Uppsetning FG á Clueless – leikdómur

Verðandi, leikfélag FG er um þessar mundir að setja upp söngleikinn Clueless í leikstjórn Önnu Katrínar Einarsdóttur, í hátíðarsal skólans. Eftir að hafa villst í dágóða stund í Garðabænum, sem ég viðurkenni fúslega að ég þekki ekki til staðarhátta í, fann ég loksins framhaldsskólann og hlammaði mér niður í einum best útbúna leiksýningarsal sem ég hef séð í framhaldsskóla.

Verandi mikill aðdáandi myndarinnar sjálf var ég spennt að sjá uppfærslu leikfélagsins í íslenskri þýðingu, og maður minn, ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Heiða Rún Jónsdóttir í aðalhlutverkinu Cher geislaði af leikgleði, og ég gleymdi því furðulega oft að Alicia Silverstone sjálf væri ekki á sviðinu fyrir framan mig. Hún gjörsamlega sameinaðist hlutverkinu og gerði þannig allt leikritið eins sannfærandi og trútt myndinni sem leikgerðin er byggð á og mögulegt var. Það er að vísu ósanngjarnt að nefna Heiðu eina, því allir leikararnir stóðu sig frábærlega. Þar má meðal annars nefna Natalíu Erlu Arnórsdóttur sem leikur þernunnar Lucy, og fer gjörsamlega á kostum. Atriðin milli hennar og Agnesar Emmu Sigurðardóttur í hlutverki móður Cher eru frábær hliðaratriði sem gera kómíkinni í leikritinu hátt undir höfði.

Leikmyndin er að mestu ansi einföld, en einstaklega vel útfærð og skiptingar milli atriða og umhverfa eru hraðar, það er aldrei dauð stund. Þau leysa allar langar skiptingar og flækjur með skemmtilegum innskotsatriðum til að halda áhorfendum við efnið, og þá langar mig sérstaklega að minnast á það þegar leiklistarhópur skólans í verkinu er kynntur. Um það bil 10 krakkar taka um það bil 10 mínútna langa leiklistarmontage senu, sem er gjörsamlega toppuð með lélegu ballettatriði úr Svanavatninu – og áhorfendur elskuðu það. Þar fengu líka fleiri stórglæsilegar söngkonur að láta ljós sitt skína.

Á heildina litið var uppsetningin öll ein hæfileikabomba. Mér leiddist ekki stundarkorn og langaði strax að safna hári aftur, lita það ljóst og ganga oftar í háum hvítum sokkum við stutta kjóla. Já, ég var meira að segja ekki langt frá því að draga aftur fram gamla 90‘s gallajakkann minn. Ég mæli ekki oft með því að fólk fari í Garðabæinn, en núna geri ég það hiklaust. Verðandi er með sýningar á döfinni fram að 31. mars, nýtið ykkur það!

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: