Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) lýsir yfir vonbrigðum sínum með að frumvarp um Menntasjóð námsmanna hafi verið samþykkt á Alþingi í gær án þess að komið væri til móts við bóknámsnemendur í framhaldsskólum (þá sem stunda nám til stúdentsprófs). Telur félagið að með þessu hafi ráðamenn tekið meðvitaða ákvörðun um að mismuna nemendum á grundvelli námsvals.
Félagið hefur undanfarna mánuði ítrekað bent á að bóknámsnemendur á öllum hinum Norðurlöndunum fá fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum, ýmist í formi styrkja og/eða lána. Ljóst er að þingmenn hafa ekki litið til þeirra ábendinga né heldur tekið inn í myndina að brottfall nemenda á Íslandi er umtalsvert hærra en á hinum Norðurlöndunum og hærra en meðaltalið í Evrópu líkt og kemur fram í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá 2018. Er munurinn að einhverju leyti rekinn til stuðningsleysis stjórnvalda, þ.e.a.s. að nemendur á Íslandi neyðast til að vinna samhliða skóla til að fjármagna nám og framfærslu. Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 2018 unnu 55,6% 17 ára ungmenna samhliða skóla og 70,1% á aldrinum 18 – 25 ára. Allt þetta hefur SÍF bent ráðamönnum á og sendi félagið einnig fyrirspurn á mennta -og menningarmálaráðuneytið þann 14.maí og spurði hver rökin væru fyrir því að í frumvarpinu væri ekki að finna neinn stuðning við bóknámsnemendur í framhaldsskólum á Íslandi og einnig hvort reiknað hafi verið út hvað slíkur stuðningur myndi kosta. Engin svör hafa borist frá ráðuneytinu.
Þykir félaginu ráðamenn vera að skilja bóknámsnemendur í framhaldsskóla eftir úti í kuldanum og það á tímum þegar nemendahópnum býðst afar takmörkuð úrræði, sérhæft sumarnám eða rándýrt fjarnám, atvinnuleysi og enginn réttur til bóta. Nám fjölmargra nemenda næsta vetur er undir því komið að þeir geti unnið fyrir sér, að öðrum kosti þurfi þeir frá að hverfa, því var mikilvægt nú sem aldrei fyrr að stjórnvöld styddu við bakið á þeim með því að veita fjárhagslegan stuðning í gegnum Menntasjóð námsmanna.
Einnig hefði félagið viljað sjá skýrt í lögunum að stjórn sjóðsins væri skylt að endurskoða framfærslu námsmanna árlega en ekki aðeins hafa heimild til þess, með þeim hætti hefði verið tryggt að framfærslan væri í takt við annað í samfélaginu.
Þá telur SÍF að lögin skorti sveigjanleika, en ekki er gert ráð fyrir að nemendur skipti um námsgrein enda er gerð krafa um að þeir ljúki námi á tilsettum tíma til að fá 30% niðurfellingu höfuðstólsins við námslok. Ljóst er að fjölmargir nemendur finna ekki sína réttu hillu í fyrstu atrennu og skipta um nám eftir eina til tvær annir en þeir eiga þá ekki möguleika á styrk fyrir því námi sem þeir hafa þegar lokið.
SÍF fagnar að sett hafi verið vaxtaþak á lánin á lokametrunum við gerð frumvarpsins en félagið tekur undir athugasemdir annarra námsmannahreyfinga að þakið hefði mátt vera lægra.
Hægt er að nálgast yfirlýsinguna á PDF formi hér fyrir neðan.