Ályktun Sambands íslenskra framhaldsskólanema varðandi COVID-19 veiruna

Ályktun Sambands Íslenskra Framhaldsskólanema varðandi COVID-19 veiruna

Þar sem COVID-19 veiran hefur nýverið greinst á Íslandi og útlit er fyrir að hún haldi áfram að dreifast hérlendis hafa almannavarnir lýst yfir neyðarástandi. Ef marka má umfjöllun almannavarna og annarra aðila er unnið hörðum höndum við að halda útbreiðslu veirunnar í skefjum og eru einhverjar líkur á því að samkomubann verði sett á. Sambandsstjórn Sambands Íslenskra Framhaldsskólanemenda (SÍF), sem samanstendur af nemendafélögum framhaldsskóla á Íslandi, hefur því ályktað um hag nemenda komi til þess að framhaldsskólum verði lokað. Sambandsstjórn SÍF telur að í þeim málum eigi öryggi og heilsa nemenda og starfsfólks framhaldsskóla að vera forgangsatriði og að allar ákvarðanir varðandi ástandið skui vera teknar í samráði við þá aðila. Sambandsstjórn hefur lýst yfir áhyggjum hvað varðar áhrif lokun skóla á nám og þá sérstaklega brautskráningar nemenda.

Lokun skóla mun hafa í för með sér margar breytingar en mikilvægt er að það hafi ekki áhrif á nám nemenda. Framhaldsskólar þurfa að efla innra námskerfi, t.d. forrit eins og INNU og Moodle, og koma á fót fjarnámskerfi til að tryggja að nemendur missi ekki úr námi. Kennarar ættu enn að tileinka sér vinnutíma til að virkja nemendur heima í fjarnáminu og ítreka mikilvægi þess.

Víðtækar breytingar á skólastarfi ættu ekki að vera samþykktar fyrr en þær hafa verið kynntar fyrir nemendum til þess að þeir geti vegið og metið kosti og galla breytinganna. Ef nemendur eru ekki sáttir með ráðahag verður að koma til móts við þá enda eru nemendur stærstu hagsmunaaðilar síns náms og eiga þeir að geta stundað það án hindrana.  

Þar með ályktar sambandsstjórn SÍF:

  • Að komi til lokunar skóla:
    • Skulu framhaldsskólar efla innra námskerfi og koma á skilvirku fjarnámskerfi sem tryggi að nemendur geti sinnt sínu námi.
    • Skuli mætingareinkunn ekki gilda til lokaeinkunnar, heldur einungis verkefnaskil.
    • Skulu nemendur geta pantað viðtalstíma hjá kennurum í gegnum fjarfundarbúnað, sé kennarinn í ástandi til að sinna starfi sínu. Mikilvægt er að persónuverndarlög skulu ávallt vera virt þegar fjarfundarbúnaður er valinn.
    • Skuli allar breytingar á skólastarfi og kennslumati vera samþykktar af meirihluta nemenda hvers námskeiðs.
    • Skuli lokun ekki hafa áhrif á próftöku og brautskráningu nemenda.
    • Skuli ávallt hafa það í fyrirrúmi að gera nemendum kleift að ljúka námi á tilsettum tíma.
  • Þurfi nemandi að sitja í sóttkví (og sé í ástandi til að sinna sínu námi):
    • Verði þeim nemanda ekki aftrað í námi.
    • Skuli sá nemandi geta sinnt sínu námi í gegnum fjarnámskerfi.
    • Fái sá nemandi fullt leyfi frá mætingu á meðan á sóttkví stendur svo að fjarvera komi ekki niður á einkunnum nemandans.
  • Þurfi kennari að sitja í sóttkví (og sé í ástandi til að kenna):
    • Skuli þeim kennara vera gert kleift að kenna námskeið sitt í fjarnámi.
    • Skuli kennari ekki vera í ástandi til að kenna skal finna kennara til að sinna stöðu hans tímabundið eða gefa nemendum aðgang til að sitja tíma hjá öðrum bekkjum/kennurum í sama fagi treysti kennarinn sér til þess að taka við aukanemendum


Hægt er að nálgast ályktunina á PDF formi hér fyrir neðan.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search