Velvakandi – Nóvemberburnout

Nóvember er ekki einu sinni hálfnaður en mér líður eins og ég sé búinn með heilan mánuð af stressi og verkefnum. Á minn týpíska hátt hef ég enn og aftur tekið að mér of mikið af skuldbindingum sem ég get engan veginn staðið undir (þ. á m. þetta blað). Allt lenti á einni helgi, ég þarf að dreifa athygli minni á það marga staði að ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvert ég er að stefna. Svo hjálpar ekki að svefninn er kominn í rugl og ég borða þegar ég man eftir því. Ég held mér gangandi á engu nema þremur kaffibollum á dag og þrjósku.

 Ég sit hérna, klukkan 11 að kvöldi fyrir skil, að skrifa grein fyrir Velvakanda, nokkurs konar Bakþanka Framhaldsskólablaðsins, til að fylla upp í kvótann minn. Svo er aldrei sól úti nema þegar ég er inni. Skítt er það, maður.

En að minnsta kosti er ég farinn að hlusta á jólalög. Það er eitthvað til að koma mér í gegnum dimmasta svartnættið og þyngstu álagspunktanna. Ég skildi ekki comfort-lög fyrr en núna í nóvember þegar ég byrjaði að hlusta á jólalög. Og gera jólakakó. Og borða piparkökur. Mmmm… piparkökur.  

Þessi grein hefur engan tilgang og þess vegna enga lykilsetningu eða niðurlag. (Þetta er ekki ritgerð). Hins vegar mætti fólk vera duglegra að skrifa án þess að það hafi neinn tilgang, því þá sleppir maður við leiðinlegu partana eins og lykilsetningar eða niðurlög. Það er gott fyrir hugann að koma allri óreiðunni út á blað. Eða í Word eða Notes (við lifum nú í nútímanum eftir allt saman). Eða á Twitter. Ég veit ekki hvað ég er að segja. Vel gert, kæri lesandi, ef þú hefur nennt að klára þennan sundurleita pistil. Ég lofa að standa mig betur næst. Og taka að mér færri verkefni. Og hætt að hlusta á jólalög fyrr en 1. desember. Og borða minna af piparkökum (ok, kannski ekki þetta seinasta). 

Penni:  Elís Þór Traustason

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search