Hvernig hætti ég að raka af mér hárið?

Lífið er ferskt. Þú rakaðir af þér hárið og ættir að vera stollt. Fólk varaði þig oft við: ,,hvað ef hausinn þinn er skrítinn í laginu?”. Þú kemst að þeirri niðurstöðu að hausinn þinn er fínn í laginu. Fyrsta sturtan með nýja hárið er unaðsleg og rigning er ekki lengur vandamál. Hvers vegna raka ekki allir af sér hárið? Eftir nokkra hamingjusamar vikur tekur hárið að vaxa aftur. Þú hlærð að broddunum og rakar það svo aftur. Fólk hyllir hári þínu og segir þig hugrakka (þó þú sért ekki endilega viss um að það sé hrós). Þó mörgum líki við nýju útgáfuna af þér, ferðu að taka eftir gangandi vegfarendum með tíkarspena og fléttur. Þú ferð að sakna þess að geta falið þig bakvið hárið. Hvað ætlar þú að gera þegar eitthvað slæmt kemur fyrir? Ekki getur þú látið vinkonu þína klippa á þig topp. Eftir þessar spurningar kemstu að þeirri niðurstöðu að þú ætlir að byrja að safna hárinu aftur. Hér hefst martröðin endalausa.

Hárið vex ýmist beint upp í loftið eða lafir ámátlega niður. Þú getur ekkert gert. Ekki einu sinni húfur hylja hryllinginn sem hárið þitt hefur orðið. Þú ákveður að raka hárið aftur af. Í þetta skiptið líkar þér alls ekki við nýju klippinguna. Það sem eitt sinn gerði þig svala gerir þig nú að sorglegu eggi. Engar áhyggjur, það fyrirfinnast lausnir á þessum vítahring.

Breyttu til

Það eru nokkrar leiðir að leyfa hárinu að vaxa án þess að líta út eins og reitt hæna. Á milli taglsins og brodda eru mörg stig. Skoðaðu ólíkar hárgreiðslur sem þú gætir hugsað þér að skarta á meðan hárið vex. Einföld lausn er til dæmis að stytta hliðarnar en leyfa kollinum að vaxa. Önnur klassík er hið víðfræga mullet. Að lita hárið getur auk þess verið bæði hagstæðara og þægilegra á meðan hárið þitt er stutt. 

Notaðu skrautlegar spennur

Kannski þarftu að fara í barnadeildina – en skrautlegar spennur eru alltaf þess virði. Ekki nóg með það að spennur halda hárinu í skefjum; heldur geta þær einnig látið þig virðast mun stílhreinni en þú ert. Gramsaðu í bernskuminningunum. Líklega áttu enn nóg af firðildaspennum. Ef ekki, fást þær oftast ódýrar í mörgum fataverslunum!

Notaðu viðeigandi vörur

Þú gætir hugsað með þér: ,,ég er með stutt hár, ég þarf ekki að nota neitt í hárið.” Þetta er því miður ekki staðan fyrir flesta. Ef þú vilt halda hárinu heilbrigðu og þægilegu í meðferð gæti verið skynsamlegt að vafra á netinu. Hvernig hártýpu er ég með? Hvaða vörur henta þeirri týpu best? Auk þess getur hárgel bjargað miklu. Þú færð tækifæri til þess að vera skapandi og sýna hárinu hver ræður ferðinni.

Feldu hárið

Eins harkalega og það hljómar, þá munu koma dagar þar sem ekkert virðist ganga upp. Hárið skýst stjórnlaust í allar áttir. Í þessum aðstæðum getur verið hjálplegt að klæðast klútum og höttum. Ef þér finnst þægilegra að klæðast látlausari fatnaði er það alls ekki vandamál. Í mörgum nytjamörkuðum má finna gamla klúta í allskonar litum; jafnvel mildum.

Ef þú ert að hugsa um að krúnuraka þig myndi ég hiklaust mæla með því. Þó margar útskýringar virðist fælandi; getur ferlið verið mjög skemmtilegt. Þú færð tækifæri til þess að öðlast bæði reynslu og þolinmæði. Auk þess getur þú að eilífu stært þig á því að hauslagið þitt sé til fyrirmyndar.

Penni: Embla

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search