Jóhanna Björk Hafrún ákvað að leggja stund á þjóðfræði í Háskóla Íslands, sem hún telur að margir viti lítið um.
Jóhanna hóf fyrst nám í mannfræði, en í gegnum það nám kynntist hún þjóðfræði og ákvað að skipta. Þjóðfræði er náskyld grein mannfræðigreinarinnar, en eins og nafn greinarinnar gefur til kynnar fjallar þjóðfræði um hverskyns þjóðlegan fróðleik á borð við þjóðsögur og þjóðlög. ,,Þjóðfræðin rannsakar manninn. Hvernig hann tengist efnismenningunni og þá er horft á til dæmis klæðnað, heimili og hvernig fólk myndar samband við hluti. Einnig eru hefðir skoðaðar, siðir, sögur og sagnir, trú, jafnvel brandara, vísur og tónlist. Tjáning fólks er skoðuð og hvernig það hegðar sér í samfélaginu, hvernig það túlkar umhverfið. Þjóðfræðin skoðar fortíð, nútíð og framtíð. Þjóðfræðin er í raun fagurfræði hversdagsins.”
Kósý stemming
Jóhanna segir að það sé kósý stemming í þjóðfræðitímum. ,,Fyrsta önnin kom mér skemmtilega á óvart. Það eru frekar fáir saman í þessari námsgrein miðað við aðrar greinar í HÍ. Ég fann fyrir því að mig hlakkaði til að mæta í tíma og kennararnir eru líka æði.”
Jóhanna segir að fyrir alla sem hafa gaman að því að pæla í hegðun fólks í tengslum við þjóðfélag og menningu mælir hún með þessu námi. ,,Afhverju hegðar fólk sér á þennan hátt í samfélaginu? Afhverju klæðumst við eins og við klæðumst? Afhverju skreytum við húsið okkar með þessum ákveðnu hlutum? Það er líka farið yfir sögur, hefðir og jafnvel drauga og álfatrú.”
Plön í dag verða önnur á morgun
Þegar Jóhanna byrjaði í háskólanum vissi hún ekkert um þjóðfræði, en kynntist fræðigreininni fljótt fyrstu vikurnar í mannfræði. ,,Þegar ég sótti um í HÍ vissi ég ekkert um þjóðfræði, en fyrstu vikurnar kynntist ég þessu fagi og skipti. Ég sé ekki eftir því þar sem þetta er klárlega á mínu áhugasviði. Ég get alveg trúað því að það eru fleiri en ég sem hafa ekki heyrt um þjóðfræði. Ég hef líka verið spurð hvað það er þegar það er verið að spyrja mig um hvað ég er að læra. Það virðist svo vera að fólk almennt heyri ekki oft um þjóðfræði,” enda eru fáir sem leggja stund á það nám.
Aðspurð um framtíðarplön segir Jóhanna marga möguleika vera opna. ,,Ég heillast mikið af söfnum, það væri skemmtilegt að vinna í kringum söfn, en annars er margt sem ég gæti hugsað mér að gera. Ég veit ekki alveg hvað það er akkúrat núna, það er ekki eitthvað eitt sem ég ætla mér að gera. Framtíðarplön mín í dag verða mögulega allt önnur á morgun.”
PENNI: Sólrún Freyja Sen