Penni: Arnar Bjarkason

Skálkar eru mikilvægir í öllum sögum þar sem að þeir eru iðulega uppsprettur vandræða og drama í flestum þeirra. Einnig eru þeir mikilvægir hvað sem tautar og raular því án skúrks væri engin hetja. Slíkt hið sama gildir um rappbransann. Eflaust kannast flestir við það að rapptextar geta verið eilítið grófir oft og tíðum en er það ekki hluti af því að vera skúrkur? Mikið hefur verið fjallað um það hvort rapptónlist hafi slæm áhrif á samfélagið og hefur það verið ansi umdeilanlegt frá því að rapp var fyrst kynnt til sögunnar árið 1973. Sumir telja að rapptónlist stuðli að ýgi ungmenna og hafa rapparar eins og Eminem verið gagnrýndir harkalega fyrir að ýta undir hatursorðræðu gagnvart t.d. menningarkimum af ýmsum toga en aðrir vilja meina að hún hafi jákvæð áhrif á samfélagið. Þetta er þó þannig séð ekkert nýtt umræðuefni hvað afþreyingariðnaðinn áhrærir þar sem að t.a.m. skúrkum úr ofurhetjumyndum og teiknimyndablöðum hafa oft einnig verið álasað fyrir að stuðla að slæmum verknuðum og einnig neikvæðum áhrifum á fólki í samfélaginu (sjá t.d. umræður um The Joker og The Dark Knight). En af hverju er ég að tala um rapptónlist í þessu samhengi? Nú, það er vegna þess að til var rappari sem sameinaði þessa tvo heima og gekk sá maður undir nafninu MF-DOOM (ásamt öðrum dulnefnum en komið verður inn á þau seinna í þessari grein). Þetta er sagan af ,,The Illest Villain.”

,,Villains who possess supernatural abilities— villains who were the personification of carnage. Madvillain, more accurately, the dark side of our beings. Perhaps it is due to this seminal connection that audiences can relate their experience in life with the villains and their dastardly doings.”

(Madvillainy, The Illest Villains, 2004)

Daniel Dumile fæddist í London níunda janúar 1971. Hann var sonur trínidadískrar móður og föður frá Zimbabwe sem fluttust til Long Island í New York þegar hann var lítill. Hann hlaut aldrei bandarískan ríkisborgararétt og safnaði myndasögum af miklum ákafa sem unglingur. Átti

þetta bæði eftir að hafa mikil áhrif á líf hans og list síðarmeir. 17 ára gamall stofnaði hann rapphljómsveitina KMD ásamt yngri bróður sínum Subrock. Hún komst á mála hjá Elektra- Records og Dumile þreytti rappfrumraun sína sem gestur í lokaversi í laginu ,,Gas Face” með rappsveitinni 3rd Bass þar sem að hann gekk undir rappnafninu Zev Love X. Hann var aðeins 18 ára þegar hann þreytti rappfrumraun sína.

Fyrsta plata KMD kom út 1991 við lítinn lúðraþyt og næsta breiðskífa þeirra var tilbúin 1993 en kom aldrei út, sökum eldfims titils, umslags, og róttækrar kynþáttapólitíkur. Á umslagi plötunnar Black Bastards er mynd af svartri Sambó-fígúru hangandi í gálga, og textar hennar voru innblásnir af róttækri hreyfingu svartra múslíma sem kennd er við fimm prósent Íslam. Platan kom loksins út árið 2001, en útgáfufyrirtæki sveitarinnar á þessum tíma setti plötuna ofan í skúffu og sagði upp samningi KMD, en á svipuðum tíma lést bróðir hans og samstarfsmaður, Subrock í bílslysi.

Þetta tvöfalda áfall varð til þess að Daniel Dumile varð fráhverfur hipphopp-bransanum og hvarf í þrjú til fjögur ár. Enginn sá hann en sjálfur sagðist hann hafa verið nánast heimilislaus, reikað stefnulaust um Manhattan og sofið á bekkjum, meðan sálrænu sárin greru og hann skipulagði hefnd gagnvart iðnaði sem hafði afskræmt hann. Seint 97 eða snemma 98 fór að troða upp rámur rappari á open mic kvöldum í Nuyorican Poets Café á Manhattan, náungi sem kom ávallt fram með grímu sem minnti á Marvel-óþokkann Doctor Doom. Glöggir áheyrendur þóttust þekkja þarna Daniel Dumile eða Zev Love X sem hafði ekki sést í mörg ár og kallaði sig nú MF DOOM.

Hann gaf út fyrstu breiðskífu sína Operation: Doomsday árið 1999 undir MF-DOOM nafninu þar sem að hann sá um alla takta breiðskífunnar upp á eigin spýtur. Þarna varð til nýr listamaður og rödd, súperskúrkurinn MF DOOM sem spígsporaði gegnum freðna takta í súrrealísku vitundarflæði sem valhoppaði milli hág- og lágmenningar, og textarnir vísuðu jöfnum höndum í teiknimyndasögur, heimspeki, morgunkorn, kung-fu-myndir og jafnvel málfræði. Helsta einkennismerki MF-DOOM var málmgríma sem bar keim af málmgrímu Dr. Doom úr Fantastic Four. Hann sást aldrei á almannafæri án grímunnar mikilfenglegu.

Upp úr aldamótum var mjög afkastamikill tími fyrir MF DOOM, hann gaf út nokkrar instrumental-plötur undir nafninu Metal Fingers, og tvær breiðskífur undir nöfnunum King Geedorah og Vaudeville Villain árið 2003. Á þessum tíma var hann að þróast sem rappari og taktsmiður, en sem slíkur notaðist hann mikið við raddbúta úr gömlum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, sem oft vísuðu til skúrka, sem ásamt grímunni góðu ljáðu lögum hans leikrænan blæ. Sem rappari var hann skúrkur sýningarinnar.

Árið 2002 kynntist MF DOOM upptökustjóranum Madlib frá Kaliforníu. Þeim kom afar vel saman en voru þeir báðir miklir aðdáendur kannabisreykinga og rykfallinna djassplatna. Báðir voru þeir ómeðvitaðir um það að samstarf þeirra átti eftir að geta af sér eina af bestu plötum 21. aldar eða Madvillainy. Þarna hittust tveir ólíkir listamenn sem deildu anda frekar en aðferðafræði, það er eitthvað við áferðina í rappi MF DOOM sem fellur eins og flís við rass takta Madlib. Þeir runnu saman í persónuna Madvillain, og platan þeirra Madvillainy er ein sú besta

sem 21. öldin hefur gefið af sér en hún er 22 lög og 46 mínútur, engin viðlög og engar málamiðlanir, neðanjarðar hip-hop sem samt er hægt að spila fyrir nánast alla.

Madlib er algjör sérvitringur hvað rapp-taktsmíð varðar og er hann afar oft talinn vera á meðal þeirra bestu frá sinni kynslóð. Taktarnir á Madvillainy hjálpuðu gífurlega við það að ljá honum þann titil. Hann er þekktur fyrir að leita fanga í t.a.m. bossa nova, sýrudjassi, kántríi, prog-rokki og lyftutónlist sem þótti afar óvenjulegt á sínum tíma. Lögin eru stutt, flest ein til tvær mínútur, án viðlaga, og hvergi annars staðar er hægt að heyra betur eimaðan kjarna þess sem MF DOOM gerir betur en allir aðrir.

Líkt og á langflestum plötum MF-DOOM er enginn sérstakur söguþráður en sjálfur hefur hann sagt að klikkuðu skúrkarnir í breiðskífum hans séu nóg til þess að mynda lauslegt þema. MF- DOOM leggur frekar áherslu á óþrjótandi hugmyndaauðga, lygilega orðgnótt og súrrealískt vitundarflæði sem hoppar frá einni óviðjafnanlegri myndlíkingu til þeirrar næstu, fram hjá rökhugsunarstöðvum heilans og sem sullast beint ofan í orðasalat undirmeðvitundarinnar. Því það er þannig sem heilinn virkar í raun og veru, myndar tengingar milli orða í gegnum rím, handahófskenndar minningar, hljóðræn líkindi og skrýtinn húmor, en það eru bara fáir sem ná að koma því á framfæri á jafn skapandi hátt og MF-DOOM. Það væri of langt mál að telja upp lista hinna ýmsu miðla um bestu plötur ársins, áratugarins og aldarinnar þar sem Madvillainy er ofarlega, en Earl Sweatshirt segir plötuna hafa haft svipuð áhrif á sína kynslóð og Wu-Tang Clan gerði með Enter The Wu-Tang (36 Chambers) áratug fyrr, og listamenn eins og Tyler The Creator, Thom Yorke, Danny Brown, Flying Lotus og Damon Albarn telja hana til sinna uppáhalds. Árið 2005 rappaði MF DOOM í laginu November has Come á metsöluplötunni Demon Dayz með Gorillaz og gaf út plötuna Mouse and the Mask undir heitinu Danger Doom í samstarfi við heitasta upptökustjóra þess tíma, Dangermouse. Hún var gefin út í samstarfi við teiknimyndarásina Adult Swim og raddir úr Aqua Teen Hunger Force bundu hana saman. Danger Doom er ekki talin vera eins góð og Madvillainy en fagurfræði taktanna er líka allt önnur, í stað skítugra svart-hvítra djass-sampla eru skærir teiknimyndasynþar í tekníkolor. En rám rödd MF DOOM, marglaga rím-strúktúrinn og freðna kímnigáfa hans eru þó alveg jafn upplögð þó hljómurinn sé öðruvísi.

Árið 2009 kom út sjötta og síðasta sólóbreiðskífa MF DOOM sem var talsvert dekkri en þær sem á undan komu. Titillinn Born Like This er vísun í ljóð Charles Bukowski, en upptöku af honum má heyra á plötunni. Síðan eiga Wu-Tang-meðlimirnir Ghostface Killah og Raekwon eftirminnilegar gestainnkomur og upptökustjórinn J-Dilla sem þá var látinn á nokkra góða takta. Annars er platan nánast bara DOOM og gallsúrar rímur ásamt stórfurðulegu skopskyni hans. Born Like This sem kom út 2009 var síðasta óumdeilda meistaraverkið frá MF DOOM.

MF DOOM var aldrei fyrirsjáanlegur og stundum ósvífinn í list sinni, enginn vissi hvernig hann leit út í seinni tíð og hann átti til að senda staðgengla með stálgrímuna til að koma fram á tónleikum í sínu nafni. Það reitti áhorfendur til reiði en hann sagðist vera leikstjóri persónunnar MF DOOM sem hver sem er gæti leikið. Árið 2010 fór hann í tónleikaferð um Evrópu en var ekki leyfð innganga í Bandaríkin þegar hann hugðist snúa aftur vegna skorts á ríkisborgararétti, þrátt fyrir að hafa búið þar í um 30 ár og eiga bandaríska konu og þrjú börn með henni.

Eftir það var hann tilknúinn til þess að fara til Lundúnar og þar sem fjölskyldan fluttist til hans einnig. Hann bjó þar ásamt fjölskyldu sinni alveg þar til að hann safnaðist til feðra sinna þann 31. október árið 2020. Síðasti áratugur hjá MF DOOM var ekki jafn afkastamikill og sá sem á undan kom og gæðin slaga heldur ekki í hápunkta hans á 1. áratug aldarinnar. Hann gaf út samstarfsplötur sem ekki hafa farið hátt og átti gestavers hér og þar, t.d. hjá hljómsveitinni BADBADNOTGOOD.

Einkalíf MF DOOM hefur alltaf verið á talsverðu reiki, hann var aðeins 49 ára að aldri og ekki er vitað hvort einhver veikindi voru að hrjá hann. Það er í raun mjög skrýtið að andlát jafn vinsæls listamanns sé ekki tilkynnt fyrr en tveimur mánuðum eftir á og ekkert sé gefið uppi um dánarorsök. Þó eru ekki margar dægurstjörnur jafnheppnar og MF-DOOM þar sem fjölskyldan hans fékk að syrgja hann í friði vegna leyndardómsfulls ferils hans. Allt bendir þó til þess að helsta neðanjarðarhetja (eða skúrkur) rappsögunnar sé fjörvana. Bresk-bandaríski rapparinn Daniel Dumile eða MF-DOOM var víðkunnur fyrir bráðskemmtilega orðaleiki, margatkvæða innrím og gallsúrar myndlíkingar sem ullu upp úr barka hans eins og ekkert væri. Hann batt bagga sína svo sannarlega ekki sömu hnútum og samferðarapparar sínir en saga hans er því einstök og stútfull af þjóðsögum og leyndardómi frá fæðingu til dauðadags. Hann lést 31. október en fregnir af því voru ekki gerðar opinberar fyrr en á gamlársdag tveimur mánuðum síðar í Instagram-færslu frá eiginkonu hans. Hann var 49 ára og ekkert hefur enn verið gefið upp um dánarorsök hans.


María Árnadóttir | Neminn.is

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search