Ekki bara freudistar í sálfræði

Kristinn Ingvarsson er 22 ára og er á fyrsta ári sínu í sálfræðinámi við Háskóla Íslands. Hann þáði að svara nokkrum spurningum um námið. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Afhverju ákvaðstu að fara í sálfræði?

– Ég tók bara sálfræði hundrað í menntó fyrir hálfgerða tilviljun og fannst það bara geggjað. Ég endaði svo á að taka alla sálfræði áfangana sem voru í boði í skólanum og var eiginlega heillaður. Þetta var spennandi og höfðaði til mín þar sem mér hefur til dæmis alltaf þótt það sem liggur að baki hegðunar fólks áhugavert, en það er eitt af því marga sem sálfræðin fjallar um.

Hvernig er fyrsta árið? 

  • Sko, á fyrstu önninni er mikil vinna og mikil pressa. Það er mikill lestur og farið yfir mjög mikið efni á stuttum tíma sem kemur mörgum á óvart. Það kom sjálfum mér á óvart hvað ég gat lesið og lært mikið heima endalaust, en það kemur samt bara náttúrulega þegar allir í kringum þig eru að gera það sama. Þá finnst manni það bara eðlilegt.

Er sían hræðileg?

  • Sían er ekki hræðileg að mínu mati. Það er samt mín upplifun að maður á ekki séns á því að komast í gegn nema maður sitji sveittur og lærir jafnt og þétt alla önnina. Maður kemst ekki upp með að slaka bara á og læra síðan fyrir lokaprófin, því þetta er svo mikið efni.

Myndirðu mæla með þessu námi? 


Ég myndi klárlega mæla með þessu námi. Allir sem hafa til dæmis áhuga á mannlegri hegðun ættu að kynna sér sálfræði. Ég mæli líka með að sem flestir skoði aðeins hvað sálfræði hefur upp á að bjóða. Sálfræðin á sér óteljandi undirgreinar sem flestir hafa ekki hugmynd um. Fólk virðist voðalega oft þekkja bara staðalímyndina af skeggjuðum karli með sjúkling á legubekk sem veltir fyrir sér kenningum Sigmund Freud. Raunveruleikinn er þó allt annar. Það er svo margt fleira í boði en bara klínísk sálfræði.

Finnst þér námið hafa breytt hugarfari þínu að einhverju leyti? 

Já, fyrst og fremst að því leiti að ég trúi ekki öllum fullyrðingum sem ég heyri frá fólki eða les á netinu. Það er þá aðallega vegna aðferðarfræðinnar sem við lærum. Eftir að hafa setið það námskeið finnst mér að vísindaleg aðferðafræði ætti að vera skyldunámskeið í menntaskóla,  jafnvel grunnskóla. Í dag er svo mikið upplýsingaflæði á netinu og erfitt að greina á milli þess sem er ekta og þess sem er það ekki. Það að hafa setið námskeið um vísindalega aðferðafræði hefur orðið til þess að ég efast aðeins meira um það sem ég les og gleypi ekki hvaða fullyrðingum sem er.

Hvað ætlar þú að gera eftir námið? 

Ég er alls ekki viss. Eins og er langar mig að sérhæfa mig í einhverju tengdu fíkn eða glæpum.

Afhverju heldurðu að fólk velji að fara í sálfræði?

– Það er algengast að fólk velji þetta fag vegna þess að það hefur áhuga á að hjálpa öðru fólki. Það er líka fyndið að segja frá því að það er frekar algengt að fólk velji fagið eftir að hafa horft á mikið af raðmorðingjamyndum og þáttum og fengið áhuga á sálfræði út frá því.

PENNI: Sólrún Freyja Sen

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search