Grein í tilefni alþjóðlegs dags námsmanna

Fjarnám og líðan nemenda

Í dag er 17. nóvember, alþjóðlegur dagur námsmanna, sem haldinn er í minningu þeirra 1.200 nemenda sem sendir voru í fangabúðir og níu námsmannaleiðtoga sem myrtir voru fyrir að mótmæla viðveru Þjóðverja í Tékkóslóvakíu árið 1939. 

Dagurinn er tileinkaður hagsmunabaráttu og tjáningarfrelsi nemenda.

Andleg líðan nemenda

Síðan COVID-19 barst til landsins í mars hafa framhaldsskólar ýmist verið opnir, lokaðir eða opnir með takmörkunum, líkt og samfélagið allt. Stór hluti af lífi framhaldsskólanema snýst um samskipti við aðra nemendur en í fjarnáminu hefur þessi mikilvægi þáttur svo gott sem verið þurrkaður út. Hefur þetta haft mikil áhrif á líðan nemenda, ekki síst nýnema sem ekki hafa haft sömu tækifæri og aðrir til að mynda tengslanet og geta því síður yfirfært það yfir á rafræn samskipti. 

Andleg heilsa nemenda hefur sjaldan verið mikilvægari. Einangrun og vanlíðan ungs fólks á mikilvægu þroskaskeiði þeirra gæti leitt til varanlegra afleiðinga og því þarf að bregðast við hér og nú. Þótt aðgengi nemenda að sálfræðiþjónustu hafi batnað á undanförnum misserum þarf enn of víða að bæta í og gæta þess jafnframt að sú þjónusta sem í boði er, sé vel kynnt og sýnileg. Ungt fólk í námi ætti ekki að þurfa að velja milli þess að bíða í margar vikur, jafnvel mánuði, eða borga fúlgur fjár fyrir einn sálfræðitíma.

Ekki hægt að meta önn sem ekki er búin

Afleiðingar þessa furðulega ástands liggja þó víðar. Nemendur eiga erfitt með að halda einbeitingu fyrir framan tölvuskjá fleiri klukkustundir á dag og margir telja sig fá minni aðstoð frá kennurum. Þá er erfiðara að átta sig á stöðu nemenda þar sem fyrirkomulag prófa og verkefna hefur breyst töluvert. Þannig upplifa margir sig fá minna út úr náminu án þess að hægt sé að greina það á einkunnum og mætingu. Ekki er enn hægt að mæla árangur annarinnar þar sem hún er ekki búin. Enn eiga eftir að koma niðurstöður úr lokaprófum, tölur um brottfall og reynsla á það hversu vel nemendur náðu að tileinka sér námsefnið.

Ekki ein lausn fyrir öll

Frá því í byrjun haustannar hafa fulltrúar SÍF fundað vikulega með menntamálaráðherra um stöðu mála og hafa þar deilt upplýsingum frá fjölbreyttum ráðgjafahópi nemenda sem félagið heldur utan um. Í heimsfaraldri virkar nefnilega ekki ein lausn fyrir öll. Í hópnum hafa nemendur rætt um það sem vel hefur gengið svo aðrir megi læra af og einnig það sem betur hefur mátt fara, sem því miður er of margt. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þátttökuna enda staða og upplifun nemenda, stærsta hagsmunahóps framhaldsskólakerfisins, það sem mestu máli skiptir í lok dags. Þá mun SÍF á næstu dögum, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, senda út könnun um líðan og aðstæður nemenda. Eru vonir bundnar við að niðurstöðurnar muni nýtast við skipulagningu skólahalds á nýju ári.

Ákall um stöðugleika

Nýlega var dregið úr samkomutakmörkunum í framhaldsskólum sem eykur svigrúm fyrir staðnám. Því reiðir nú á að ákvarðanir skólastjórnenda um fyrirkomulag skólahalds á lokametrum annarinnar verði teknar í samráði við nemendur. Sú mikla óvissa sem ríkir í mörgum skólum um hvernig námsmati verður háttað veldur mörgum kvíða og þarf að eyða, ekki seinna en í dag. Gífurlega mikilvægt er að skapa stöðugleika um nám nemenda sem allra fyrst og miðla til þeirra upplýsingum hratt og á skilvirkan máta.

Framhaldsskólanemar allir vona að sjálfsögðu að við sem samfélag náum að standa saman og halda veirunni í lágmarki til að nemendur, sem og aðrir, geti búið við sem mestan stöðugleika. Að því sögðu eru bundnar miklar vonir við að nemendur fái að mæta í skólann á nýju ári og geti þannig fengið sem mest út úr náminu. Taka þarf þó fullt tillit til þeirra sem ekki treysta sér til að mæta af ótta við að smitast af veirunni, t.d. vegna undirliggjandi sjúkdóma sinna eða nákominna.

Samband íslenskra framhaldsskólanema óskar öllum nemendum til hamingju með daginn og hrósar þeim fyrir mikla þrautseigju á undanförnum mánuðum. 

Höldum áfram að gera okkar besta og láta í okkur heyra!

Framkvæmdastjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search