Ég fór í heimsreisu að menntaskóla loknum. Mér fannst það nauðsyn að skreppa í tveggja mánaða Asíureisu.
Ég lagði af stað í smá ævintýri til að losna aðeins frá hversdagsleikanum hér á Íslandi áður en ég byrjaði aftur í skóla. Ég vildi aðeins stíga út fyrir þægindarammann! Ég hefði ekki getað ímyndað mér hvað biði mín og vinkvenna minna þarna úti í heimi. Fyrst tók ljósahverfið í Tokyo við okkur. Ljósin lýstu upp þröngu þar sem nóg var um að vera, göturnar sem voru fullar af fólki. Ég stóð kyrr í örfáar mínútur til að virða fyrir mér mannfjöldann og umhverfið. Eftir 34 tíma ferðalag hinum megin á hnöttinn blasti allt annar heimur við okkur. Við skildum ekki nein skilti og engin orð sem við heyrðum í kringum okkur. Kurteisin og virðingin sem ríkti milli fólksins var ótrúleg. Þótt fólk skyldi ekki stakt orð í ensku reyndu þau af bestu getu að aðstoða okkur.
Við ferðuðumst vítt og breitt um Japan. Tókum Shinkansen lestir alla leiðina til Hiroshima og til baka til höfuðborgarinnar. Ótrúlegt var að sjá þessar tvær hliðar af landinu, bæði náttúruna og bæjarlífið í fjölmennustu borg heims.
Næst var ferðinni heitið til Taílands. Þar voru allt aðrar hefðir og marga hluti að sjá. Í norðurhlutanum fengum við að upplifa Taíland með heimamönnum. Við kíktum á ýmsa markaði og skoðuðum hof. Í suðurhlutanum kíktum við á fallegu draumaeyjurnar. Þar er sandurinn snjóhvítur og sjórinn tær. Við fórum í dagsferðir og skoðuðum eyjurnar í kring og köfuðum. Ekki varð ferðin verri þegar við fórum í sjö daga jógabúðir þar sem boðið var upp á hlaðborð þrisvar sinnum á dag í ótrúlegu umhverfi og á hverjum degi voru fimm mismunandi jógatímar í boði.
Við urðum ekki fyrir vonbrigðum á síðasta stoppinu okkar. Við lentum í Colombo seint um kvöldið en mér leist strax mjög vel á staðinn. Allir voru ótrúlega kurteisir og kunnu góða ensku. Maturinn var ódýr og ótrúlega góður. Boðið var upp á fimm mismunandi karrý og sérstakt, stökkt, djúpsteikt brauð fylgdi því.
Við byrjuðum ferðina í suðurhlutanum og fórum í brimbrettabúðir. Þar vörðum við einni viku og ég mun seint gleyma henni. Það var ótrúlega gaman að fara í tíma klukkan sex að morgni og sjá sólarupprásina í ósnortinni náttúru.
Sri Lanka er rosa fjöllótt land. Við keyrðum og tókum lestar upp að norðurhlutanum og fórum í nokkra göngutúra. Við skoðuðum teræktunarsvæðin í hlíðum og gistum í 1600 metra hæð yfir sjávarmáli, með útsýni yfir hlíðarnar. Á morgnana beið okkar fimm rétta morgunmatur sem fjölskyldur í heimavistunum elduðu fyrir okkur.
Ég mæli eindregið með að fólk fari í heimsreisu og upplifi heiminn! Þetta var ótrúlegt ævintýri og mun ég eiga fullt af minningum með einu af mínu uppáhalds fólki.
PENNI: María Árnadóttir