Hér að neðan er viðtal við Önnu Katrínu Lárusdóttur

Hún segir frá kvikmyninni sinni, XY sem verður sýnd á RIFF hátíðinni í ár og vangaveltunum bak við hana. Hún svaraði eftirfarandi spurningum og hafði margt áhugavert að segja. 

Hvað ertu gömul?

26 ára gömul

Hvenær kviknaði áhuginn þinn á kvikmyndum?

Áhuginn hefur í rauninni verið til staðar síðan ég man eftir mér. Fyrstu árin mín bjó ég í Reykjavík og þá fór maður oft í bíó en ég ólst síðan upp á Egilsstöðum frá 8 ára aldri og þá var ekkert bíó lengi vel. En þá voru það föstudagsmyndirnar á RÚV sem héldu manni gangandi og ég var dugleg að taka þær upp á spólu og átti ágætis safn. Síðan var ég fastagestur hjá Kidda Vídjóflugu, en hann var með vídjóleigu rétt hjá götunni minni sem hét Vídjóflugan. Það eru samt bara nokkur ár síðan ég fattaði að ég hefði svona einbeittan áhuga á þessu og fór í kvikmyndaskólann að læra kvikmyndagerð. Fyrir mér voru kvikmyndir bara partur af lífinu og ég upplifði mig ekkert hafa einhver meiri áhuga á þeim en aðrir. Ég meina hver fýlar ekki kvikmyndir?

Hvaðan færðu innblástur þinn? 

Varðandi kvikmyndgerð almennt fæ ég innblásturinn mjög mikið úr fólki og öllu svona mannlegu. Ég hef mikinn áhuga á að gera myndir sem hafa mannlegan þráð og snúast um að segja sögur fólks. En svo auðvitað fæ ég líka mikinn innblástur frá öðrum kvikmyndum, þá sérstaklega varðandi svona visual storytelling.

Um hvað fjallar myndin þín?

Myndin fjallar um Lísu sem er 15 ára. Hún er ekki búin að taka út kynþroska og er á mjög óþægilegri hormónameðferð sem er ekki að ganga vel. Hún hefur í gegnum árin einangrað sig, sérstaklega frá skólafélögum. Ákveðnar aðstæður verða til þess að æskuvinkona hennar Bryndís leitar til hennar og endurfundir verða hjá vinkonunum. Með aðstoð Bryndísar kemst Lísa að ýmislegu um sjálfa sig sem hún vissi ekki og einnig afleiðingar stórrar aðgerðar sem hún fór í sem smábarn. Myndin er í raun þroskasaga unglings sem uppgötvar eftir mörg ár af leynd og skömm að hún er intersex. Ekki bara það heldur kemst hún að því að heilbrigðiskerfið hefur brugðist henni á mjög alvarlegann hátt. Myndin er byggð á reynslu Kitty Anderson og Bríetar Finnsdóttur, sem eru frænkur mínar og þær eru báðar intersex. Þær hafa sagt sögu sína opinberlega og reynslu sína af heilbrigðiskerfinu hérna heima. Ég mæli með fyrir alla að skoða það.

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að koma á framfæri með verkinu?

Mig langaði að vekja athygli á intersex fólki og hvað það þýðir að vera intersex. Margir hafa kannski heyrt orðið áður, en miðað við samtöl mín við fólk þá virðast margir enn vera með miklar ranghugmyndir um hvað þetta er. Þetta þýðir EKKI aðilli sem er bæði með typpi og píku. Intersex er í rauninni regnhlífarhugtak yfir einstaklinga sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Kyneinkenni eru t.d. eggjastokkar, eistu, typpi, píka, xx og xy litningar, hormónar. Það er búið að skipta þessum einkennum í tvennt og það er talið dæmigert að segja eitt þýðir karl og eitt þýðir kona. En hvað ef þú fæðist með einkenni sem passa ekki alveg í karl eða kvenflokkinn? Þá ertu intersex.

Það eru margar mismunandi tegundir af intersex fólki til og flestir vita ekki einu sinni af því að þeir séu það, útaf þetta hefur yfirleitt ekki nein stórkostleg áhrif á líkamsstarfsemina. Hins vegar þá eiga læknarnir það til að framkvæma ónauðsynlegar, skaðlegar og óafturkræfar aðgerðir á instersex börnum sem hafa stórkostleg áhrif á líf þeirra (þetta á ekki alltaf við, sumar aðgerðir eru auðvitað nauðsynlegar en ég er ekki að tala um þær aðgerðir). Sem dæmi þá fæðist Lísa í myndinni XY, með píku, eistu og xy litning. Þegar hún er barn ákveða læknarnir að það þurfi að fjarlæga eistun og það má alveg deila um það hver ástæðan fyrir því er. Yfirleitt tala læknar um mikla áhættu á krabbameini í eistunum af því þau koma ekki niður, en það er löngu búið að afsanna það. Þar sem eistun hennar eru fjarlægð, og eistun sjá um að framleiða hormóna, þá þarf hún að fara í hormónameðferð. Það er ekki ennþá nógu mikil vitneskja um þessar meðferðir hérna heima þannig skammtarnir eru yfirleitt ekki réttir. Annað hvort of lágir eða jafnvel ekki gefinn hormóninn sem hentar best. Með þessu fylgir rosalegt líkamlegt álag. Ef þú færð ekki réttan hormónaskammt allt þitt líf fer það hræðilega með líkamann. Dæmi eru um að fólk hafi endað sem öryrkjar eftir svona aðgerðir, verið komin með beinþynningu um tvítugt og margt fleira. Sum sé, það sem ætti að gera í þessu tilfelli væri að leyfa eistunum að vera í friði og þau myndu framleiða testósterón og líkaminn breytir því í estrógen og þá hefði Lísa þroskast eðlilega. Þrátt fyrir þetta allt og að það sé búið að sanna þetta víðsvegar um heiminn, þá er ennþá verið að framkvæða þessar aðgerðir og það er ekki búið að festa lög hérna heima á íslandi til að vernda intersex börn fyrir þessum aðgerðum.

Að lokum langar mig til að hvetja sérstaklega hinsegin fólk, POC, konur og fatlað fólk til að fara út í kvikmyndagerð ef það hefur áhuga á. Sjónarhornið í kvikmyndum hefur verið ansi einsleitt hingað til og það er mikilvægt að fá sjónarhorn allra í kvikmyndgerð.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search