Ógleymanlegur söngleikur um ást, dauða og vonbrigði eftir Leikfélag MH

Karitas M. Bjarkadóttir

Ég hringsólaði að minnsta kosti þrjá hringi í kringum Menntaskólann við Hamrahlíð áður en ég fann réttan inngang og gekk inn á myrkvað sviðið*.  Þegar ég hafði plantað mér í hornsæti og fálmað eftir leikskránni hófst verkið Ógleymanlegur söngleikur um ást, dauða og vonbrigði í leikstjórn Stefáns Ingvars Vigfússonar.

Ég viðurkenni það alveg – fyrstu tíu mínúturnar hugsaði ég bara; „vá hvað þetta er MH.“. Ég geri mér ekki sjálf grein fyrir því hvort það er endilega hrós eða last á þeim tímapunkti, en eftir því sem leið á leikritið og atriðin urðu fleiri fór verkið að smella saman fyrir augunum á mér eins og púsluspil og ég skildi rauða þráðinn í því. Verkið er sem sagt sett upp svolítið eins og grínþáttur, Spaugstofan eða eitthvað svoleiðis þar sem stutt hnitmiðuð og fyndin atriði eru leikin á víxl, og svo endurtekur munstrið sig með sömu persónum í öðrum aðstæðum. Improv sýning gæti líka verið góð samlíking.

Og verkið minnti vissulega svolítið á improv sýningu. Hugmyndir að atriðunum komu frá reynslu og upplifunum krakkanna sjálfra – þó svo að það væri miserfitt að setja puttann á það hvað var byggt á reynslu og hvað ýkt eða upplogið. Og það er það sem gerði sýninguna svo einstaka. Söngtextarnir voru allir mjög skemmtilegir, og ég get rétt ímyndað mér hvað það er gaman að gera heilan söngleik, með lögum, texta og dansrútínum, um sitt eigið líf eða líf vina sinna – og fá svo að sýna hann í búningum, með ljósum og hljómsveit í ofanálag. Þetta hljómar eins og skemmtilegasta hópefli í heiminum.

Svo var lýsingin ótrúlega skemmtileg. Ef það voru ekki mislitir lampar þá voru það seríur sem lýstu á leikarana, og þeir stjórnuðu ljósabúnaðinum sjálfir að mesta leyti, sýndist mér. Tónlistin var líka spiluð af leikurunum sjálfum, og ég verð að hrósa Iðunni Gígju Kristjánsdóttur fyrir frábæran söng og hljómborðsleik. Hún hitti ekki feilnótu einu sinni og gaf verkinu skemmtilegan en persónulegan blæ.

Ég gæti haldið áfram að hrósa í allan dag, allir stóðu sig ekkert smá vel, ég hló, ég táraðist, ég er enn með lögin á heilanum þremur dögum síðar og til tilbreytingar þessa söngleikjatíðina, þá fór enginn í sleik. Á heildina litið skemmtileg, flott og æðisleg sýning, sem mér skilst að verði sýnd að minnsta kosti þrisvar sinnum í viðbót, ef ekki oftar.

 

 

*Fyrir ykkur sem ætlið á sýninguna (og ég vona að það séu sem flestir) þá mæli ég með að kíkja á viðburðarlýsinguna á FaceBook, svo þið týnist ekki eins og ég – sem kíkti ekki á viðburðarlýsinguna.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: