Elskum við þessar mellur?

Síðastliðna viku rýndi ég ásamt vinkonum mínum í texta íslenskra karlrappara til að komast að því hvort hugmyndir mínar um það hvernig þeir yrkja um konur væri eins og ég hafði tilfinningu fyrir. Hugmynd mín af textum þessara rappara var fyrirfram frekar neikvæð, mér fannst ég varla heyra annað en „bitch“ og „mella“ í bland við gort yfir fylgihlutum og peningum. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Við völdum 10 rappara sem við vildum hlusta á og völdum handahófskennt þrjú lög frá hverjum þeirra, en þess ber að geta að oft og tíðum voru tveir rapparar saman, og þá varð að ákveða hver fengi heiðurinn að textanum. Áður en hlustun hófst skrifuðum við niður orð sem við töldum líkleg til að koma fyrir en bættum svo við orðum sem okkur fannst eiga heima á listanum um leið og við hlustuðum. Síðan gáfum við orðunum stig eftir því hversu gróf okkur fundust þau vera. Orð eins og beibí og þú fengu 1 stig, bad gella og læða fengu 2 stig og tík, bitch, mella og belja voru dæmi um orð sem við töldum mjög gróf og þau fengu 3 stig. Af og til kom það fyrir að okkur þóttu frasar svo grófir að ekki var annað hægt en að gefa þeim 4 stig. Dæmi um slíkan frasa var „þú ert bitch og ég veit það. Endar alltaf á því að vera kleina.“ Eftir að hafa hlustað á hvert lag og skráð orð sem notuð eru um konur og gefið orðunum stig, lögðum við saman stigafjölda lagsins og svo hvers listamanns.  

Í ljós kom að orðanotkun fer mjög eftir rappara. Sumir eru mun grófari en aðrir og það kom fyrir að ekki var gefið stig fyrir lag, til dæmis má nefna Pening á heilanum. Það sem kom okkur einna mest á óvart var að rapparar sem við höfðum fyrirfram talið mjög grófa fengu oftar en ekki fjögur eða færri stig. En svo eru sumir textar sem eru grófari. Lagið OMG, þar sem Floni, Birnir og Joey Christ koma saman, fékk 142 stig ☹. Það er einnig lagið þar sem grófustu frasarnir koma fram, sem dæmi má nefna „ekki mér að kenna að enginn sé að trúa þér“, en þessi setning minnti okkur á nauðgunarkærur og hvernig gerendur bregðast við þeim. Í laginu Elskum þessar mellur með Blaz Roca og Emmsjé Gauta, sem fékk 114 stig, tala Gauti og Erpur ekki aðeins um konur sem mellur (endurtekið) heldur tala þeir líka um það að þessar mellur séu óöruggar og alltaf kappmálaðar með ljóslitað hár og gervineglur. Þeir gera lítið úr útliti þeirra kvenna sem vilja mála sig og lita á sér hárið og segja í raun að kona sem er kappmáluð sé bara til þess að taka í rassgatið. 

Eftir að hafa farið svona í gegnum þessa texta líður mér, sem ungri konu, eins og minn eini tilgangur sé að vera auðveld og vilja láta taka mig að aftan. Skilaboðin sem rappararnir gefa eru oft á tíðum niðrandi og lítillækkandi gagnvart konum og hamra á stöðlum sem konur þurfa að falla undir á hverjum degi. Þessi tónlist hefur mótandi áhrif, bæði fyrir stelpur og stráka og alla þar á milli. Ef ungar stelpur fá þau skilaboð að þær eigi alltaf að vera til í tuskið og eigi að líta svo og svo út, ölum við af okkur kynslóð kvenna sem er niðurbrotin og berskjölduð gagnvart karlrembum, og við erum ekki búnar að berjast fyrir réttindum okkar í hundruði ára til að fara aftur á núllpunkt. Svo elsku rapparar: Þegar þið ætlið næst að kalla konu sem hefur sínar eigin skoðanir tík, hugsið ykkur þá tvisvar um. Fólk lítur upp til ykkar.  Þið hafið áhrif og tungumálið mótar viðhorf okkar til manna og málefna, þar á meðal viðhorf þeirra sem hlusta á ykkur! Elskið þessar konur.

PENNI: Ragnhildur Björt Björnsdóttir

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search