Vatnið var mjög slétt þennan dag. Sólin skein og það glitti í glampandi gárur við fæturnar þar sem að ég óð. Ég reyndi að fara varlega til þess að hreyfa sem minnst við yfirborði vatnsins. Skyndilega þaut pínulítil geimflaug hjá. Hún sneri svo við og lenti á einni gárunni. Geimflaugin var svo lítil að það lægi við að hún gæti brimað á gárunum. Rétt í því opnaðist pínulítil hurð að ofan á geimflauginni og út kom lítil vera sem fór að brima á gárunum með geimflauginni. Mér fannst þetta mjög skrýtið. „Mér finnst mjög skrítið að nota geimflaug sem gengur augljóslega á dísel eldsneyti til þess að brima á“ sagði ég. „Mér finnst það ekki skrítið,“ sagði veran. „Ok,“ sagði ég. Ég var samt ekki alveg viss. Ég vildi fá annað álit þannig að ég fór upp úr en lagði sprikklandi laufblað á vatnið þar sem að fóturinn minn hafði verið til þess að veran gæti haldið áfram að brima. Ég sat uppi á þurru í svolitla stund og notaði hárblásara til þess að þurrka lappirnar og fæturnar og tásurnar og öklann og hælinn og ilina af því að ég vildi hvorki að sandur festist við fæturnar, né tásurnar, né öklann, né hælinn, né ilina. Ég stóð upp og fann hve grasið kitlaði undir fótunum. Ég gekk í hægri átt miðað út frá mér sem sný baki í vatnið og sú átt sem ég stefni í er vestur. Ég geng þá átt en þá geng ég ekki lengur í hægri átt heldur beint áfram. Ég gekk bara 72 skref og ég er komin að hurð fræðimannsins. Ég banka á hurðina og hann hleypir mér inn í eldfjallið. „Viltu te?“ spyr hann. „Já ég væri alveg til í te,“ segi ég. Hann græjar te. Mér finnst te hjá fræðimanninum alltaf gott. Ég smjatta á teinu. „Hvað er í teinu í dag, fræðimaður?“ spyr ég fræðimanninn. „Þessa könnu lagaði ég úr fjallagrösum, sítrónumelissu, eplamintu, timjan, berserkjum, belladonnu, kísilsýru, afgöngum pizza madness, skáldamiðinum og einnota grímu. -Engar áhyggjur samt, hún var ónotuð.“ „Hjúkk!“ segi ég. Mig langar nefnilega alls ekki til að verða veikt. Ég hugsa til þess hvers vegna ég kom til fræðimannsins. „Fræðimaður,“ segi ég, „Finnst þér ekki skrítið að brima á gárum með geimflaug sem gengur á dísel?“ Hann hugsar sig aðeins um og segir loks: „Ekki ef hún er hybrid og gengur líka á hestöflum.“ Ég þakka fyrir upplýsingarnar og býst þá við því að geimflaug verunnar sé hybrid og gangi líka á hestöflum.
Penni: Gabriella Sif Bjarnadóttir