Sambandsstjórn SÍF samþykkti ályktanir vegna Menntasjóðs námsmanna og vegna fjármagns og COVID-19 á aðalþingi SÍF 2020, laugardaginn 12. september. Fyrir neðan má sjá ályktanirnar í heild sinni og einnig er hægt að nálgast ályktun um framhaldsskólanema og Menntasjóðs námsmanna á pdf formi hér, og ályktun vegna fjármagns og COVID-19 hér.
Ályktun um framhaldsskólanema og Menntasjóð námsmanna
Samþykkt á aðalþingi Sambands íslenskra framhaldsskólanema sem haldið var á vefsvæðinu Zoom, laugardaginn 12. september 2020
Sambandsstjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema ályktar að ekki sé nóg að gert í málefnum framhaldsskólanema í nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna sem tóku gildi þann 9.6.2020.
Skýtur það skökku við í ljósi þess að í Skýrslu Norræna ráðherraráðsins frá árinu 2018 kemur fram að brottfall íslenskra ungmenna úr skólum er umtalsvert hærra en á öðrum Norðurlöndum eða 19,8% á meðan Noregur, sem kemur næst á eftir, er með 10,9% og meðaltalið í Evrópusambandinu er 10,7%. Þá hefur nemendum orðið tíðrætt um aukið álag vegna þriggja ára kerfisins á fundum félagsins undanfarin misseri.
Á hinum Norðurlöndunum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og í Danmörku fá framhaldsskólanemar styrki frá lánasjóði viðkomandi lands, ekki eingöngu jöfnunarstyrk þ.e. aksturstyrk og dvalarstyrk, líkt og þekkist hér á landi, heldur fá þeir einnig styrki til að stunda nám, óháð búsetu og námsleið (bóknám/iðnnám). Ef litið er á samantekt Hagstofunnar frá 2018 má sjá að það ár unnu 55,6% 17 ára ungmenna á Íslandi samhliða skóla og 70,1% þeirra sem voru á aldrinum 18 – 25 ára. Að mati sambandsstjórnar er þetta skýrt merki um að gera þarf mun betur þegar kemur að fjárhagslegum stuðningi við unga námsmenn hérlendis.
Þá er bent á að í Noregi getur ungt flóttafólk fengið styrk til að stunda nám í framhaldsskóla sem sambandsstjórnin telur vera til fyrirmyndar og ætti að taka upp hér á landi en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru mun færri innflytjendur sem ljúka námi úr íslenskum framhaldsskólum en aðrir nemendahópar. Verður að teljast líklegt að fjárhagsörðugleikar séu ein þeirra ástæðna sem liggja þar að baki.
Sambandsstjórnin krefst þess að við endurskoðun laganna verði tryggt að nám til stúdentsprófs falli einnig undir markmið Menntasjóðs námsmanna, „ að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja“. Einnig krefst sambandsstjórnin þess að nemendur geti fengið styrk til að stunda nám líkt og þekkist á Norðurlöndunum.
Draga má líkum að því að með styrkjakerfinu þyrftu nemendur að vinna minna meðfram skóla og gætu því einbeitt sér frekar að náminu, enda allra hagur að sem flestir ljúki framhaldsskóla á tilsettum tíma.
State of The Nordic Region 2018 (bls.92)
Börn á íslenskum vinnumarkaði (tafla 4)
Ályktun Sambands íslenskra framhaldsskólanema vegna fjármagns og COVID-19
Samþykkt á aðalþingi Sambands íslenskra framhaldsskólanema sem haldið var á vefsvæðinu Zoom, laugardaginn 12. september 2020
Þann 28. febrúar 2020 greindist fyrsta tilfellið af COVID-19 hér á landi. Síðan þá hefur ríkt mikil óvissa í samfélaginu og hefur veiran lagt sitt mark á allt starf á Íslandi, þar með talið skólastarf. SÍF tekur því fagnandi að nú í byrjun skólaárs hefur verið hægt að bjóða upp á staðnám í flestum skólum með tilkomu eins metra reglunnar innan framhalds- og háskóla.
Hinsvegar vekur ástandið upp nokkrar áhyggjur á stöðu nemenda og ýmislegt hefði verið hægt að gera til að bæta það ástand. Í vor var ástandið fordæmalaust og þurfti að grípa til neyðaraðgerða þar framhaldsskólar voru færðir í fjarnám. Ekki allstaðar var fjarnámið fullnægjandi fyrir þarfir nemenda sem valið höfðu að sækja staðnám þegar sótt var um skólavist. Að öllu jöfnu tókst þó vel til miðað við þær ófyrirséðu aðstæður sem mynduðust í vor.
Nú í haust er hins vegar annað upp á borðinu. Nægur tími hefur gefist til að líta aftur og sjá hvað betur mátti fara og hvað gekk vel. Oft bárust fregnir frá sóttvarna- og landlækni um aðra bylgju faraldursins þar sem getgátur voru um hvenær en ekki hvort veiran myndi geysa hérlendis aftur. Ástandið er þannig að nemendur eru skikkaðir til að mæta í skólann óháð því hvort einhver nákominn þeim sé í áhættuhóp fyrir alvarlegri veikindum vegna veirunnar og einnig óháð því hvort að þeir treysti sér til að mæta í skólann eða ekki vegna hræðslu við smit. Nemendur eru oft á tíðum þá skikkaðir til að vinna sjálfstætt heimavið án stuðnings eða sækja um sértækt fjarnám sem að öllu jöfnu er mun dýrara en staðnám. SÍF telur það nauðsynlegt að gera öllum skólum kleift að útvega sér góðan fjarfundarbúnað til að nemandi fái að taka þátt í kennslustund með samnemendum sínum án frekari aðgreiningar.
Nú þegar eru brottfallstölur nemenda úr íslenskum framhaldsskólum umtalsvert hærri en það sem viðgengst á Norðurlöndunum eða 19,8% á meðan Noregur, sem kemur næst á eftir, er með 10,9%. Nám á aldrei að vera svo íþyngjandi að nemandi treystir sér ekki til að ljúka því. Það getur verið erfitt fyrir ungmenni sem hefur hætt í skóla að snúa aftur í nám, margir upplifa vanvirkni, kvíða, félagslega útskúfun og fordóma frá samfélaginu. Ástæður fyrir brottfalli úr námi geta verið margvíslegar t.d. andleg vanlíðan, skortur á fjárhagslegum stuðningi, ofkeyrsla og að nám henti viðkomandi ekki. Óvissuástandið sem blasir við nemendum í dag er líklegt til að auka andlega vanlíðan og þar með stuðla að enn frekari brottfalli en á námsárinu 2017-18 hætti 141 nemandi í námi vegna andlegra veikinda. Sú tala er eflaust mun hærri í ár sem er gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið. Þessu þarf að bregðast við. Nemendur þurfa að fá þann stuðning sem þeir þurf áður en til brottfalls kemur. Biðin og kostnaðurinn eftir sálfræðiþjónustu getur verið gríðarlegur, allt upp í 3 mánuðir sem er heil skólaönn og 16 þúsund kr. fyrir hvern sálfræðitími. Á þeim tíma getur andleg heilsa einstaklings hrakað gríðarlega. Því telur SÍF að fjármagninu væri vel varið í að að gera sálfræðiþjónustu fyrir framhaldsskólanema aðgengilega öllum nemendum.
Í fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 mun framlag ríkisins til framhaldsskólastigsins fara hækkandi, samkvæmt tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu. SÍF tekur því fagnandi og telur þetta gullið tækifæri til að hlusta á raddir á nemenda svo að fjármagnið verði nýtt á réttan hátt, í þágu nemenda.
Í nágrannalöndum okkar á norðurlöndunum fá nemendur styrk til að sækja nám. Það á það til að gleymast að framhaldsskólanemar eru ekki einungis fólk á aldrinum 16-19 ára sem stunda bóklegt nám, heldur eru nemendur jafn fjölbreyttir og þeir eru margir. Margir þeirra þurfa, í ofanálag við námið, að vinna til að greiða reikninga og eiga salt í grautinn.
Þar sem nám er full vinna í sjálfu sér finnst SÍF tilvalið að sett verði fjármagn í það að styrkja nemendur til náms, auka tæknivæðingu skólanna og bæta sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum landsins. Ekki aðeins til að létta þeim róðurinn heldur einnig til að hvetja þá áfram og tryggja aðgengi að námi óháð efnahagi einstaklinga.
SÍF krefst þess að:
- Áhugasviðskannanir séu aðgengilegar öllum grunn- og framhaldsskólanemendum þeim að kostnaðarlausu;
- Aukinn stuðningur og utanumhald sé veitt þeim nemendum sem teljast í áhættuhópi um brottfall, þeim að kostnaðarlausu;
- Kennarar og annað starfsfólk skólanna fái kennslu og þjálfun í að veita jaðarsettum hópum stuðning;
- Nemendur séu upplýstir um að þeir hafi ávallt val um að skipta um námsleið.
Þar með ályktar sambandsstjórn SÍF:
- Að allir þeir nemendur sem einhverja hluta vegna geti ekki mætt til staðnáms fái án athugasemda undanþágu frá staðnámi;
- Að tryggt sé að nemendur fái aðgang að kennurum sínum á sama hátt og aðrir samnemendur;
- Að góður fjarfundarbúnaður sé til staðar í kennslustofum;
- Að greinagóð áætlun sé gerð með tilliti til þeirra nemenda sem einhverra hluta vegna geti ekki stundað fjarnám.