„Taktu bláu!“
Orðin bergmáluðu í eyrum mér.
„Taktu bláu!“
Ég leit niður en allt var hulið móðu. Hvar var bláa kúlan? Þetta var allt of mikil pressa. Kannski gæti ég bara skotið niður einhverja aðra. En nei, bláa kúlan var í færi. En fjólubláa líka. Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat þetta gerst í hvert skipti sem ég spilaði pool?
„Taktu bláu!“
Hvernig gæti ég snúið mig úr þessu? Ég sá ekki bláu, ég sá ekki fjólubláu, ég sá bara tvær bláfjólubláar kúlur. Hvor lá sínum megin á borðinu með hvítu mitt á milli sín. Ég átti grænu eftir en hún var fyrir aftan tvílita. Það gekk ekki. Ég yrði að velja.
„Taktu bláu!“
Fólkið í kringum borðið var farið að stara á mig. Þetta var athygli sem ég hafði ekki upplifað lengi. Líklega ekki síðan ég stautaði í gegnum fermingarræðuna fyrir framan 20 ættingja sem ég þekkti og 60 ættingja sem ég hafði ekki hitt síðan í skírnarveislunni minni. Ég steig eitt skref fram og lyfti kjuðanum.
„Taktu bláu!“
Ég gæti reynt að vippa yfir þessa tvílitu, tekið grænu þannig. En það hefur ekki virkað nema einu sinni. Í hundrað leikjum. Það er ekki möguleiki.
„Taktu bláu!“
Drunurnar bárust frá eyrunum og út í líkamann. Ég var farinn að skjálfa. Var glugginn opinn? Var ísskápurinn opinn? Líklega var þetta bara jarðskjálfti. Nema skjálftinn hætti ekki. Taugarnar voru að fara með mig.
„Taktu bláu!“
Nú var að duga eða drepast. Liðið mitt treysti á mig. Ég treysti ekki á mig. Það var stórt vandamál. Ég lyfti kjuðanum. Bar hann að borðinu. Lagði hann á bríkina. Dró hann fram, dró hann aftur. Fram og aftur. Fram og aftur.
„Taktu bláu!“
Ég ákvað að skjóta bara á aðra þeirra. Vona það besta. Hvað var það versta sem gæti gerst? Ég skaut. Hvíta kúlan þaut af stað. Hviss. Hvíta kúlan strauk bláu. Eða fjólubláu. En annars hreyfðist skotmarkið ekki. Mér var borgið. Guðunum sé lof að ég kann ekki pool.
Penni: Árni Pétur