyrir nema Háskóla Íslands.

Í stjórn félagsins sitja fimm manns, þrír einstaklingar kosnir af Stúdentaráði, einn valinn af stjórn skólans og einn frá menntamálaráðuneytinu.

Háma og Stúdentakjallarinn

Háma er mötuneyti fyrir nemendur sem er rekið af FS. Hún hefur haldið lífinu í háskólanemum með heitum máltíðum, fjölda rétta úr kælum, kaffi og súpum, allt á sem lægstu verði. Í Hámu geta nemendur HÍ fengið afslætti á heitum mat með því að framvísa nemaskírteini. Hægt er að finna hana á yfir 10 stöðum úti um allt háskólasvæðið.

Stúdentakjallarinn er veitinga- og skemmtistaður á Háskólatorgi og er rekinn af FS. Munurinn á honum og Hámu er samt sá að allir með nemaskírteini frá öllum háskólum landsins geta fengið sömu afslætti og nemar við HÍ. Þar er hægt að hitta og kynnast fólki, mæta á viðburði og njóta góðra veitinga.

Heitur matur í Hámu

Almennt verð 1.530 kr., stúdentaverð 1.190 kr.

Kaffikort 20 bollar

Almennt verð 3.400 kr., stúdentaverð 2.800 kr.

Kaffikort 20 bollar, með eigin bolla

Almennt verð 3.000 kr., stúdentaverð 2.400 kr.   [ef hægtsetja í sérramma]

Bóksala stúdenta

Til að stunda nám þarf slatta af bókum, námsefni og ritföngum, Bóksala stúdenta skaffar þetta allt. Hlutverk Bóksölunnar er að geta boðið upp á allar þær bækur  í öllum þeim fögum sem kennd eru í háskólum en framhaldsskólanemendur hafa líka nýtt sér hana meir og meir undanfarin ár. Svo fást þar líka kaffibollar, ferðamál og bolir með merki HÍ. Auðvitað er allt á sem lægsta verði.

Íþróttahús Háskóla Íslands

Í Íþróttahúsinu er aðstaða í tækjasal og salur. Það er ekki rekið af FS heldur HÍ. Í boði eru líka skipulagðir tímar fyrir nemendur.

Stúdentagarðarnir

Félagsstofnun stúdenta var í fyrstu stofnuð árið 1968 til að sjá um byggingu á húsnæði fyrir nemendur. Í dag eru rúmlega 1.400 manns með leigusamningi hjá FS en á Stúdentagörðum búa á þriðja þúsund manns. Boðið er upp á allt frá einu herbergi yfir í fjögurra herbergja íbúð út um allan bæ, þó mest á háskólasvæðinu og nálægt miðbænum.

Húsaleigubætur

Að flytja á stúdentagarðana er ein hagstæðasta leiðin til þess að spara fé í leigu ef þarf að leigja á annað borð. Það sem margir vita ekki er að það er líka hægt að sækja um leigubótarstyrk sem geta verið rúmlega 30 þúsund í tilviki stúdenta. Ef leigt er með vinum á almennum markaði gilda húsaleigubætur aðeins fyrir einn í íbúðinni en allir á leigusamningi hjá FS geta sótt um húsaleigubætur.

Hvernig er sótt um?

Sótt er um á netinu. Allir geta sótt um en nemendur HÍ hafa forgang yfir aðra skóla og fólk af landsbyggðinni hefur ákveðinn forgang yfir íbúa af höfuðborgarsvæðinu í einstaklingshúsnæði.

Einu sinni var það þannig að umsækjandi þurfti að vera skráður í nám til að geta sótt um herbergi. Í dag er hins vegar hægt að sækja um pláss án þess að vera skráður nemandi við skólann. Margir þurfa nauðsynlega að vita hvort þeir fái pláss eða ekki áður en þeir hefji nám, þá er gott að geta verið búinn að sækja um.

Alltaf er verið að bæta við húsnæðiskostinn, nýlega var stúdentagarðurinn Mýrargarði tekinn í notkun og nú er verið að reisa viðbyggingu við Gamla Garð. Þar verða herbergi með sameiginlegri aðstöðu.

Herbergi

Ódýrasti og hagkvæmasti kosturinn er að leigja herbergi á gangi ásamt öðrum nemendum, eru þá um 7 til 10 herbergi saman. Oftast er hvert herbergi með sitt eigið baðherbergi en þau deila öll saman eldhúsi og stofu.

Félagslífið í svona herbergjum er miklu skemmtilegra og fjölbreyttara þar sem alls kyns fjölbreyttir leigjendur búa saman. Erlendir nemendur sækja sérstaklega í þetta búsetuform því þá geta þeir auðveldlega kynnst nemendum við skólann. Þetta hefur einnig komið í veg fyrir félagslega einangrun í Covid-19 faraldrinum hjá mörgum af þessum erlendu nemum.

Í sumum byggingum, t.d. Mýrargarði, er samkomusalur á neðstu hæðinni sem íbúar hafa ókeypis aðgang að og hægt er að panta (Gott fyrir útskriftarveislur en betra að bóka með fyrirvara).

Ódýrustu herbergin eru á Gamla Garði (80.890kr.) en dýrustu á Mýrargarði (99.278kr.).

Stúdíóíbúðir

FS er með margar stúdíóíbúðir. Þá er búið í eins herbergja íbúð með eigin aðstöðu. Þetta búsetuform er aðeins dýrara en herbergi með sameiginlegri aðstöðu. Íbúðirnar eru dreifðari um bæinn, þær eru á háskólasvæðinu, á Lindargötu í Miðbænum og í Brautarholti.

Leigukostnaður er frá 105 þúsund til 119 þúsund.

Para- og fjölskylduíbúðir

Stærri íbúðir eru almennt hugsaðar fyrir pör og barnafjölskyldur. Þær geta verið allt frá 2ja upp í 4ra herbergja. Þrír leikskólar eru á háskólasvæðinu fyrir nemendur með ung börn. Dýrustu og stærstu íbúðirnar eru um 180 þúsund.

Fylgist með á netinu

Endilega tékkið á Félagsstofnun stúdenta og þjónustu þeirra á þessum Instagram-reikningum:

– @felagstofnunstudenta

– @boksalastudenta

– @studentakjallarinn

Og á vefsíðunum:

– Fs.is

– studentakjallarinn.is

– boksala.is

Háskóli Íslands

– Hi.is

Sérstakar þakkir til Rebekku Sigurðardóttur hjá Félagsstofnun stúdenta fyrir allar upplýsingarnar og aðstoðina við þessari grein.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search