Fyrir nokkrum árum var ég kölluð ,,pirrandi” um það bil einu sinni í viku. Nú gerist það sjaldnar, fólk reynir almennt að vera kurteist. Þó stenst staðhæfingin enn. Ég skildi fullvel hvað gerði mig pirrandi, það var aldrei vandamálið. Það sem ég skildi ekki var hvað ég gæti gert í staðin. ,,Hvernig get ég ekki verið pirrandi?” var spurning sem ég spurði mig oft. Eftir að hafa reynt margt, í langan tíma, komst ég að einni niðurstöðu: það er ekkert sem þú getur gert. Þetta var einfaldlega manneskjan sem ég yrði alltaf, best væri að sætta sig við það. Þó það hafi vissulega reynt á í byrjun leyndi hugsunin á sér.
Ég áttaði mig á þessu fyrir um hálfu ári. Eftirfarandi er listi af breytingum sem geta orðið á þeim tíma.
Þú ferð að umgangast öðruvísi fólk.
Ótrúlegt en satt, það fannst ekki öllum að þú værir pirrandi! Einhverra hluta vegna var þetta bara einmitt fólkið sem þú leitaðir uppi. Um leið og þér fer að vera sama hvort þeim finnist þú bærileg/ur/t, missir þú líklega áhugan á þeim. Skemmtileg tilviljun! Þessar þrjár eða fjórar manneskjur sem gera lítið úr þér við öll gefin tækifæri er sama um þig. Einhverra hluta vegna mun þetta líka koma þér á óvart.
Annað óþolandi fólk leitar þig uppi.
,,Ó guð, þarna koma þau,” allt óþolandi fólkið sem þér var sagt frá. Allar viðvörunarbjöllur fara að klingja. Af hverju vilja þau tala við þig? Ert þú ein/einn/eitt af þeim núna? Þú ferð að hlusta á það sem þau hafa að segja. Þú áttar þig á því að þú hefur eiginlega aldrei talað við þau áður. ,,Bíddu, ekki segja mér að þau séu… skemmtileg?” Þetta ,,stórfurðulega” lið er bara skítsæmilegt. Þú getur að minnsta kosti ímyndað þér að vera óþolandi aðeins lengur.
Þú hættir að vera óþolandi.
Smá öfugmæli, ég veit. En það sem gerir þig óþolandi, sama hvað þú gerir, er ekki persónuleikinn þinn eða útlit. Það er sú staðhæfing að, innst inni, finnst þér þú vera óþolandi. Þegar þér fer að vera sama um það, skiptir hitt engu máli. Einhverjum mun finnast þú pirrandi sama hvað þú gerir. Það eina sem skiptir máli er hvort þér finnist það eða ekki. Að því leyti er fremur einföld lausn á þessu ógnarstóru vandamáli.
Auk þess eru flest samskiptin þín gagnkvæm, þú bara tekur ekki eftir þeim. Flestir í fjölskyldunni þinni, nokkrir vinir og jafnvel kunningjar; þau hafa svipaða skoðun á þér og þú hefur um þau. Þegar þér finnst þú óþolandi, ferðu að leitast eftir ummerkjum að öðrum finnist það líka. Oftar en ekki á þetta sér engin stoð í raunveruleikanum.
Penni: Embla Waage