STOPP! Hefur þú einhvern tíma hugsað: „Hvað í veröldinni er fólk eiginlega að vesenast á málabraut?Djöfulsins aumingjar sem hafa ekki heilasellurnar í stærðfræði, líffræði, eðlisfræði og atómsgeimeðlisverkfræði, ég meina hvað eru þau að spá? Geta alveg eins eytt tímanum sínum uppi í rúmi í duolingo.“ Ef svo er, þá segi ég hingað og ekki lengra. Þú skalt taka nokkur skref aftur á bak og hoppa einn hring rangsælis á öðrum fæti þar sem að þú hefur sýnt að þú hafir ekki minnstu hugmynd um hvað þú ert að tala um. Málabraut er nefnilega ekkert minna virði en aðrar námsbrautir.
Hvenær tókum við þessa sameiginlegu ákvörðun sem samfélag að eina ásættanlega námsbrautin fyrir klára krakka væri eitthvað náttúrufræði-tengt?! Mér finnst þetta vera svo mikil vanvirðing við tungumálakennslu og það hálfa væri nóg. Þessi þvæla að þú þurfir að stúdera eðlisfræðiformúlur og frumuveggi til þess að komast eitthvað áfram í samfélaginu er svo algjörlega út á túni. Í daglegu lífi tölum við miklu meira saman hvort við annað en við reiknum svo mér finnst góð og gild ástæða fyrir því að rækta málið. Það eru einmitt samskiptin við hvort annað sem heldur þessu samfélagi gangandi, hvað kæmi eiginlega fyrir ef að við stæðum bara öll á gati og kæmum ekki upp stöku orði? Nú væntanlega færi bara allt samfélagið á aðra hliðina.
Ekki misskilja þó, það er gott að kunna að leysa jöfnur allt svoleiðis og hver og einn finnur námsefni sem hæfir honum og hans áhugasviði. Aftur á móti þegar þú lærir nýtt tungumál opnar þú nýjar dyr inn í menningarheim sem þú hefðir annars aldrei getað opnað. Auk þess eykur þú skilning þinn á þínu eigin tungumáli með því að læra framandi orðaforða og málfræði til samanburðar við móðurmálið. Hvað myndi Frú Vigdís Finnbogadóttir segja ef öll ungmenni okkar frábæra lýðveldis vanræktu tungumál sí svona? Að því sögðu finnst mér að við ættum öll að taka okkur á og bera meiri virðingu fyrir tungumálalærdómi þar sem hann er öllum góður.
Penni: Katrín Valgerður