Ég gapti um leið og ég mætti í Gamla bíó, forvitin að sjá útfærslu Herranætur á Rent – einum ástsælasta söngleik síðari tíma í leikstjórn Guðmundar Felixsonar. Og nei, ég gapti ekki bara því fyrsta manneskjan sem ég sá í salnum var Vigdís Finnbogadóttir, og nei ég gapti ekki bara því næsta manneskja sem ég sá var Brynhildur Guðjóns og ég sá fram á að vera stjörnustjörf allan tíman – heldur maður minn, leikmyndin! Hún tók á móti mér opnum örmum og á tveimur hæðum með stálpípum og plakötum og ég hugsaði með mér; „ef allir verða falskir og óskýrmæltir og sýningin ömurleg – þá er þessi leikmynd allavega helluð“.

En! Kæru lesendur, það var varaplan sem ég hefði ekki þurft að eyða tíma í að sulla saman því Rent var hin besta skemmtun. Sviðið var nýtt í ystu æsar og hvert dívulagið tekið á fætur öðru með tilheyrandi gæsahúð áhorfenda – og þrátt fyrir stöku mækavesen hér og þar var það leyst á skilvirkan hátt leikara eða hljóðmanna. Það voru hópatriði, það voru kórar, það voru tvær gerðir af gítörum, í heimi þar sem það nægir að selja þá til að eiga fyrir bíl, og við vorum með dragdrottningu og gjörningalistakonu – hvað þyrstir þig í annað? Ef það er heimilisleysingjakvintett, þá já, Rent skilar þeim af sér í kómískum léttleika sem er ósköp vel þeginn innan um öll HIV smitin og peningaskortinn.

Uppfærslan er stútfull af æðislegum leikkonum, Unu Torfadóttur í hlutverki Mark, Elísabetu Theu sem Joanne, Kötla Ómarsdóttur rótsterkri sem Maureen og Halldóru Sólveigu í hlutverki Mimi, mig langaði stundum að grenja af samlíðandi angist og yfir því hvað þær voru gjeggæðislega öruggar, sterkar og með flotta sviðsframkomu. Og ólíkt MH leikritinu sem ég hafði farið á fyrr um daginn var hér margt um sleikinn og enn meira um lögin, meira að segja aðeins um grín á kostnað hugvísinda sem ég reyndi eftir fremsta megni að láta mér sem vind um eyru þjóta.

En á heildina litið var sýningin æðisleg. Matthías Löve í dragi Angels var algjör senuþjófur í hvert sinn sem hann steig sínum glimmeraða og háhælaði fæti á sviðið og fékk áhorfendur til að langa bara í meira og meira. Herranótt sýnir til 7. apríl, og það er bílastæðahús bara alveg við Gamla Bíó svo ég skil í raun og veru ekki hvað er að stoppa þig, kæri lesandi, frá því að skella þér.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: