Gott að búa á Bifröst

Aðsennt efni eftir: Guðjón Ragnar Jónasson

Háskólinn á Bifröst hefur í mörg ár boðið upp á frumgreinanám og þannig opnað mörgum leið að háskólanámi. Eftirspurn eftir slíku námi hefur verið mikil á undanförnum árum . Frumgreinanámið á Bifröst er fóstrað í svokallaðri háskólagátt og býr hún nemendur undir nám á háskólastigi í greinum hug- og félagsvísinda. Námið veitir einnig undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi sem eykur samkeppnishæfni á vinnumarkaði. Í náminu er höfuðáhersla lögð á færni nemenda í grunngreinum framhaldsskólans: íslensku, ensku og stærðfræði.

Stór hluti þess fólks sem hefur misst vinnuna undanfarna mánuði er með annað móðurmál en íslensku og treystir sér því ekki til að stunda nám á íslensku. Til þess að koma til móts við þarfir þessa hóps var ákveðið að spegla námið í háskólagáttinni yfir á ensku og ná þannig til fólks með ýmis móðurmál og betri tungumálagrunn í ensku en íslensku. Þetta nám hófst á vorönn 2020.

Námið er sambærilegt náminu sem fer fram á íslensku að öðru leyti en því að kennt er á ensku. Í stað hefðbundinna íslenskuáfanga taka nemendur áfanga í íslensku sem öðru máli og í stað dönskuáfanga geta nemendur valið um að bæta við sig áfanga í ensku- og/eða áfanga í íslensku sem öðru máli. Um fjörutíu nemendur stunda þetta nám nú á fyrstu önninni sem það  er í boði. Margir þeirra eru með stúdentspróf eða sambærilegt nám frá heimalandi sínu en fá ekki aðgang að íslenskum háskólum. Til dæmis útskrifast bandarískir nemendur 18 ára úr framhaldsskólum og taka því venjulega eitt undirbúningsár í í háskóla. Hér tala kerfin ekki saman. Háskólagáttinn opnar til dæmis þessum nemendum leið að námi við Háskólann á Bifröst.

Nemendur geta lokið náminu á rúmum sex mánuðum eða á tveimur önnum. Námstilhögun er sniðin að átakinu Nám er tækifæri. Markmið þess er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Það er von okkar sem vinnum á Bifröst að háskólagátt á ensku opni leið fyrir fleiri erlenda nemendur að háskólanámi á Bifröst.

Nemendur háskólagáttarinnar á ensku koma úr öllum heimsálfum, utan Eyjaálfu. Algengast er að nemendur stundi nám sitt í fjarnámi og komi aðeins á Bifröst á svokölluðum vinnuhelgum. Nokkrir nemendur eru þó í staðnámi á Bifröst og una hag sínum vel í háskólaþorpinu.

Á Bifröst er hægt að leigja gott húsnæði á hagstæðum kjörum, til dæmis má leigja gott herbergi með sér salerni og aðgangi að eldhúsi og sameiginlegu rými á 55.000 krónur á mánuði. Þegar tekið er tillit til húsaleigubóta kostar rúmar 30.000 krónur að búa í rúmgóðu herbergi á Bifröst. Leiga á raðhúsi kostar um 125.000 á mánuði og dæmi eru um að pör borgi rúmar 70000 krónur fyrir raðhús. Innifalið í leigu er rafmagn, hiti og aðgangur að interneti. Einnig fylgir búsetu á Bifröst ókeypis aðgangur að líkamsrækt á staðnum. Ekki má heldur gleyma að leikskóli er á staðnum og nægt leikskólarými. Börn komast að í leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi foreldra.

Búseta á Bifröst er líka hentugur kostur fyrir þá sem vinna heiman frá sér og kjósa hagstæða búsetu á kyrrlátum stað. Náttúran á Bifröst er fögur og sumir hafa á orði að það sé eins og að búa í fallegu málverki að búa á staðnum. Á Bifröst er blómlegt og gott manníf og kyrrðin engu lík. Kófið hefur kennt okkur að hægt er að vinna marga hluti að heiman og sveigjanleg vinna býður upp á sveigjanlegri búsetu. Altént er það góður kostur í hugum okkar Bifrestinga að búa í fallegum dal. Vonir standa til að þar myndist í fyllingu tímans sjálfbært samfélag þar sem áhersla er lögð á kröftugt og gott mannlíf.

María Árnadóttir | Neminn.is

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search