Hlauparáð – fyrir þig sem ekki vilt hlaupa

Penni: Embla Waage

Mörg þekkjum við þetta. Covid leyfir engar æfingar og bannar þér að sprikla í ræktinni. Þú kemst ekki í sund og það er of langt að hjóla í skólann. Auk þess er ekki þess virði að lifa í sveittum sokkum. Í fyrsta skiptið á ævi þinni ferðu að hugsa með þér: ,,kannski ætti ég að fara út að hlaupa?”. Þér ofbýður sjálfan þig. Síðan hvenær er ég meðlimur í þessu lúðaliði sem talar ekki um annað en hitaeiningar og hlaupaskó? Þessar spurningar eru nóg til þess að láta þig efast. Það sem lætur þig hætta við er vanvitneskjan. Hvar á ég að byrja?

Taktu því rólega

Engar áhyggjur. Útihlaup þurfa alls ekki að vera eins og hlaupaprófin í íþróttatímum. Í stað þess að keyra þig út og upplifa súrefnisskort á nokkrum mínútum getur þú einfaldlega slakað á. Farðu hægt af stað. Það skiptir engu máli þótt nágranni þinn hleypur framhjá þér. Eina manneskjan sem skiptir máli í þessu hlaupi ert þú. Aukin hamingja, ró og jafnvægi fylgja þér eftir hlaupið hvort sem þú slóst heimsmet eða ekki.

Veðrið er ekki slæmt

Flest okkar fóru í skandinavískan leikskóla. Flest okkar hafa heyrt þessi spöku orð – að veðrið sé ekki slæmt, heldur fötin þín. Eins óþolandi og þau eru, reynast þessi orð sönn. Það mun aldrei vera fullkomið hlaupafæri. Ef þú kemur þér ekki út þegar það er úði mun sólin endanlega verða fælandi. Á hin bógin er ekki skynsamlegt að hlaupa blautur í frosti. Einföld lausn finnst á þessu vandamáli – vertu í regnjakka. Auðvitað krefst mismunandi veður mismunandi útbúnaðar. Þó er gott að miðast við eftirfarandi viðmið:

  1. Ef það er sól og logn getur verið sniðugt að klæðast stuttbuxum og stuttermabol. Sumir eiga það til að klæðast of miklu og burðast um með margar peysur um mjaðmirnar. Það er ekki það versta sem getur gerst – þó, vissulega óhentugt.
  2. Það rignir og þú hatar lífið. Passaðu að klæðast ekki of miklu. Vertu samt sem áður í síðbuxum og regnjakka. Ef það er mikill vindur er alltaf klassík að vera í stuttbuxum yfir síðbuxurnar. 
  3. Þegar veturinn nálgast getur verið erfitt að klæða sig í viðeigandi fatnað. Reyndu frekar að vera í síðerma bolum heldur en jökkum. Það er einnig mikilvægt að vera með húfu, vettlinga og buff. Ekki gleyma buffinu – þú munt sjá eftir því. Það getur verið gáfulegt að vera frekar í síðum sokkum. Eins kjánalegt og það hljómar, munar oft miklu að geta dregið sokkana yfir ökklanna.

Takið þó með í reikninginn að þetta eru uppástungur eins ungmennis. Viðeigandi hlaupafatnaður er mismunandi milli manna. Stundum eru hlaupin löng og róleg. Önnur skipti kýstu að fara hraðar. Fatnaðurinn hefur eitt hlutverk: að vera ekki fyrir. Reyndu að halda þessu einföldu.

Nýttu tímann

,,En ég hef ekki tíma til þess að hlaupa.” Engin hefur tíma til þess að hlaupa. Að setja einn fótinn fyrir framan hinn í smá tíma hljómar eins og tímaeyðsla. Þó, eftir smá stund, hættir þú að hugsa um fæturna á þér. Þú ferð yfir atvikið sem átti sér stað í skólanum, myndina sem þú sást í bíó og hvers vegna mysingur er til. Sannleikurinn er sá að hlaup eru með því latasta sem manneskja getur haft fyrir stafni. Þú þarft varla að fylgjast með því sem þú ert að gera og upplifir samt alla kosti þess að stunda hreyfingu. Það er hægt að vera skynsamur og rifja upp staðreyndir fyrir söguprófið eða hlusta á þetta hlaðvarp sem þú ætlaðir alltaf að hlusta á. Það er líka hægt að gera það sem ég geri – nákvæmlega ekki neitt. Hlustaðu á uppáhalds lögin þín og ímyndaðu þér að Phoebe Bridgers sé frænka þín. Þetta er stund þar sem engin getur truflað þig – njóttu þess.

Teygðu (!)

Í Guðs bænum, ekki sleppa því að teygja.

Næring

Auðvitað er næring mikilvæg. Þetta vitum við vegna þess að við höfum öll fengið óteljandi kynningar um einmitt þetta málefni. Þú veist hvað er hollt og hvað ekki. Þú þekkir þetta. Því er mikilvægara að ræða um það sem engin veit: hvenær á að borða? Það er ekki viturlegt að hlaupa soltinn. Þó manstu hvernig það var að hlaupa á eftir strætó beint eftir kaffiboð ömmu þinnar. Það er nánast ekki hægt að ná þessu rétt. Gott viðmið er þó að borða ávöxt eða hnetur um hálftíma fyrir hlaup. Auk þess er gott að hafa einhvers konar orku meðferðis ef hlaupið er mikið lengra en þrjú korter. En auðvitað er þetta smekksatriði. 

Þvag og saur

Þetta er mikilvæg umræða sem ekki ber að sleppa. Það gæti virðst sjálfsagt, en gerðu það áður en þú ferð úr húsi. Fátt er verra en að vera hálfnaður með sæmilegan hring og finna fyrir hnút í maganum. Ef meltingin þín er erfið gæti verið skynsamlegt að hlaupa í gróðursettu umhverfi. Þó margt toppi runnapiss, er það skárra en að ,,vona það besta”.

Blöðrur og nuddsár

Eins fælandi og það hljómar, væri óheiðarlegt að minnast ekki á þetta. Líklega muntu fá nuddsár, blöðrur og hælsæri á mörgum tilefnum. Engar áhyggjur, það er hægt að draga úr hættunni. Í fyrsta lagi getur verið hjálplegt að vera í skóm sem passa. Það er þægilegt að nota gamla strigaskó af systur sinni, en ekki til lengdar. Að missa tánögl er ekki þess virði. Ef þú tekur eftir nuddsárum getur verið hentugt að bera vaselín á það fyrir næsta hlaup. Það kemur oft í veg fyrir frekari óþægindi.

Ekki taka mark á öllum hlauparáðum

Í hvert skipti sem manneskja fer á ‘djúskúr’ deyr hluti af sálinni minni. Það er svo ótal margt sem þú munt lesa sem á engin stoð í raunveruleikanum. Það að léttast um fimm kíló mun ekki endilega hjálpa þér að hlaupa. Megnið af þessum hlífum og aukagræjum munu ekki aðstoða þig. Vertu ákaflega gagnrýnin á öllu sem reynt er að selja þér. Ekki treysta öllu sem þú lest. Það sama gildir auðvitað um þessa blessuðu grein.

Að klæða sig í hlaupaskó og halda af stað í kuldann gæti virst ógnvekjandi í fyrstu. Hvað ef allir sjá að ég kunni ekki að hlaupa? Hvað ef mér líður hræðilega á leiðinni og þarf að labba? Hvað geri ég ef mér verður skyndilega mál? Þó, er erfiðasti hlutinn af öllum hlaupum að koma sér út um dyrnar. Kæri hlaupari, óttastu ei. Hver veit, mögulega gengur þú aftur inn um dyrnar heill á húfi. Að minnsta kosti ertu betur í stakk búinn en flestir byrjendur. Þú getur stutt þig við nokkur ráð. Gangi þér vel!

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search