Engin próf í Myndlistaskólanum

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Í barnaskóla eru nemendur gjarnan spurðir hvað þeir ætla að gera þegar þeir verða stórir. Flest börn hafa ekki myndað sér raunhæfa skoðun og ætla sér kannski að verða sjóræningi, geimfari eða prinsessa. Ég var aftur á móti viss um að verða myndlistarkona. Foreldrar mínir eru bæði í myndlist og flestir vinir þeirra myndlistarmenn, rithöfundar eða leikarar. Ég ólst þannig upp í kringum listþenkjandi fólk. Þegar ég lauk grunnskóla setti ég stefnuna á nám við Myndlistaskólann í Reykjavík. Skólinn gerir hins vegar kröfur um að nemandi hafi lokið 60 einingum í öðrum framhaldsskóla. Þar af kjarnafögunum fjórum. Þannig að ég ákvað að ljúka þeim í Menntaskólanum við Hamrahlíð, sem mér finnst æðislegur skóli. 

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Eftir að hafa lokið þessum 60 einingum fór ég í inntökupróf fyrir sjónlistadeild Myndlistaskólans og stóðst það. Sjónlistadeildin skiptist í tvær brautir. Annars vegar fornám í eitt ár og hins vegar menntaskólabraut í tvö ár. Fornám er skilgreint sem viðbótarnám við framhaldsskóla og er hugsað fyrir nemendur sem vilja undirbúa og þjálfa sig fyrir nám við listaháskóla en hafa ekki lokið námi á listabraut, eins og er í FB, FG og VMA, sem dæmi. Í fornáminu læra nemendur grunninn í ýmsum miðlum myndlistar og hönnunar.  Við menntaskólabrautina er það sama kennt og í fornáminu en að auki geta nemendur klárað einingar fyrir stúdentspróf og útskrifast sem slíkir frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Bókleg fög eru þá tengd við listirnar. Stærðfræði er til dæmis tengd við formfræði og íslenska tengd við ljóð og skapandi skrif.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Ég hóf námið síðasta haust. Ég er í góðum bekk með 18 nemendum á aldrinum 18 til 26 ára. Námsfögin eru kennd í lotum sem mér finnst henta vel fyrir myndlistarnám því þá klárar maður einhvern ákveðinn áfanga sem nýtist manni strax í þeim næsta. Enginn kennari er fastráðinn við skólann. Allir sem kenna þar myndlist eru starfandi myndlistarmenn sem kenna þá eina lotu í senn og halda svo áfram að skapa sína myndlist eftir það. Engin próf eru í skólanum. Einkunnir eru metnar eftir verkefnaskilum og þátttöku eða vinnusemi.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Eftir menntaskólabraut eða fornám sækja margir nemendur um listaháskólanám hér heima eða erlendis. Myndlistaskólinn bíður þó líka upp á tveggja ára viðbótarnám, diplómanám á fjórða námsþrepi sem margir sækja um, en námið er metið til 120 ECTS á háskólastigi. Þetta eru fjórar brautir; textílbraut, teiknibraut, keramikbraut og listmálarabraut. Á þessum brautum er áhersla lögð á handverk. Á listmálarabraut er til dæmis kennt allt um efni og aðferðir málaralistar og í teiknideild er aðallega lagt út frá myndskreytingum fyrir til dæmis bækur eða „konsept art“ fyrir tölvuleiki.  Diplómanámið er það eina í skólanum sem er lánshæft hjá lánasjóði íslenskra námsmanna. Það var skipulagt í samstarfi við nokkra erlenda háskóla. Þeir sem ljúka því geta sótt um að komast inn á þriðja ár hjá þeim skólum, fá þá árin tvö hjá Myndlistaskólanum metin til fulls og ljúka B.A. gráðu erlendis á einu ári.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

Mér finnst myndlistaskólinn heimilislegur, enda ekki nema um 120 nemendur í sjónlistadeild og diplómadeildum. Svo eru líka fullt af námskeiðum fyrir börn og fullorðna, að ógleymdri nýrri diplómadeild fyrir fólk með þroskahömlun. Í kaffisalnum er því oft samankominn fjölbreyttur og skemmtilegur hópur fólks, allt frá leikskólabörnum að læra um listir í gegnum leik til eldri borgara á vatnslitanámskeiði eða ungs fólks í framhaldsnámi.

Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is
Kristján Örn Björgvinsson | Neminn.is

PENNI: Sóley Lúsía Jónsdóttir

Listaverk á myndum eru eftir Sóley Lúsíu Jónsdóttur

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search