Ástrún Helga Jónsdóttir og Sara Mansour skrifa

 

Heilög guðsmóðir barn sitt bar,

brottu í skjóli nætur.

Sýrlenskar mæður sigla á haf,

Súdanska móðirin grætur.

 

Hvar er hún okkar kristna þjóð ,

með krásir dýrustu gæða?

Leiðum við hugann að nekt og neyð,

nálgumst við þá sem blæða?

 

Hlustum við frekar á hróp og köll,

háværu tilboðanna?

Höfum við gleymt að gæta að þeim,

sem grýttustu vegi kanna?

       ÁK

 

Því miður er ástandið í dag á þann veg að við erum flest mjög upptekin af sjálfum okkur, af yfirborðskenndum vandamálum og gleymum að líta upp og sjá hvaða hörmungar eru að eiga sér stað annars staðar í heiminum. Við eigum að horfa til annarra og gera okkar til að hjálpa þeim sem hafa það verst. Það er alveg öruggt að við myndum óska þess að aðrir gerðu það fyrir okkur ef það værum við eða okkar fjölskylda sem væru í sömu sporum.

Sýrland fyrir stríðið

Sýrland er gamalt menningarríki sem á upptök sín að rekja til allt frá um 9000 f.Kr.

Þar eru ein af elstu og merkustu byggingum heims en þar dvöldu m.a. Forn-Grikkir, Byzantínmenn, Ayyubídar og Mamlukar. Þessar byggingar eiga því merka og ómetanlega sögu en eru nú margar hverjar gjöreyðilagðar vegna sprenginga og fleiri afleiðinga stríðsins. Líkt og á Vesturlöndum eru helstu atvinnugreinar Sýrlendinga landbúnaður, þjónusta, iðnaður og olíuvinnsla. Landið er tiltölulega fátækt en hlutfallslega búa þar mjög margir miðað við það landsvæði sem þar er byggilegt.  Ástandið í landinu í dag hefur rætur að rekja allt til 1970.

Sýrlenskt barn neyðist til að leggja á flótta á 30 sekúndna fresti. Óteljandi þeirra hafa horfið sporlaust í glundroða flóttans, orðið fyrir sprengjuárásum, drukknað í Miðjarðarhafinu, dáið úr hungri eða verið seld í vændi svo eitthvað sé nefnt.

Sýrland í dag

Yfir 11 milljónir manna hafa látið lífið, misst heimili sín og/eða eru á flótta frá landinu eins og staðan er í dag. Það er rúmlega 33 sinnum fleiri en íslenska þjóðin.

Frá 2011 hefur ríkt stríðsástand í Sýrlandi. Menn, konur og börn hafa misst 5 ár af lífi sínu í ótta og ótrúlega óvissu. Stjórnleysi og ringulreið ríkir. Hryðjuverk, stríðsglæpir og mannréttindabrot eru framin á hverjum degi og þess þurfa almennir borgarar að gjalda. Deilur ríkja á milli stjórnarhersins og uppreisnarhópa, svo um 2015 bættust utanaðkomandi hópar inn í stríðið, t.d. meðlimir ISIS. Þær meginstöðvar samfélagsins sem okkur flestum þykja sjálfsagðar í daglegu lífi eru að mestu leyti ónýtar. Það ríkir ekki eðlilegt löggjafavald svo almennir glæpir auk stríðsglæpa fara fram að mestu óhindrað. Kynferðisbrot eru tíð og fólki er haldið í herkví. Heilbrigðisþjónusta er af gríðarlega skornum skammti þar sem spítalar hafa orðið fyrir sprengingum og erfitt hefur reynst fyrir hjálparstarfsmenn að komast inn á stríðssvæðin. Í svona ástandi berast smitsjúkdómar hratt og ekki er aðgengi að sjúkragögnum né lyfjum. Stjórnarherinn lokar fyrir flutning á vistum til þeirra svæða sem uppreisnarmenn ráða yfir og hungursneyð ríkir.

Fólk neyðist til að lifa við þessar hroðalegu aðstæður og upplifir sorg og vonleysi. Þetta er alveg eins fólk og við þekkjum úr okkar nánasta umhverfi; læknar, smiðir, kennarar, viðskiptafræðingar, rithöfundar og skólabörn. Þau eiga eða allavega áttu fjölskyldur og framtíðardrauma og þeirra helstu áhyggjuefni voru einu sinni næsti fundur eða næsta próf. Nú snýst lífið um að lifa af næsta dag eða jafnvel klukkutíma og tryggja sjálfum sér og ástvinum sínum skjól.

Flótta- eða ferðamaður?

Skilgreining samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðarinnar (The United Nations Refugee Agency)

Flóttamaður er sá sem neyðist til að yfirgefa heimaland sitt vegna stríðs eða ofsókna og getur ekki snúið aftur. Sá sem fer á milli landa í skemmtanatilgangi er ferðamaður. Margir virðast ekki skilja muninn þar á milli.

Ferðalagið

Frá Sýrlandi liggur beinast að flýja til nærliggjandi ríkja. Um þessar mundir finnst helmingur allra flóttamanna einungis í tíu löndum. Þau sem hýsa flesta eru Íran, Líbanon, Pakistan, Tyrkland og Jórdanía. Þetta eru lönd sem glíma við gífurlegt plássleysi og fátækt fyrir. Eymdin er algjör, en samt sem áður er atvinnu-, heimilis- og réttindaleysi skárra en stríð. Þeir sem geta, leggja leið sína til Evrópu í von um betra líf, þó oft kosti það fólkið aleiguna. Aftur, sýnir það okkur hve miklu flóttamenn eru tilbúnir að fórna til þess að öðlast nýtt líf.

Mýtan um flóttamanninn

Þeir sem mótmæla flóttamannaaðstoð taka gjarnan fram að stór hluti þeirra sem koma til Evrópu eru ungir karlmenn. Þetta er að nokkru leyti rétt og má rekja til þess að í byrjun Sýrlandsstríðsins sendu margar fjölskyldur einn meðlim til þess að fara á undan hinum til að geta sótt restina þegar hann hefði hlotið alþjóðlega vernd og komið sér fyrir. Þetta kallast sameiningaraðferð og er fullkomlega viðurkennd í lögum um réttindi flóttamanna. Ástæðan fyrir því að þetta eru yfirleitt ungir karlmenn ætti að vera augljós. Þeir hafa almennt meira líkamlegt þol en eldra fólk og eru ekki eins líklegir til að verða fyrir kynferðisbrotum eða verða fyrir mansali eða vændi, eins og títt er meðal flóttakvenna- og barna. Enginn vill senda frá sér ástvini, en ef val móður stendur á milli aldraðs föður, 12 ára stelpu, ungabarns og stálpuðum drengs myndu sennilega flestir velja síðasta kostinn. Stálpaði drengurinn neyðist til að leggja í hættulega ferð yfir hálfan hnöttinn, sannfærður um að lýðræðisríkin í Evrópu muni hjálpa sér að endurheimta fjölskyldur sínar. Þegar drengirnir komast að því að svo er ekki, ákveða margir að láta ekki vita af sér og lifa þar af leiðandi utan kerfisins árum saman. Flóttinn heldur áfram… í þetta sinn frá yfirvöldum sem vilja óðum senda þá aftur til landsins sem þeir flúðu fyrst frá.

Flóttamannabúðir í Líbanon þar sem þrjár manneskjur frusu í hel

Kvótaflóttamaður eða hælisleitandi?

Kvótaflóttamenn eru sá hópur flóttafólks sem ákveðið ríki, t.d. Ísland, samþykkir að taka við frá umboði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Árið 2016 komu samtals 56 sýrlenskir kvótaflóttamenn, tugur fjölskylda, til landsins sem verður að teljast mjög lítið, þó það sé miðað við höfðatölu. Það fyllir ekki einu sinni íbúðablokk. En þessir kvótaflóttamenn fá góðar móttökur og ómetanlega aðstoð við að koma sér fyrir, þ.á.m. húsnæði, tungumálakennslu, sálfræðiaðstoð og aðgang að sömu þjónustu og aðrir landsmenn – eins og ætti að vera sjálfsagt. Það hefur sannað sig að þessi aðferð ber mikinn árangur. Ekki nóg með að hún auðveldi alla aðlögun fyrir flóttamennina, heldur kemur þetta kerfisbundið í veg fyrir menningarárekstra og kynþáttafordóma. Sams konar nálgun hefur verið notuð í minni bæjum á Norðurlöndum. Þar er lagt áherslu á gagnvirka fræðslu um vestræn gildi samhliða því að fagna fjölbreytileikanum. Kvótaflóttamenn geta fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir 5 ára dvöl; þeir verða partur af íslensku samfélagi.
    Á hinn bóginn eru aðrir flóttamenn og fólk sem sækja um hæli ekki jafn velkomin. Sama dag og fyrrverandi forsætisráðherra tók með opnum örmum á móti kvótaflóttamönnunum stóð til að senda aðra flóttafjölskyldu úr landi. Annars staðar í Evrópu er ekki gerður mannamunur á þennan hátt. Hælisleitendum sem komast hingað eigin vegum er troðið í geymslur eða komið fyrir tímabundið svo mánuðum skiptir, áður en mál þeirra eru tekin fyrir og þeim oftast vísað úr landi. Óvissan sem þetta fólk finnur fyrir skapar gremju sem hefur haft hörmulegar afleiðingar í nágrannalöndum. Útlendingum er komið fyrir í sístækkandi fátækrahverfum og verða fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis, húðlitar og trúar. Manneskjur, sem áður voru virtar, finna nú fyrir órökstuddu hatri og missa alla von á framtíð í vestrænum ríkjum. Hernaðarbröltið sem heimaland þeirra varð fyrir af höndum fyrrverandi nýlenduríkja eyðilagði líf þeirra og tregða þessara sömu ríkja til að hjálpa fórnarlömbum stríðsins gerir það að verkum að þau sópast að samtökum sem leggja fæð á Vesturlöndin. Því það fæðist enginn hryðjuverkamaður. Útilokun hælisleitenda frá samfélagi manna hérlendis mun hafa sömu áhrif, ef ekkert verður gert.

Þetta er vitnisburður úr æviágripi Ibrahem Al Danony Mousa Faraj, Undir fíkjutrénu – saga af trú, von og kærleika, eftir Önnu Láru Steindal, sem vildi segja frá sinni upplifun af íslenska kerfinu – því góða og hinu slæma. Hann flúði frá Líbýu undir ógnarstjórn Gaddafis, en einræðisherrann hafði fyrirskipað dauða Ibrahems af pólitískum ástæðum. Í dag er hann giftur íslenskri kvótaflóttakonu og á með henni fjölskyldu. Eiginkona hans, Lina, er aðalpersónan í bók Sigríðar Víðis Jónsdóttur, Ríkisfang: ekkert, en hún fjallar um palestínsku konurnar sem komu hingað frá Írak árið 2008. Með því að bera saman bækurnar er því auðvelt að sjá muninn á þeirri meðferð sem kvótaflóttamenn fá annars vegar og hælisleitendur hins vegar.

“Eina dægradvölin sem ég hafði á þessum fyrstu mánuðum og árum á Íslandi var lestur á trúarlegu efni í moskunni, eina lesefninu sem var til á arabísku, eina tungumálinu sem ég kunni. Það samfélag trúaðra sem ég hafði aðgengi að veitti mér kraft og innblástur og ómetanlegan stuðning. En í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um unga múslima á Vesturlöndum sem láta narrast af öfgafullri hugmyndafræði íslamista hef ég oft hugsað til þessa tíma og hvernig lífið hefði getað farið á annan veg ef svo óheppilega hefði viljað til að skoðanir af þessu tagi hefðu hefðu náð fótfestu á Íslandi og ég álpast inn í þann félagsskap. Í því ástandi sem ég var, gramur, hræddur og ákaflega vonsvikinn, er möguleiki á að ég eins og aðrir í sambærilegri stöðu hefði látið sannfærast ef hart hefði verið að mér lagt. Gremjan og ergelsið sem ég upplifði stundum á Íslandi voru af öðrum toga en örvæntingin sem ég lifði stöðugt í heima í Líbíu. Þar vorum við meira og minna öll í sömu stöðu. Við vorum öll fórnarlömb byltingarinnar með einum eða öðrum hætti. En á Íslandi tilheyrði ég tiltölulega litlum hópi sem ótti við hryðjuverk eða eitthvað annað hafði málað út í horn og við upplifðum sterkt, með réttu eða röngu, að okkur væri mismunað og við nytum ekki sannmælis. Í veikri von um að geta leitt fólki fyrir sjónir að ekki væru allir skeggjaðir múslimar hættulegir hryðjuverkamenn lét ég mér meira að segja vaxa skegg til að ögra staðalímyndinni af múslimum og hryðjuverkamönnum. Ég sem aldrei hafði haft skegg.”

 

Þjóðfylkingin er stjórnmálaflokkur sem spratt upp á síðasta ári hvers helstu stefnumál eru aðbúnaður bágstaddra Íslendinga fram yfir flóttamannahjálp.

Það er rasismi

Ísland er fullt af rasistum. Fæstir þeirra myndu samt viðurkenna að þeir vildu bara losna við fólk af öðrum kynþáttum, svo þeir notast við afsökunina að þeim sé umhugaðra um afkomu bágstaddra Íslendinga. Þeir þvertaka fyrir að hata útlendinga, heldur vilji þau einungis bæta stöðu „okkar fólks“ áður en þeir fari að hjálpa öðrum. En… það er rasismi. Það er rasismi að finnast líf hvítra Íslendinga skipta meira máli en brúnna Sýrlendinga. Það er rasismi að ætlast til að allir Íslendingar hafi efni á ís á sunnudögum áður en við íhugum möguleikann að bjarga lífi Sýrlendinga. Það er helber rasismi.

 

Kæra Eygló

Hallgrímur Helgason sagði þjóðinni til syndanna fyrir seinustu kosningar í myndbandi Stundarinnar. Að hans mati var ákall þjóðarinnar til Eyglóar Harðardóttur, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, hlægilegt vegna þess hve stutt það náði:

„Kæra Eygló – átakið var svo sannarlega stórkostlegt svo langt sem það náði… það náði bara ekki nógu langt. Það komu engir flóttamenn. Við sem vorum orðin heimsfræg fyrir velvild okkar, náungakærleik og gestrisni, við bara fórum ekki til dyra þegar heimurinn hringdi bjöllunni. Það var ekki fyrr en eftir áramót, fyrr en sextíu manns voru búin að deyja daglega í hundrað daga sem við dröttuðumst loks til dyra. Nítíu flóttamenn. Húh! Við björgðuðum einum og hálfum degi upp úr Miðjarðarhafinu. Æææðislegt, Eygló.[…] Gagnvart flóttamannavandanum er Ísland ársins 2016 eins og upphitað einbýlishús úr steini í móðuharðindunum miðjum þar sem við sitjum södd og sjúk og leið og löt og frek og feit og slöfrum í okkur stofubráðinn ís eftir kjötmatinn á meðan úti frýs og blæs öskusvört ísmóðan og þjóðin okkar skríður sitt lokaskrið út á stæði og deyr sínum hungurdauða úti á tröppum, loppin af kulda og hóstandi lungum. […] Eitt sinn var Aleppo hér. […] Meira að segja þeim fáu sem hingað eru þó komnir í skjól frá byssum og hungri reynum við að bola burt úr landinu. Þjóðverjar tóku við milljón flóttamönnum frá Sýrlandi, Svíar við hundrað þúsund. Fyrrnefnda þjóðin telur áttatíu milljónir, sú síðarnefnda tíu milljónir. Í samanburðinum hefðum við átt að taka við þrjú–fjögur þúsund flóttamönnum. Við höfum ekki einu sinni tekið við tvö hundruð manns. Og við sem eigum tuttugu tóma firði sem enginn vill búa í – sem enginn trúir á. […] Í alvöru Íslendingar! Okkar vandamál eru svo smotterísleg í samanburðinum við það sem dynur á flóttamönnum heimsins; á flótta, í flóttamannabúðum, biðjandi um hæli, takandi sjens á bátsfari, bílfari, flugfari, með börnin og lífið í lúkunum. […] Segjum aftur Kæra Eygló og meinum það.“

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: