Umbreytti sýn á heiminn

Ég heiti Snæbjörn Jack og er fyrsta árs nemi á náttúru- og umhverfisfræðibraut í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri (LBHÍ). Ég valdi að fara í staðarnám vegna þess að ég vildi komast út úr borginni og fá betri tengsl við fjölbreytileika íslenskrar náttúru. Þegar ég var lítill voru foreldrar mínir að læra hér landslagsarkitektúr svo ég vissi að umhverfið á Hvanneyri væri æðislegt. Svæðið í kring veitir einstaka blöndu af orku og ró. Þegar ég labba í skólann frá íbúðinni minni blasa við mér fjöll og fuglalíf. Það getur líka orðið ótrúlega stjörnubjart hérna vegna lítillar ljósmengunar og ég hef nýtt það til að læra að þekkja fleiri stjörnumerki og gíga á tunglinu. 

Ljósmyndari: Sóley Sigurjónsdóttir

LBHÍ er staðsett í miðju fuglafriðlandi og á mörgum ferðum mínum um svæðið hef ég fengið að kynnast aragrúa fuglategunda. Haförninn er líklega tignarlegastur þeirra sem maður kemur auga á þegar maður starir út um skólastofugluggann og enn fleiri fylla himininn t.d. brandugla, fálki, starar, rjúpur, blesgæsir og ég gæti lengi talið. Það sem kom mér mest á óvart var félagslífið. Fólk hér kann vel að skemmta sér. Ég hef eytt mest af ævi minni í Reykjavík eða öðrum stórborgum víða um heim og þess vegna fannst mér smá menningarsjokk að kynnast þeim sem landbyggðin hefur alið á færi en ég var fljótur að komast yfir það og byrja að njóta góðs af þessu æðislega fólki. Það er bar hér sem er opinn alltaf á þriðjudögum og fimmtudögum þar sem eru oft haldin bíókvöld, pub-quiz, böll eða bara venjuleg skemmtun og pool. Það er líka ótrúlega auðvelt að skipuleggja hluti sjálfur hérna ef þú hefur áhuga á einhverri nýlundu.  

Eftir nokkrar vikur þekkir maður sirka alla. Allir í nemendagörðunum eru sjúklega vinalegir og mér hefur oft verið boðið í teiti og matarboð. Það eru mörg félög innan skólans, bæði formleg og óformleg (eins og kvæðafélagið😉). Í skólanum er rík sönghefð og það kemur margoft fyrir að sungið er fram á nótt. Kennslan er mjög vel uppsett og maður er í mjög góðum samskiptum við kennara og starfsfólk skólans. Eftir að hafa verið hér í eina önn þekkti ég næstum allt starfsfólkið og aðra nýnema á öllum mismunandi brautum. 

Það myndast of mjög áhugaverðar samræður í og utan tíma sem snúast um fjölbreytta hluti eins og umhverfismál, pólitík og almennt sprell eða rabb um veður og verðið í búðinni. Ég mæli hiklaust með því að koma í nemendagarðana á Hvanneyri og læra um náttúruna. Þetta nám mun nýtast mjög vel á svo mörgum sviðum í framtíðinni því þessi mál eru eldlína tímana sem við lifum. Námið er fjölbreytt og gefur mjög heildstæða sýn á þau kerfi og ferli sem mynda heiminn sem við sjáum í kringum okkur. Áfangar spanna allt frá vist og jarðfræði til rekstar og byggingafræði og að sögu og siðfræði. Hingað til hefur þetta nám umbreytt því hvernig ég sé heiminn í kringum mig og ég er bókstaflega alltaf að læra eitthvað nýtt og ótrúlegt á hverjum degi. Súpan sem Óli kokkur gerir í hádeginu fær líka feitt shout-out.

Penni: Snæbjörn Jack

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search