Ég fór beint úr þriggja ára kerfinu í háskóla

Karitas M. Bjarkadóttir

Tölfræðin

Ég útskrifaðist úr Versló síðasta vor, í maí 2018. Við vorum fyrsti árgangurinn til að útskrifast úr þriggja ára kerfinu, og bekkurinn minn var sá fyrsti á Nýsköpunar- og listabraut. Þetta þýddi mikla tilraunastarfsemi alla okkar skólagöngu, stöðugt hrófl á áföngum, skipulagi og vinnulagi, en þetta gekk og við útskrifuðumst öll með tölu í rigningarstormi laugardaginn 26. maí. Við vorum 24 sem settum upp hvíta kollinn þennan dag, spennt að sjá hvað tæki við. Og það var margt og mismunandi. Margir fóru að ferðast, ein í lýðhásskóla, tvö í söngskóla í Danmörku, ein í Landbúnaðarháskólann, ein í biblíuskóla í Ástralíu, fjórar fóru í HR, ein í LHÍ og svo ég, sem fór í HÍ.

        Af tuttugu og fjórum, vorum við sjö sem fórum beint í framhaldssnám. Ef við nýtum okkur einfalda stærðfræði, þá var það 29% bekkjarins. Rétt ríflega. Það spilast að sjálfsögðu inn í þetta að margir litu til listnáms, sem er erfitt og tímafrekt að komast inn í, en þrátt fyrir það voru flestir á því máli að eins árs pása væri lágmark áður en haldið væri í frekara nám. Það væri gjörsamlega fáránlegt að ætla 19 ára (eða 18 ára í mínu tilfelli) í háskóla.

        Og ég var svo sem alveg á sama máli framan af. Ég var staðráðin í því að taka mér allavega árs pásu, ferðast eða vinna og bara – tjilla aðeins. En ég var búin að velja mér nám fyrir löngu síðan, ég hafði ætlað mér að læra íslensku síðan ég var 12 ára gömul, því það snerti öll mín áhugasvið. Svo það fór þannig að ég þurrkaði út hugmyndina um pásu, og ákvað að skella mér bara beint. Sem ég og gerði, og hóf nám við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í lok ágúst síðasta haust.

Er þetta ekki skrítið?

Þegar sú ákvörðun hafði verið tekin, og skólagjöldin borguð, var ekki hægt að snúa við. Eða, jú, svo sem alveg hægt, en ég var á þessum tímapunkti orðin mjög viss í minni sök um að háskólanám væri rökrétt áframhald fyrir mig, og það strax. Þó svo að það hafi verið svona svolítið leiðinlegt fyrst, þegar bekkjarfélagar mínir úr Versló héldu kannski spilakvöld klukkan 23 á miðvikudagskvöldi, og ég komst ekki því ég þurfti að mæta í skólann daginn eftir, þá vandist þetta fljótt. Íslenskudeildin er ekki stór, nýnemarnir hvert ár í kringum 30, svo það var auðvelt að kynnast fólki fljótt, og stofna til vinskapar við þá sem höfðu sömu áhugasvið og ég. Jú, vinnuálagið er vissulega öðruvísi en því sem ég vandist í símatskerfinu sem innleitt var í Versló þegar ég var á síðasta ári, og jú, það var svolítið furðulegt að vera bara í sex tímum á viku og þurfa svo að læra sjálf utan þess. En það vandist furðu fljótt.

        Mér hefur aldrei fundist ég minna undirbúin fyrir námið en þeir sem eru kannski 2-3 árum eldri en ég og höfðu verið í þessu hefðbundna prófa-fjögurra ára kerfi. Við vorum bara nokkrum veginn á sama stalli, þó það væri auðvitað mismunandi eftir því úr hvaða menntaskóla hver og einn var að koma, eins og ég geri ráð fyrir að hafi alltaf verið, óháð því hvort um er að ræða þriggja eða fjögurra ára kerfið. Ef eitthvað, var ég ennþá með hausinn pikkfastan í skólakerfinu og til í tuskið, og skólaleiðinn ekki alveg farinn að láta á sér kræla ennþá, eftir 12 ára skólagöngu í stað 14.

En er þetta ekki allt öðruvísi?

Þó svo að náminu séu hagað á frábrugðinn hátt frá menntaskólaárunum, og áherslan á einstaklingsvinnu kannski meiri, þá er þetta ekki stóra stökkið sem ég var að búast við. Að sjálfsögðu er ég í mikilli forréttindastöðu að geta búið heima hjá foreldrum mínum í bænum, og þurfa ekki að taka út þroskann sem fylgir því að flytja að heiman og búa ein á sama tíma og ég byrja í háskólanámi, en burtséð frá því held ég þetta séu ekki þessi straumhvörf í lífi fólks sem ég hef oft heyrt talað um.

        Félagslífið, jú, það er svolítið ólíkt því sem maður vandist í menntaskóla. Það eru ekki allir eins sjúklega örir í því og í Versló, sem auðvitað er sérstaklega ofvirkur þegar kemur að þessu. Það er auðveldara að sniðganga félagslífið, eða velja sinn þátt í því. Þetta snýst í rauninni bara um að skrá sig í nemendafélagið sitt, vera duglegur að mæta á viðburði ef mann langar til, og svo taka afstöðu (eða ekki) með stúdentapólitík einu sinni á ári. Kannski langar mann í kórinn, eða hinseginfélagið, eða stúdentapólitík, og þá gerir maður það bara. En það er alls enginn forsenda þess að eignast vini og taka þátt í háskólalífinu.

Þú ert svo ung! Hvernig bregst fólk við því?

Ég er vissulega yngri en margir, þetta er rétt. Stundum berst það í tal, og stundum verður fólk hissa. Það jafnar sig strax. Og gleymir því strax. Það eru allir þarna á sömu forsendunum, að læra það sem þau hafa (vonandi) áhuga á. Í stuttu máli, ekkert sem hefur áhrif. Thank u, next, sko.

Er ekki mikil skuldbinding að ákveða svona snemma hvað maður vill læra og gera?

Það getur kannski verið skuldbinding sem hræðir einhverja. En mér finnst allra mikilvægast að vera viss í sinni sök, þó svo að maður geti auðvitað alltaf skipt um skoðun. Að vera bara ekki að eyða tímanum sínum í eitthvað sem maður hefur engan áhuga á. Það er alltaf hægt að hætta við og skipta um námsleið.

Svo er líka hægt að blanda saman öllum fjandanum, taka stjórnmálafræði sem aðalgrein og svo jarðfræði sem aukagrein. Það fer allt eftir því hvert nefbroddurinn á manni snýr. Flestar námsleiðir bjóða líka upp á fjölbreytt framhaldsnám, þó svo að þú veljir lögfræði 18 ára og klárir það nám, þá þýðir það ekki endilega að þú þurfir að vinna við það eða læra það alla ævi. Og það sama gildir um íslenskuna. Það er algengur misskilningur að ég sé dæmd til að verða kennari. Ég get í rauninni gert svo margt við þessa BA-gráðu, að mig svimar við tilhugsunina. Allar brautir opna fjölbreyttar gáttir til framhaldsnáms eða frama. Það má ekki hugsa um námsval sem ævilangan dóm.

Að lokum

Hvort sem maður ákveður að taka sér frí, prófa eitthvað nýtt eða skella sér loksins í draumanámið, þá er enginn ákvörðun réttari en önnur. Hver og einn finnur þetta hjá sjálfum sér. Og ef þú veist ekkert hvað þig langar að gera, er ekkert mál að tala við námsráðgjafa í háskólunum og fá að taka áhugasviðspróf, þau geta oft komið mjög á óvart. Og svo er það náttúrulega Háskóladagurinn 2. mars, þar sem er hægt að kynna sér framboð hvers og eins skóla. En umfram allt, að fylgja eigin sannfæringu og gera það sem manni finnst fýsilegast. Maður er sífellt að koma sjálfum sér á óvart.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: