Aðlöðunaraflið

,,Ég er Þormóður, og ég er Snæfellingur.” Svona hefst samtal okkar Þormóðs Símonarsonar einn sólbjartan mánudag. Á sinni ævi hefur hann lagt stund á margt.Til dæmis er hann lærður markþjálfi og hefur lært bæði dáleiðslu og heilun. Eitt sinn gekk hann í klaustur og síðar leiddi hann bænahring. Þormóður þylur upp starf eftir starf, enda er ferilskráin hans býsna fjölbreytt. ,,Ég hef unnið í matvælageiranum og á geðdeild. Ég hef verið í sjónum, lífvörður á sundlaug, leiðsögumaður, vélamaður…” Þormóður hlær, og heldur svo upptalningunni áfram. Hann hefur skrifað þrjár bækur og auk þess byggt hús fyrir sjálfan sig. 

Við ákváðum því næst að henda okkur beint í djúpu laugina.

E: Hvað er aðlöðunaraflið?

,,Þetta orð [aðlöðunaraflið]er mín tilraun til þess að þýða law of attraction,” segir Þormóður. Umræðan um aðlöðunaraflið hófst fyrir um 110 árum, en þá var þekking okkar helst mynduð út frá athugunum og rannsóknum. Undanfarna áratugi hefur rannsóknin breyst ögn. Nú byggjum við vitneskju okkar á miðlun og öðrum óhlutbundnari leiðum. ,,Í grunnin er þetta þannig að hugsanir okkar, líðan og viðhorf móta raunveruleikan okkar. Það sem gerist í dag er útkoman í því hvernig þú hugsaðir og hvernig þér leið undanfarna 30 daga.”

E: Ertu með dæmi um hvernig ungt fólk getur notfært sér aðlöðunaraflið í daglegu lífi?

Þ: ,,Það eru mjög mörg dæmi. Til að byrja með, ef hugsun og líðan hefur áhrif á hvaða raunveruleika þú upplifir, þá er mjög mikilvægt að vita hvaða hugsanir og líðan er í gangi.“ Þormóður bendir á að til séu margar æfingar til að átta sig á tilfinningum sínum. Þetta væri til dæmis hugleiðsla, en margt má skilgreina sem hugleiðslu. ,,Það er til dæmis hugleiðsla að föndra! Eða að teikna, eða mála vegg, eða að labba með hundinn; þetta getur allt verið hugleiðsla.“ Hugleiðslan getur hjálpað okkur að finna út úr því hver maður er. ,,Þegar maður fer að hugsa um hvernig manni líður, þá byrjar maður líka að skilja hver maður er.“

Þormóður tekur fram að finna má dæmi um þetta í bókinni sinni. Bíllyklarnir hans höfðu læst inn í bílnum. ,,Það var eiginlega ekki mér að kenna, en samt hugsaði ég: ,,þetta er mín ábyrgð, það er ég sem er að lenda í þessu. Hvernig gat ég laðað þetta að mér?“ Á meðan hann beið eftir að eiginkona hans kæmi með annan lykil, beið hann úti í köldu veðri. ,,Ég mundi eftir því, að nokkrum dögum áður, hafði mér liðið eitthvað illa. Þá hafði mér liðið eins andlega, og mér leið við bílinn á því andartaki.“ Á því augnabliki áttaði hann sig á þessu: ,,svona virkar þetta!“ Hvernig honum hafði liðið andlega hafði endurspeglast í raunveruleikanum. ,,Venjulega erum við að reyna að sjá hvað er að, við reynum að laga það.“ Þormóður bendir á að heilbrigðara sé að líta á björtu hliðarnar, í stað þess að gera meira veður úr þeim neikvæðu.

E: Hvernig getum við lært að tileinka okkur aðlöðunaraflið?

Þ: ,,Það eru auðvitað margar bækur til.“ Helst eru þessar bækur til á ensku, sem höfðar mögulega ekki til allra. Þormóður skrifaði sjálfur bók um aðlöðunaraflið til þess að sníða þetta fyrirbæri að íslensku hugarfari. ,,Íslendingar eru með öðruvísi vitund til alheimsins en aðrir í heiminum. Það er svo stutt síðan við áttum mjög erfitt. Fyrir tveimur kynslóðum síðan bjuggu sumir enn í torfkofum. Það var svo mikil harka, og þá sérstaklega vinnuharka.“ Þetta er eins konar lærð hegðun, og því gæti þessi bók mögulega höfðað betur til okkar heldur en þær erlendu.

Auk þess þylur Þormóður upp nokkur góð ráð í sambandi við aðlöðunaraflið. Ekki vera langrækin. Betri er að fyrirgefa en að halda fast í gremjuna. ,,Á Íslandi varði þetta oft í margar kynslóðir. Ef afi þinn gerði eitthvað við afa minn, þá áttum við að vera óvinir. Þetta er algjört rugl.“ Þormóður vill meina að allt sem gerðist fyrir tveimur árum eða meira, og er ekki ennþá í gangi, er best að skilja eftir í fortíðinni. Auk þess bendir hann á gagnsemi þess að dæma ekki annað fólk eða tala illa um þau.

E: Hvað er kærleikskast?

Þ: ,,Kærleikskast er algengara en fólk heldur.“ Í stuttu máli, er kærleikskast andstæðan við kvíðakast. Einkenni kærleikskasts eru: mikil ró, að finnast allt vera frábært, að finnast allir fallegir og að allt í heiminum sé einfaldlega ,,just right“. Það endist yfirleitt ekki lengi, en það er yndislegt á meðan það varir.

,,Ég man ennþá eftir fyrstu kærleiksköstunum sem ég tók eftir.“ Á þessum tíma starfaði Þormóður sem leiðsögumaður á Snæfellsnesi. ,,Allir eru ofsalega ánægðir, við erum búin að stoppa og fá okkur hressingu. Þegar við erum að fara skín kvöldsól og ég er að keyra rútuna. Allt í einu finnst mér sólarlagið rosalega fallegt, tónlistin sem ég var að spila á Spotify var svo góð og mér þykir vænt um alla í rútunni. Mér fannst rútan keyra ótrúlega vel á veginum. Mér langaði bara að stoppa og faðma alla!“ Hann tekur fram að hann hafi þó staðist freistinguna.

E: Ertu með einhver ráð um hvernig sé hægt að upplifa kærleikskast?

Þ: ,,Það þarf að skapa skilyrði innra með sér. Alveg eins og þegar maður fær kvíðakast, eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla: það er ótti, kvíði og stress sem búa til kvíðakastið.“ Eðli máls samkvæmt, eru skilyrði kærleikskastsins andstæðan við hin fyrrnefndu. ,,Það þarf að dvelja í jákvæðum tilfinningum: gleði, þolinmæði og samkennd.“ Þegar við pössum upp á okkur sjálf og jákvæðu tilfinningar okkar, sköpum við skilyrði fyrir kærleikskast.

Aðlöðunaraflið er aðgengilegt okkur öllum. Þetta er einfaldlega lífsstíll sem aðstoðar okkur að taka ábyrgð á eigin lífi og tilfinningum. Ég hvet lesendur til þess að kanna vefsíðu Þormóðs, www.leyndarmalid.is, og Facebook-síðuna Kærleikskastið.

Penni: Embla Waage

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search