VINNUREGLUR FRAMKVÆMDARSTJÓRNAR SÍF 2021-2022


FORMÁLI

Með tilliti til 33. greinar laga SÍF, sem segir eftirfarandi: 

,,Fráfarandi stjórn skal leggja til vinnureglur stjórnar sem kynntar eru á fyrsta löglega framkvæmdastjórnarfundi nýrrar stjórnar. Nýkjörinni framkvæmdastjórn er heimilt að gera breytingar á þessum drögum, og skal samþykkja vinnureglur eigi síðar en mánuði eftir aðalþing. 

Vinnureglur framkvæmdastjórnar skulu lagðar fyrir til staðfestingar á fyrsta sambandsstjórnarfundi hvers kjörtímabils. Fulltrúum á sambandsstjórnarfundi er heimilt að koma með breytingartillögur á fundinum. 

Vinnureglur teljast gildar frá þeim tíma sem þær eru samþykktar af framkvæmdastjórn.’’ 


1. STÖÐUR INNAN FRAMKVÆMDASTJÓRNAR

Gr. 1.1: Forseti 

A. Boðar bæði framkvæmdastjórnar- og sambandsstjórnarfundi. 

B. Stýrir að jafnaði framkvæmdastjórnarfundum.

C. Boðar og setur aðalþing. 

D. Hefur yfirumsjón um umsagnir á frumvörpum Alþingis.

E. Er tengiliður SÍF við fjölmiðla.

F. Fulltrúi SÍF í LUF:

    • Fulltrúi skal mæta á fulltrúaráðsfundi LUF og halda stjórn upplýstri um störf þess. 
    • Fulltrúi skal vera helsti tengiliður SÍF við LUF og svara könnunum og spurningum frá félaginu. 

Gr. 1.2: Varaforseti 

A. Er staðgengill forseta.

B. Ritar almennt fundagerðir.

Gr. 1.3: Gjaldkeri 

A. Hefur yfirlit yfir fjárhagsstöðu SÍF og heldur stjórn upplýstri um fjármál þess.

B. Greiðir framkvæmdastjóra mánaðarleg laun.

C. Gjaldkeri skal skila stuttu yfirlit yfir fjárhagsstöðu félagsins fyrir hvern ársfjórðung. 

Gr. 1.4: Margmiðlunarstjóri 

A. Sér um samfélagsmiðla SÍF ásamt framkvæmdastjóra og forseta.

B. Er tengiliður framkvæmdastjórnar við ritstjórn Framhaldsskólablaðsins.

Gr. 1.5: Alþjóðafulltrúi 

A. Er tengiliður framkvæmdastjórnar við OBESSU og NSSN.

B. Sér um að framkvæmdastjórn fari yfir skjöl OBESSU fyrir COMEM og GA. 

C. Sér um að miðla þekkingu sinni, nánar skilgreint neðar í skjalinu, frá 

D. viðburðum erlendis til framkvæmdastjórnar og framhaldsskólanema á Íslandi.

E. Skal vera virkur inni á Basecamp-kerfi OBESSU og koma upplýsingum áfram til framkvæmdastjórnar og  starfsmanna SÍF.

Gr. 1.6: Hagsmunastjóri

A. Er í fararbroddi í þeim verkefnum sem snúa að jafnréttis- og forvarnarmálum, 

svo sem aðgengi fatlaðra að skólum og sálfræðiþjónusta framhaldsskólanema.

B. Skal vera tengiliður nemenda varðandi trúnaðarmál og skal í hvert skipti fyrir 

sig ákveða hvort málið haldi áfram til framkvæmdastjórnar og ef svo hvaða upplýsingar skal afmá. 

C. Situr í vinnuhópi nemenda með fatlanir. Upplýsir framkvæmdastjórn um vinnu hópsins.

Gr. 1.7: Viðburðarstjóri

A. Heldur utan um skipulagningu afmælis SÍF (4. nóvember).

B. Heldur utan um skipulagningu á Alþjóðlegum degi stúdenta (17. nóvember).

C. Heldur utan um þáttöku SÍF í 1. maí göngunni. 

D. Heldur utan um skipulagningu, ásamt starfsmönnum SÍF, tveggja sambandsstjórnarfunda. 

E. Hefur umsjón með skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna ásamt samstarfsaðilum og starfsmönnum SÍF.


2. VERKSVIÐ STJÓRNARFULLTRÚA

Gr. 2.1: Fulltrúar

Stjórnameðlimir skulu skipta með sér eftirfarandi verksviðum eftir færni og reynslu hvers og eins.

1. Fulltrúi í málum sem varða Alþingi: 

A. Fulltrúi skal fylgjast með þeim tillögum sem liggja fyrir Alþingi og halda stjórn upplýstri um þau sem varða framhaldsskólanemendur. 

B. Fulltrúi skal skrifa drög að umsögnum um þingmál sem SÍF tekur afstöðu til. 

C. Fulltrúi skal ráðleggja stjórn um lobbýisma félagsins.

2. Varafulltrúi SÍF í Menntasjóði námsmanna: 

A. Fulltrúi skal fylgjast með störfum Menntasjóðs námsmanna, vinnu að lögum Menntasjóðs námsmanna, og vinnu að úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna. 

B. Fulltrúi skal leggja til áherslur SÍF í árlegri vinnu að úthlutunarreglum Menntasjóds námsmanna. 

C. Fulltrúi skal mæta á stjórnarfundi Menntasjóðs námsmanna þegar að framkvæmdastjóri kemst ekki. 

Gr. 2.2: Sérstakar og áríðandi aðstæður 

Í sérstökum og áríðandi aðstæðum mega forseti og varaforseti taka ákvarðanir sem ekki hafa stórvægilegar afleiðingar fyrir félagið. Þurfa þeir að sammælast um að aðstæðurnar séu slíkar og skulu þeir láta framkvæmdastjórn vita undir eins. 


3. FERÐIR

Gr. 3.1: Undirbúningur og umsögn

Meirihluti stjórnar skal ákveða hver/hverjir mætir/mæta fyrir hönd SÍF á viðburði erlendis byggt á vilja, getu, sérþekkingu, og reynslu einstaklinga. 

Eftir ferð fyrir hönd SÍF skal stjórnarmeðlimur rita skýrslu sem gerir grein fyrir ákvörðunum teknum fyrir hönd SÍF. 

Stjórnarmeðlimur skal kynna þessa skýrslu á framkvæmdastjórnarfundi. 

Gr. 3.2: Heimildir til opinberrar tjáningar fyrir hönd SÍF 

Stjórnarmeðlimum í ferð fyrir hönd SÍF er heimilað að taka ákvarðanir fyrir hönd SÍF á viðburðum og kjósa fyrir hönd SÍF í samræmi við stefnur SÍF og ályktanir sambandsstjórnar.

Hafi tveir eða fleiri fulltrúar SÍF atkvæði á viðburði skal hver um sig meta afstöðu SÍF í samræmi við stefnur SÍF og ályktanir sambandsstjórnar. Fulltrúum er ekki skylt að kjósa eins. 

Gr. 3.3: Matarpeningar 

Stjórnarmeðlimir SÍF ásamt framkvæmdastjóra og starfandi verkefnastjóra fá matarpeninga á ferðum sínum erlendis og á viðburði innanlands. Á meðan á ferðalagi stendur t.d. leið milli landa eða á sambandsstjórnarfundi á landsbyggðinni.

Viðmið fyrir matarpeninga skal vera 350 kr á hvern byrjaða klukkutíma ferðarinnar.


4. FUNDIR OG SAMSKIPTI INNAN STJÓRNAR

Gr. 4.1: Framkoma stjórnarmeðlima 

Stjórnarmeðlimir skulu koma fram við hvern annan af virðingu, og miða að því að stuðla að jákvæðum og heilbrigðum samskiptum innan stjórnarinnar. 

Stjórnarmeðlimir skulu tilkynna forföll á fundi sólahring fyrir fund svo hægt sé að finna nýjan fundartíma ef svo fáir mæta á fundinn að hann er ekki löglegur. 

Stjórnarmeðlimir skulu fylgja siðareglum LUF, og bera sömu ábyrgð gagnvart SÍF og þær kveða á um að stjórnarmeðlimir LUF beri gagnvart LUF. 

Gr. 4.2: Fundarstjórn og fundarritun 

Forseti skal að jafnaði vera fundarstjóri, en framkvæmdastjórn má kjósa annan. 

Tillaga um breyttan fundarstjóra skal afgreiða með forgangi. 

Varaforsetir skal að jafnaði vera fundarritari, en framkvæmdastjórn má kjósa annan. 

Tillaga um breyttan fundarritara skal afgreiða með forgangi, en þó eftir tillögum um breyttan fundarstjóra. 

Ákvarðanir framkvæmdastjórnarfunda taka þegar gildi. 

Rituð skal fundargerð fyrir hvern fund, þar sem kemur fram að hvaða ákvarðanir hafa verið teknar. Fundargerð skal staðfest á næsta fundi, þar sem stjórn staðfestir að rétt sé haft eftir síðasta fundi. 

Gr. 4.3: Þátttaka stjórnarmeðlima 

Dveljist stjórnarmeðlimur utan höfuðborgarsvæðisins, en þó nógu nálægt til að keyra á fundi, skal Sambandið endurgreiða bensínkostnað hans.  Framkvæmdastjórn er heimilt að setja hámark eða ákvarða viðmið á endurgreiðslu bensínkostnaðar.


5. SAMSKIPTI ÚT Á VIÐ

Gr. 5.1: Opinber samskipti, tilkynningar og samskipti við fjölmiðla

Öll opinber samskipti fyrir hönd SÍF skulu taka tillit til stefna félagsins og ályktana sambandsstjórnar.

Engar tilkynningar eða opinber samskipti skulu birtar án samþykkis meirihluta framkvæmdastjórnar- þó að undanskyldum efni á samfélagsmiðla sem margmiðlunarstjóri, forseti og framkvæmdastjóri sjá um.

Samskipti við fjölmiðla sem stjórnarmeðlimur SÍF teljast formleg samskipti fyrir hönd SÍF. Öllum beiðnum um samskipti við fjölmiðla skal vísað til forseta eða framkvæmdastjóra.


6. PERSÓNUVERND OG TRÚNAÐARMÁL

Gr. 6.1: Trúnaðarmál 

Stjórnarmeðlimir skulu halda trúnaði yfir þau mál er stjórn þykir þurfa, þar með talið (en ekki takmarkað við): 

A. Mál sem utanaðkomandi málsaðili óskar eftir trúnaði yfir. 

B. Mál sem varða brot gegn einum einstaklingi.

C. Innanhúss ágreiningsmál innan nemendafélags eða SÍF.

Gr. 6.2: Netföng 

Stjórnarmeðlimir skulu einungis nota SÍF netföng í málum sem varða SÍF, aldrei persónuleg netföng. 

SÍF netföngum verður eytt mánuði eftir að stjórnarmeðlimur gegnir ekki lengur trúnaðarstörfum fyrir SÍF, nema stjórn telji ástæðu til annars. 

Gr. 6.3: Persónugreinanleg gögn 

Fara skal með persónugreinanleg gögn í samræmi við lög um persónuvernd og GDPR. 

Persónugreinanlegum gögnum skal eytt þegar ekki er lengur þörf á þeim. 

Persónugreinanlegum gögnum skal aldrei deilt utan félagsins eða með persónulegu netfangi.


7. ÚRSÖGN EÐA BROTTREKSTUR ÚR STJÓRN

Í 34. grein laga SÍF er fjallað um brottrekstur stjórnarmanna úr stjórn. 

Gr. 7.1: Sjálkfrafa úrsögn stjórnarmanna úr stjórn

Stjórnarmaður er talinn hafa sagt sig sjálkrafa úr stjórn ef eftirfarandi aðstæður skapast:

A. Stjórnarmaður hefur ekki svarð almennum erindum frá stjórn á hvaða formi sem er í hálfan mánuð.

B. Stjórnarmaður svarar ekki tveimur formlegum erindum frá stjórn þess efnis að hann hafi verið óvirkur í stjórninni samanber liður A. Fyrra erindið skal vera sent þegar ekki hefur náðst í stjórnarmann í hálfan mánuð og það seinna viku seinna. Í erindunum er stjórnarmaður beðinn um að gefa upp ástæðu þátttökuleysi í stjórn og boðið að taka tímabundið leyfi frá stjórnarstörfum í samvinnu við stjórn.

Að framantöldum skilyrðum uppfylltum sendir stjórn stjórnarmanni tölvupóst þar sem úrsögn úr stjórn er staðfest. Þetta er gert hálfum mánuði eftir að stjórnarmaður fékk fyrst formlega ábendingu um þátttökuleysi í stjórn.

Stjórn er heimilt eftir úrsögn að kjósa inn nýjan stjórnarmeðlim samkvæmt 35. grein laga SÍF.

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search