Tilkynning um Söngkeppni framhaldsskólanna 2017

Framkvæmdastjórn

Undanfarna mánuði hefur framkvæmdastjórn Sambands íslenskra framhaldsskólanema skoðað hvaða möguleikar eru fyrir hendi varðandi framtíð Söngkeppni framhaldsskólanna í kjölfar þess að á aðalþingi sambandsins í byrjun september 2016 var kosið að SÍF skuli ekki sjá um framkvæmd Söngkeppninnar líkt og verið hefur. Síðastliðin ár hefur keppnin verið framkvæmd í samstarfi við Sagafilm og vegna umfangs hennar mikil vinna lent á framkvæmdastjórninni við undirbúning. Af þeim sökum hefur stjórnin ekki náð að vinna að þeim málum sem SÍF vill beita sér fyrir, að gæta hagsmuna framhaldsskólanema.

Ógerlegt er að halda Söngkeppni framhaldsskólanna án þess að áhugi og fjármagn séu fyrir hendi. Áhugaleysi á keppninni hefur sýnt sig í lítilli þátttöku og stuðningi nemendafélaganna við sína keppendur þrátt fyrir að þeim hafi verið gerð grein fyrir því að án þeirra væri ekki hægt að halda keppnina. Þá hefur léleg miðasala og áhugaleysi valdið því að fjárhagslega hefur orðið sífellt erfiðara að halda keppnina og er svo komið að það er ekki hægt nema mikil breyting verði á. Hugmyndir komu upp um að gefa keppnina frá okkur, í hendur óháðra aðila, en við teljum að hún sé ekki framhaldsskólanema án þeirra aðkomu og gerðum við það því ekki.

Okkur þykir leitt að tilkynna að engin Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin árið 2017. Við vitum að margir skólar hafi nú þegar haldið sínar undankeppni og teljum við það jákvætt. Mikilvægt er að ungt fólk fái vettvang til að koma hæfileikum sínum á framfæri þrátt fyrir að SÍF muni ekki standa fyrir formlegri keppni á milli framhaldsskóla í þetta sinn. Við gerum ráð fyrir að ræða frekari framtíðarmöguleika á sambandsstjórnarþingi SÍF á vorönn 2017 en ljóst er að ef keppnin á að haldast í höndum framhaldsskólanema en ekki utanaðkomandi aðila er nauðsynlegt að auka áhuga og efla samstarfið milli skóla.

Ef einhverjar spurningar vakna má beina þeim á adda@neminn.is. 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: