Uppsetning Flensborgar á Systra akt – leikdómur

Karitas M. Bjarkadóttir

Þegar ég gekk inn í Bæjarbíó í Hafnarfirði heilsuðu mér tveir, mjög hressir pörupiltar og kynntu sig sem Joey og Willy. Ég gerði mér auðvitað strax fyrir því að hér væru komnir menn í karakter, því mannanafnanefnd myndi að öllum líkindum koma í veg fyrir að barn fengi nafnið Willy, barnsins vegna. En kynningin hafði tilætluð áhrif, því ég varð strax mjög spennt fyrir sýningunni sem ég var mætt út fyrir höfuðborgarsvæðið til að sjá, Sister akt í uppsetningu Flensborgarskólans. Þetta var einn af fáum söngleikjum í uppsetningu framhaldsskóla þetta árið sem ég hafði aldrei séð, verandi mikill aðdáandi samspils tónlistar og skrípaleiks, og ég vissi ekkert hvað ég hafði komið mér út í. En það var gott, ég get sagt ykkur það.

Sýningin opnar á söngatriði aðalpersónunnar Deloris, sem er stórfenglega leikinn  af Kolbrúnu Maríu Einarsdóttur. Röddin hennar og flutningur af laginu Something‘s Got a Hold on Me gjörsamlega fyllti upp í allt Bæjarbíóið eins og það leggur sig og ég fékk gæsahúð frá toppi til táar, sannfærð um að þetta boðaði góða sýningu. Sem það og gerði. Söguþráðurinn var hraður, hraðar og jafnar skiptingar og allt í einu eru áhorfendur staddir með Deloris í vitnavernd í klaustri þar sem falskar nunnur og ströng abbadís (Stefanía Arna Víkingsdóttir) taka við okkur misopnum örmum. Þó svo að fölsku nunnurnar hafi án efa eyðilagt lagið Í bljúgri bæn fyrir mér, um ókomna tíð, tekst Deloris fljótt og í óþökk abbadísarinnar að gera þær að heilsteyptum gospel kór.

Og fljótt fáum við að kynnast annari söngkonu sem ég satt best að segja skil ekki hvernig er ekki orðin þjóðþekkt, því Sóley Dís Heiðarsdóttir í hlutverki nunnunnar Mary Roberts var gjörsamlega stórkostleg. Ég fór næstum að gráta af virðingarblandinni öfundssýki því maður minn, þessi rödd! Mér leið stundum eins og ég væri á stórtónleikum nokkurra söngdíva með söguþræði, ég gat varla setið kyrr af spenningi fyrir næsta söngatriði. Hér er um tvímælalausa og tæra hæfileika að ræða.

Þó svo að sönghæfileikar leikaranna hafi augljóslega staðið upp úr var leikgerðin öll frábær eins og hún lagði sig. Leikmyndin var minimalísk en leyst á stórkostlegan hátt, öll leikatriði vel útfærð og snörp og félagar mínir Joey (Ásbjörn Ingi Ingvarsson) og Willy (Nicolas Leó Sigurþórsson) héldu trúðalegri kómíkinni lifandi. Satt best að segja langar mig aftur, svona ef ykkur langar að fara og upplifa það sama og ég, en hafið engan til að fara með.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: