5 hlutir sem þú getur gert eftir útskrift (ef þú vilt ekki fara í háskóla strax)

Árið er 2020 og litlir, óreyndir framhaldsskólanemar um allt Ísland fara brátt að huga að útskrift. Þeir hópast ef til vill saman á kaffihúsum og skemmtistöðum og fagna því að mega bráðum njóta frelsis; engin heimavinna, ekkert stress, bara róin sem fylgir því að mega loksins kalla sig stúdent. Þrátt fyrir gleðina eru þessir vesalings framhaldsskólanemar þó eitthvað órólegir. Hví? Jú, vegna þess að þeir vita að þeir þurfa samt að finna sér eitthvað til að gera af sér þegar útskriftin er afstaðin. En háskólar heimsins virðast bara eitthvað svo ógnandi og margir hverjir eru hreinlega ekki vissir hvort þeir vilji takast á við slíka áskorun alveg strax. Ó, þvílíkur bobbi sem þessir upprennandi stúdentar hafa komið sér í! Þeir hafa bara enga hugmynd um hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur. Þeir þurfa þó ekki að örvænta, seiseinei, því Framhaldsskólablaðið er sko með svör á öllum fingrum. Þegar aumingja framhaldsskólanemarnir heyrast kalla: ,,Hvað nú?!?” þá svarar ritstjórn: 

  1. Vinna, vinna, vinna
Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Einfaldasta, og kannski vinsælasta, leiðin er oft að skella sér bara beint á vinnumarkaðinn og græða peninginn þangað til maður einfaldlega getur ekki meira. Það er freistandi að vinna sér inn stjarnfræðilega upphæð svo þú getir loksins flutt út frá foreldrum þínum eða borgað fyrir námið sem þú seinna vilt leggja stund á, og það er bara allt í lagi! Svo lengi sem þú passar þig á að vinna ekki yfir þig og njóta lífsins á meðan þá ertu bara í góðum málum. 

2. Heimsreisa

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Það er engin spurning að ferðalög eru eitt það skemmtilegasta sem til er og það eru alltaf fleiri og fleiri ungmenni sem skipuleggja heimsreisu áður en þau halda í háskóla. Láttu draumana rætast og skoðaðu heiminn, áður en það verður of seint! Maður lærir svo miklu meira á því að flakka um og takast á við þær hindranir sem mæta manni, sérstaklega ef maður er algjörlega ein/nn á báti. Plús, hver fílar ekki að ferðast?

3. Lýðháskóli

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Lýðháskólar eru frábær lausn ef þú hefur áhuga á að kynnast nýju fólki og landi. Þar kynnist þú háskólaforminu á uppbyggilegan hátt í grein sem þér hentar, án þess þó að þurfa að díla við pressuna sem fylgir því að ganga í hefðbundinn háskóla. Lýðháskólar eru sérstaklega vinsælir í Danmörku og þar sem þú hefur væntanlega verið að læra dönsku síðan í 7. bekk og kannt vonandi að segja stök orð þá hentar þetta einstaklega vel. Það er ekki verra að lýðháskólarnir bjóða upp á fjöldann allan af námsleiðum svo þú ættir ekki að vera í vandræðum með að finna eitthvað sem þér líkar við. 

4. Læra eitthvað nýtt

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Sumir fá aldrei nóg af því að læra en það þarf ekki endilega að þýða að maður þurfi að skrá sig í háskóla einn, tveir og þrír. Þú getur skellt þér á jóganámskeið, lært franska matargerð eða kynnt þér gullsmíði. Námskeið af öllu tagi leynast allsstaðar. Það er um að gera að kynnast fróðleik sem þú myndir annars ekki öðlast í skólanum. Mörgum finnst það líka bara miklu skemmtilegra!

5. Finna sjálfan sig

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Það er ekkert leyndarmál að margir unglingar hafa ekki hugmynd um hvað þeir vilja gera í lífinu. Því er tilvalið að taka sér tíma til að uppgötva sjálfan sig og hvað manni raunverulega finnst skemmtilegt. Kannski þýðir það að slaka á og hugleiða, eða þá að það hentar þér betur að fara í bakpokaferðalag á Kerlingarfjöll upp á eigin spýtur. Þú tapar engu á að gefa sjálfum þér tækifæri til að chilla og kynnast þínum innri manni, sama hvernig þú ferð að því.

PENNI: Arney Íris E. Birgisdóttir


Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search