Innsent efni eftir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra greiningar og fræðslu Íslandsbanka
Glæpasagnahöfundurinn Catherine Aird sagði eitt sinn „ef þú getur ekki sýnt gott fordæmi þarftu bara að sætta þig við að vera hræðileg viðvörun“. Ég veit ekki með ykkur en mér þætti hið fyrra betra. Það er nefnilega leiðinlegt að átta sig á því eftir á við gerðum meiriháttar mistök. Vissulega getur það verið tækifæri til þess að læra af reynslunni og gera betur næst, en það getur líka verið svo dýrt að okkur bjóðast jafnvel fá tækifæri til að gera betur næst.
Best og ódýrast er þó að læra af reynslu annarra og þá skiptir kannski litlu máli hvort viðkomandi hafi reynst gott fordæmi eða hræðileg viðvörun. Með því að setja sér nokkrar þumalputtareglur, tileinka sér ákveðin prinsipp og læra örfá atriði er hægt að auka stórlega líkurnar á því að okkur muni vegna í það minnsta aðeins betur hvað varðar peningana okkar og minnka sömuleiðis líkurnar á að við lendum í fjárhagserfiðleikum.
Þetta er mikið áhugamál hjá mér og því var það mér mikil ánægja þegar óskað var eftir því að ég hripaði hér niður nokkur orð í ykkar fína blað. Lítum snöggvast á 10 ráð um peninga sem vonandi geta gagnast ykkur.
Ráð 1 – Eigðu alltaf varasjóð
Treystu mér, þú munt þakka þér fyrir það seinna meir ef þú reynir að halda þig við þessa reglu. Með því að eiga alltaf til dágóða fjárhæð, svo sem 100.000 krónur, minnka stórlega líkurnar á því að þú lendir í þeirri stöðu að þurfa að taka rándýrt neyslulán ef eitthvað kemur upp á. Allt of mörg okkar eiga ekki til neina slíka sjóði þegar tölvan okkar bilar, jólin reynast dýrari en við héldum, okkur býðst tækifæri til að fara skemmtilega ferð til útlanda eða annað óvænt verður þess valdandi að við þurfum að eyða peningum. Ákveddu fjárhæð sem þú telur að henti þér og reyndu svo eins og þú mögulega getur að fylla strax á sparnaðinn eftir að þú hefur þurft að sækja einhverja aura í hann.
Ráð 2 – Reyndu að dreifa ekki greiðslum
Það er ágætis þumalputtaregla að kaupa aldrei neitt strax og borga fyrir það síðar, nema þegar tekin eru húsnæðis- eða námslán. Möguleikum til greiðsludreifingar hefur fjölgað til muna að undanförnu og eru orðnir mun aðgengilegri en áður en það þýðir ekki að það sé góð hugmynd að nýta þá. Með því að kaupa eitthvað í dag og greiða fyrir það síðar, hvaða nafni sem það kallast, ertu að öllum líkindum að fara að borga mun meira fyrir kaupin en þau kosta. Ef þú vilt ekki borga meira fyrir símann en hann kostar skaltu safna fyrir honum og borga á staðnum. Ef þú neyðist til að taka lán skaltu sækja þér ráðgjöf um hvaða lán er ódýrast fyrir þig og hvernig þér mun best takast að greiða það niður. Slík ráðgjöf kostar ekkert.
Ráð 3 – Passaðu þig á smálánum
Umboðsmaður skuldara er stofnun sem aðstoðar fólk sem lendir í meiriháttar fjárhagserfiðleikum. Árið 2012 voru 5% skjólstæðinga stofnunarinnar 18-29 ára en það hlutfall hefur ríflega fimmfaldast síðan þá. Á sama tíma hefur hlutfall þeirra skjólstæðinga sem tekið hafa smálán eða skyndilán hækkað úr 6% í vel yfir helming. Smálán eru ákaflega dýr og geta verið síðasti viðkomustaður fólks áður en það lendir algjörlega á vegg í fjármálunum og getur ekki rétt úr kútnum. Reyndu því að halda þig alveg frá þeim.
Ráð 4 – Skráðu þig í séreignarsparnað
Ef þú ert að vinna en ert ekki með séreignarsparnað ertu á 2% lægri launum en þú átt rétt á og færð ekki skattaaðstoð frá hinu opinbera þegar þú kaupir þína fyrstu íbúð. Þess vegna er um að gera að ganga frá slíku strax, alveg sama hversu mikið þú vinnur eða hversu há launin þín eru. Eftir að þú hefur skrifað undir samning eru 2-4% af laununum þínum dregin frá í hverjum mánuði og vinnan þín verður að gefa þér 2% til viðbótar. Þú getur svo notað þessa peninga til að hafa það betra þegar þú verður eldri eða til þess að leggja fram við skattfrjálsa útborgun þegar þú kaupir þína fyrstu íbúð. Þetta hefur svo sannarlega hjálpað mörgum.
Ráð 5 – Byrjaðu snemma að safna fyrir fyrstu íbúð
Ef þú hefur í hug að kaupa þér íbúð skaltu passa að byrja ekki að spara fyrir henni of seint. Við Íslendingar erum í kringum 23 ára þegar við að meðaltali flytjum úr foreldrahúsum en kaupum að meðaltali okkar fyrstu íbúð um 9 árum síðar. Fjölmargir festast á leigumarkaði sem ekki vilja vera þar vegna þess að það er dýrt að borga leigu og erfitt að safna fyrir íbúð á sama tíma. Ef þú ert að hugsa um að kaupa íbúð og býrð heima hjá foreldrum þínum skaltu í það minnsta spá í því að byrja að spara strax, á meðan þú þarft ekki að borga leigu.
Ráð 6 – Lærðu að lesa launaseðilinn þinn
Ertu ekki örugglega að fá það sem þú átt rétt á? Er vinnuveitandinn þinn að greiða þér yfirvinnu þegar þú átt rétt á henni og millifæra yfir í séreignarsparnaðinn þinn í hverjum mánuði? Með því að kunna að lesa launaseðilinn þinn getur þú passað upp á þetta. Góðar leiðbeiningar er að finna á netinu, til dæmis hjá stéttarfélögunum en þú getur líka óskað eftir aðstoð frá þeim sem greiðir þér launin.
Ráð 7 – Kannaðu hvort þú komist hjá því að eiga bíl
Það getur verið mjög dýrt að eiga bíl. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) tekur saman dæmi um slíkan kostnað á hverju ári og tekur þá allt með í reikninginn, svo sem verðlækkun bílsins, eldsneyti, skoðun, tryggingar, viðhald og fleira. Kostnaðurinn getur jafnvel numið 1-2 milljónum króna á hverju ári og ef við erum að spara á sama tíma getur það hjálpað okkur til muna að leggja bílnum eða sleppa honum alfarið. Kannski er hægt að leigja bíl hluta ársins í staðinn, taka leigubíl eða strætó, hjóla eða ganga og spara heilmiklar fjárhæðir í leiðinni.
Ráð 8 – Finndu sparnað í neyslunni þinni
Það fyrsta sem við skoðum þegar við byrjum að spara er að draga úr neyslu. Hvað heldur þú að þér tækist að sparað mikið með því til dæmis að fækka ferðum í sjálfsala, segja upp óþarfa áskriftum, vera duglegri að kaupa notaðar vörur eða smyrja oftar nesti í stað þess að kaupa tilbúinn mat? Þegar margt slíkt er lagt saman getur verið hægt að auka talsvert við sparnaðinn sinn og þar getur jafnvel munað mjög háum fjárhæðum.
Ráð 9 – Sparaðu og hafðu góð áhrif á umhverfið í leiðinni
Með því að kaupa notað og selja það sem við erum hætt að nota höfum við ótvírætt mjög jákvæð áhrif á umhverfið en við getum líka sparað heilmikið. En þurfum við endilega að kaupa? Góð regla, sem margir hafa tileinkað sér, er að kaupa aldrei neitt strax. Í stað þess að kaupa skóna um leið og þú sérð þá í skóbúðinni skaltu koma aftur á morgun. Þá hefur þú náð að sofa á þessu og áttar þig jafnvel á að þú þarft skóna ekki eins mikið og þú hélst. Prófaðu þetta, það er hreint ótrúlegt hvað þetta virkar oft.
Ráð 10 – Lærðu að gefa út reikning
Við munum ekki öll fá tekjur okkar að fullu úr hefðbundinni fullri vinnu. Lítil verkefni eða stór sem við getum tekið að okkur eru að verða stærri hluti tekna fólks og munu eflaust bara aukast með árunum. Leitaðu tækifæra til að nýta hæfileika þína til að skapa þér aukatekjur og passaðu upp á að þú kunnir að gefa út reikning fyrir slíku og rukkir rétt verð.