Lífið í Listaháskólanum

Ritstjórn

Sólveig María Sölvadóttir sendi inn pistil:

Ég var löngu búin að ákveða hvert ég myndi stefna námslega eftir framhaldsskóla. Ég ætlaði að verða grafískur hönnuður, sá besti á landinu. Mig minnir að ég hafi verið á busaárinu mínu þegar ég talaði um það fyrst. Ég slysaðist til að gera plaköt fyrir vini mína í kosningavikunni og lærði þannig á helstu adobe forritin (Photoshop, Illustrator og InDesign). Með tímanum gerði ég fleiri og fleiri verkefni fyrir skólann, meðal annars merki fyrir ýmsar nefndir, viðburðamiða, plaköt, bæklinga, leikskrár og kynntist því að nota ljósmyndastúdíó í nemendakjallaranum. Ég fékk brennandi áhuga á ljósmyndun og grafískri hönnun. Ég byrjaði að fá verkefni utan skóla, til dæmis ljósmyndunarverkefni fyrir fermingar og skírnir og merkjagerð fyrir fyrirtæki og stofnanir. Eftir það var ekki aftur snúið.

Ég fann ekki þessa löngun til þess að fara í heimsreisu eftir útskrift. Ég hef ferðast mikið og mun eflaust ferðast meira í framtíðinni þegar ég hef betri tök á því. Ég hafði líka bókað þriggja vikna ferð til Flórída með fjölskyldunni um haustið til þess að fagna fimmtugsafmæli mömmu minnar og það var meira en nóg. Ég vildi fyrst og fremst einbeita mér að því að safna fyrir íbúð og því ákvað ég að taka mér a.m.k. árs pásu til þess að vinna áður en ég myndi hefja aftur nám. Ég sótti samt sem áður um í Listaháskólanum það ár því ég var viss um að ég kæmist ekki inn við fyrstu tilraun og ætlaði að reyna aftur að ári liðnu. Ég var, mér til mikillar undrunar, samþykkt strax og þar með fór Flórídaferðin út um gluggann. Það féllu þó ekki mörg tár því ég gat ekki verið sár yfir því að hafa fengið inngöngu í skólann.

Listaháskólinn skiptist í fjögur húsnæði sem eru dreifð um höfuðborgarsvæðið en Hönnunar- og arkitektúrdeildin er í sex hæða byggingu í Þverholti. Byggingin var ekki beinlínis gerð fyrir skóla en mér skilst þó að þetta sé aðeins tímabundin staðsetning og að deildin muni flytja í nýtt hús sem er betur við hæfi í náinni framtíð. Hver braut í deildinni (vöruhönnun, fatahönnun, arkitektúr og grafísk hönnun) hefur sína eigin hæð með einni kennslustofu og stærðarinnar vinnustofu þar sem vinnuaðstaða allra þriggja ára er. Hver nemandi fær síðan skrifborð sem hann má breyta og skreyta eins og hann vill. Á borðum hjá okkur í grafískri hönnun á fjórðu hæð má finna allskyns skrýtna hluti. Hér hafa einhverjir komið með brauðrist, kaffivél, pottaplöntur, auka tölvuskjái og jafnvel sína eigin prentara og stóla. Það eru nánast engar reglur um það hvað maður má eða má ekki koma með. Við erum að stefna að því að fá ísskáp bráðum, en hann mun prýða kósýhorn okkar ásamt sófunum, örbylgjuofninum og foosball-borðinu sem er ekki lítið notað milli tíma.

í Þverholti erum við svo óheppin að hafa ekki mötuneyti eins og í Laugarnesinu þar sem sviðslista-, myndlista- og listkennsludeildin eru til húsa. Við erum líka nýlega búin að missa sómasamlokurnar úr sjálfssalanum, en huggum okkur við að Bónus er í einnar mínútnar göngufæri. Ef maður á nóg til að spreða er Hlemmur Mathöll einnig rétt hjá. Flestir koma þó með nesti og deildirnar eru duglegar að elda af og til og selja heitan mat fyrir fjáraflanir.

Nemendur hafa aðgang að vídeóveri, hljóðupptökuveri, trésmíða-, járnsmíða-, textíl-, prent-, og ljósmyndunarverkstæði en þrjú síðastnefndu eru þau mest notuðu af nemendum í grafískri hönnun. Á smíðaverkstæðinu má finna laser-skera og þrívíddarprentara sem vöruhönnunar- og arkitektúrbrautin eru dugleg að nota. Í ljósmyndunarverinu í Þverholti er stúdíóaðstaða og ljósmyndunarbúnaður en í Laugarnesi er aðstaða til þess að framkalla og vinna svart-hvítar filmur og prenta hágæða myndir. Prentverkstæðið er mitt uppáhalds. Þar kynnist maður mismunandi prentaðferðum og vinnur meira og minna allt í höndunum.

Mesta tilbreytingin við að að fara úr Verzló í Listaháskólann var, að mér fannst, hvernig stundataflan er byggð; engar tvær vikur eru eins. Námið er sett upp sem mismunandi námskeið sem eru „x“ margar vikur. Ég var til dæmis að ljúka við merkjafræðikúrs sem var alla daga frá 13:00 til 16:30 og stóð yfir í fimm vikur. Á sama tíma var og er ég í áfanganum „Hönnun og samfélag“ sem er einu sinni í viku fyrir hádegi og lýkur ekki fyrr en í maí. Persónulega finnst mér þetta mun skemmtilegra en vikulega stundataflan sem maður er vanur frá því að maður var í grunnskóla.

Það sem kom mér mest á óvart var hversu bóklegt námið er. Það er þó alls ekki leiðinlegt. Við förum í þverfaglega tíma með hinum brautunum í deildinni og köfum ofan í hönnun, menningarfræði og heimsspeki og fáum grunn í sögu arkitektúrs, vöruhönnunar, fatahönnunar og grafískrar hönnunar. Það eru einnig gerðar miklar kröfur í ritgerðarskilum svo ekki halda að þið getið sloppið við það í listnámi. Við gerum að sjálfsögðu mun meira en að lesa greinar og skrifa ritgerðir. Í grafískri hönnun tökumst við á við fjölbreytt verkefni og lærum að tileinka okkur skapandi og gagnrýna hugsun. Við lærum um myndbyggingu, letur, upplýsingahönnun, plakat- og merkjagerð, bókbindingu, hönnun fyrir netmiðla og margt fleira.

Mitt helsta ráð til þeirra sem eru að íhuga að sækja um nám í Listaháskólanum er að byrja að safna saman efni í portfoliomöppuna sem fyrst. Ef ykkur finnst þið ekki vera með neitt til þess að sýna, setjist niður eitt kvöld, kíkið á kennslumyndbönd á youtube og finnið þá listgrein sem þið eruð góð í. Þið þurfið ekki endilega að hafa reynslu í grafískri hönnun þótt þið sækið um í því námi. Sýnið bara að þið séuð listunnendur, hafið gott auga og að þið hafið raunverulegan áhuga á faginu. Mín sterka hlið er ljósmyndun og því sýndi ég aðallega verk á því sviði. Ég lagði mikið upp úr því að hafa góðan texta með verkunum en það er ekki gerð bein krafa um það. Hinsvegar þarf maður að geta útskýrt verkin sín vel ef manni er boðið í viðtal. Þá er gott að sýna að verkin manns hafi tilgang. Hver er sagan á bak við þau? Hverju er verið að miðla með þeim?

Fyrir viðtalið er maður beðinn um að ljúka við tvö verkefni. Í fyrra áttum við að hanna plakat og teikna mynd samkvæmt ákveðnum fyrirmælum. Mitt ráð til ykkar er að leysa verkefnin á ykkar hátt, alveg eins og með öll önnur verkefni sem þið munuð fá í skólanum. Svo dæmi sé nefnt eru styrkleikar nemenda í bekknum mínum mjög fjölbreyttir: sumir eru góðir í að handteikna, sumir vinna allt í tölvu, sumir gera allt í þrívídd og aðrir vinna meira með ljósmyndir, eins og ég. Verið samt ekki hrædd við að prófa eitthvað nýtt.

Ekki brjóta ykkur niður ef þið komist ekki inn. Það eru fleiri tugir umsækjanda á hverju ári og aðeins um 20 manns teknir inn í hvert sinn (mismunandi eftir brautum). Í flestum tilvikum þarf að sækja um tvisvar til þrisvar. Í millitíðinni er algengt að sækja um fornám í Tækniskólanum eða Myndlistaskóla Reykjavíkur. Í því námi öðlist þið reynslu á sviði grafískrar hönnunar og gerið ótal mörg verkefni sem þið getið sett í portfólíómöppuna ykkar. Ekki skemmir fyrir að geta sagst hafa farið í undirbúningsnám. Það sýnir enn frekar að ykkur sé alvara með umsókninni. Ég vil einnig hvetja ykkur til þess að mæta á opna viðburði skólans. Þá geti þið skoðað vinnuaðstöðuna og nýleg verkefni nemenda og flett í gegnum gamlar portfoliomöppur.

Listaháskólinn hefur staðist allar mínar væntingar og gott betur. Ég er í frábærum bekk, með æðislega kennara og er að stunda nám sem mér finnst raunverulega skemmtilegt. Það er margt sem getur tekið við að loknu námi í grafískri hönnun. Hægt er að klára meistarann erlendis, byrja að vinna á auglýsingastofu, hönnunarstofu eða verða sjálfstæður verktaki. Sumir klára jafnvel námið og færa sig yfir í eitthvað allt annað. Sama hvort þið stefnið á að verða hönnuðir eða ekki býður Listaháskólinn upp á alhliða hönnunarnám sem getur nýst manni á mörgum sviðum. Ég vonast til þess að sjá ykkur á næsta ári.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: