Karlmennska, kvenska, hinseginmálefni, klámið og ofbeldið

Karitas M. Bjarkadóttir

Karitas M. Bjarkadóttir tekur saman

Kynjafræðikennsla er ekki all-ný af nálinni í íslensku menntakerfi, en hefur tvímælalaust fengið mun meiri athygli síðustu ár en áður. Hver Framhaldsskólinn af öðrum hefur tekið upp kennslu á kynjafræði í einhverri birtingarmynd, sumir hafa meira að segja gert fagið að skyldufagi. Framhaldsskólablaðið varð forvitið um það hvar fagið er kennt, hvernig það er að læra það, hverjir kenna það, og afhverju þau kenna það. Við sendum út spurningalista á kennara og nemendur um landið og fengum eftirfarandi svör.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðikennari í Borgarholtsskóla

Hvenær hófst kynjafræðikennsla í þínum skóla?

Kynjafræði var fyrst kennd árið 2007, þá fyrst framhaldsskóla á Íslandi.

Er fagið skyldufag eða valfag?

Kynjafræði er skyldufag á bóknámsbrautum frá því 2017 og til stendur að innleiða fagið sem skyldu á aðrar brautir skólans.

 Hvað kenniru um það bil mörgum nemendum kynjafræði á ári? Hvernig eru viðtökurnar?

Frá fyrstu tíð hefur fagið fengið hvatningu frá nemendum og vakið ánægju. Ég hef ekki tölu á nemendum sem hafa sagt að þetta ætti að vera skyldufag, og ætti líka að kenna á grunnskólastigi. Sem sagt – nemendur hafa skrifað greinar, gert kannanir sem miða að því að auka veg og virðingu fagsins. Ég leyfi mér að segja að það sé einsdæmi í menntakerfinu. Að nemendur taki svo virkan þátt í því að auka kennslu í tilteknu fagi. Áður en kynjafræðin varð skylda í Borgarholtsskóla fékk ég bara að kenna hann aðra hvora önn og hann var alltaf fullur og biðlisti að komast inn. Núna er uþb 80 nemendur á öll (3 hópar allir fullir).

Á hvað leggur þú helst áherslu á? (heilbrigð samskipti, klámvæðingu osfrv)

Yfirmarkmið áfangans er og hefur alltaf verið að auka kynjanæmi nemenda. Að þeir öðlist hæfni til að bera kennsl á misskiptingu valds og virðingar kynjanna í samfélaginu – og vilja til að hafa jákvæð áhrif á stöðuna – nemendur eru hvattir til að taka afstöðu með réttlæti, sanngirni og lýðræðinu. Annað stórt markmið námsins er valdefling nemenda, að þau skilji vald sitt og þurfi að taka afstöðu með sjálfum sér – að þau verði sterkt fólk sem hefur jákvæð áhrif á lif sitt og annara. Ef ég tek svo einstaka efnisþætti þá eru samskipti rauður þráður í náminu og kortlagning á þeim – kynjuðum samskiptum. Karlmennska, kvenska, hinseginmálefni, klámið og ofbeldið eru svo í aðalhlutverkum líka. Þar með ekki ekki allt upptalið.

Afhverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg?

Úff hvar á ég að byrja! Í suttu máli þá veit ég að þetta nám hefur jákvæð áhrif á nemendur, sjálfsmynd þeirra, sjálfsþekkingu þeirra og sjálfsvirðingu þeirra. Námið færir þeim þekkingu til að skilja áhrif samfélagsins á framantalda þætti og þar með hæfni til að vernda sig gegn skaðlegri menningu. Í klámvæddri menningu eru mikilvægt að nemendur fái fræðslu um heilbrigð samskipti í kynferðismálum – og sett í víðara samhengi. Skilningur á því hvernig kynjakerfið virkar er forsenda þess að við getum brugðist við og bætt samfélagið okkar.

Fræðsla er lykillinn að því að við náum jafnrétti – menntakerfið ber ábyrgð (landslög og námskrár) á að árangur náist í jafnréttismálum. Við þurfum meira en einn áfanga – við þurfið að innleiða jafnrétti inní allar skólastofur allstaðar.

Halldóra Ósk Hallgrímsdóttir, kynjafræðikennari í Verzlunarskólanum

Hvenær hófst kynjafræðikennsla í þínum skóla?

Ég byrjaði að kenna kynjafræði veturinn 2010-2011 sem valfag í 5. bekk (á 3. ári) og var það í fyrsta sinn sem kynjafræði var kennd í Verzlunarskólanum.

Er fagið skyldufag eða valfag?

Kynjafræði er valfag og hefur verið það frá upphafi.

Hvað kenniru um það bil mörgum nemendum kynjafræði á ári? Hvernig eru viðtökurnar? (ef fagið er valfag)

Fagið hefur þróast frá því að vera lítill 14-16 nemendahópur í tvo heila bekki á önn. Núna í vetur eru nemendur u.þ.b. 60 á önn eða 120 á ári. Þannig að viðtökurnar eru mjög góðar og aðsókn eykst á hverju ári.

Á hvað leggur þú helst áherslu á? (heilbrigð samskipti, klámvæðingu osfrv)

Þegar stórt er spurt… ég legg áherslu á marga ólíka hluti. Í upphafi förum við yfir grunnhugtök og reynum að átta okkur á ólíkri birtingarmynd kynjanna í samfélaginu og í fjölmiðlum, síðan förum við yfir sögu kvennabaráttunar, karlmennsku, klámvæðingu, kynbundið ofbeldi og endum á hinsegin. Þetta er skipulagið í grófum dráttum. En þar fyrir utan legg ég áherslu á umræðu og reyni að grípa tækifærið og blanda því sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni.

Af hverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg?

Kynjafræðikennsla er góð leið til að opna augu nemenda fyrir samfélaginu í kringum þau og gefa þeim einhver verkfæri til að spyrna á móti. Stelpur þurfa að átta sig á að þær hafa sama rétt og strákarnir til að taka pláss og setja mörk og strákarnir þurfa að átta sig á að samfélagið setur á þá pressu á svipaðan hátt og stelpurnar og hugmyndir samfélagsins um kvenleika og karlmennsku hafa heftandi áhrif á alla. Ég held að það sé hollt fyrir alla nemendur að læra að líta samfélagið sem þeir búa í gagnrýnum augum og kynjafræðin er mjög góð leið til þess.

Karen Ástudóttir Kristjánsdóttir, kynjafræðikennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Hvenær hófst kynjafræðikennsla í þínum skóla?

Kynjafræðikennslan hófst 2013 í MH eftir því sem best ég veit en sjálf byrjaði ég að kenna við skólann haustið 2017. Þá sérstaklega ráðin inn sem kynjafræðikennari. Ég er með BA í stjórnmálafræði, MA í kynjafræði, auk kennsluréttinda.

Er fagið skyldufag eða valfag?

Fagið er valfag en samkvæmt samkennurum mínum hefur það verið kennt svo gott sem á hverri önn frá byrjun. Ég finn fyrir miklum áhuga á faginu meðal nemenda og hóparnir sem ég hef verið með hafa verið afskaplega metnaðarfullir og áhugasamir.

Hvað kenniru um það bil mörgum nemendum kynjafræði á ári? Hvernig eru viðtökurnar? (ef fagið er valfag)

Ég hef verið með 30 til 60 nemendur á önn hingað til.

Á hvað leggur þú helst áherslu á? (heilbrigð samskipti, klámvæðingu osfrv)

Mín femíníska skólastofa er gróskufull og þar er snert á gríðarlega mikilvægum málefnum og sem meira er, við lærum mikið af hvert öðru. Það er svo frábært að kenna fag þar sem kennarinn fær svona mikið tækifæri að læra af reynsluheimi nemenda sinna!

Af hverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg?

Mér finnst ég stækka og vaxa sem kynjafræðingur (og manneskja) við það að kenna fagið og skapa þennan samræðugrundvöll með nemendum mínum í skólastofunni. Markmið mitt er þó ætíð að veita nemendum verkfæri til valdeflingar og vitundarvakningar, gefa þeim kost á að dýpka gagnrýna hugsun og auka næmni þeirra fyrir sjónarhornum jaðar- og minnihlutahópa. Besta vinna í heimi.

Bjarnveig Björk Birkisdóttir, fyrrum kynjafræðinemi við Menntaskólann að Laugarvatni

Er kynjafræði skyldufag eða valfag í þínum skóla?

Kynjafræði er skyldufag á fyrsta ári í Menntaskólanum að Laugarvatni.

Ef það er valfag, afhverju valdirðu það?

Hvað finnst þér mikilvægast að læra? (Um heilbrigð samskipti og sambönd, klámvæðingu osfrv)

Allur áfanginn innihélt gríðarlega gott veganesti fyrir alla nemendurna. Það sem stóð upp úr var klárlega hvernig heilbrigð samskipti eiga að vera á milli kynjanna, virðingin sem maður á að bera fyrir hinum aðilanum og hvernig maður á að geta tekið á samskiptum kynjanna í daglegu lífi með gagnrýnni og heilbrigðri hugsun.

 Hvernig taka/tóku samnemendur þínir í kynjafræðikennsluna?

Langflestum fannst áfanginn skemmtilegur og fjölbreyttur miðað við aðra áfanga og allir voru frekar jákvæðir gagnvart kynjafræðinni og kennslunni þar.

Afhverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg/ómikilvæg?

Mér finnst mikilvægt að ungmenni sem eru að stíga sín fyrstu skref í lífinu fái að kynnast kynjafræði. Ég lærði mikið af námsefninu og sýn mín á mörgum þáttum í samfélaginu hefur breyst eftir kynjafræðikennlsuna, til hins betra. Einnig finnst mér afar gott að áfanginn sé kenndur sem skylduáfangi í ML vegna þess að þeir sem velja hann ekki sem valáfanga eru kannski þeir sem þurfa mest á þessari fræðslu að halda. Samskiptin á milli okkar bekkjarsystkinanna voru alltaf mjög góð og tel ég að kynjafræðin eigi sinn hlut í því.

Guðrún Brynjólfsdóttir, fyrrum kynjafræðinemi við Verkmenntaskólann á Akureyri

Er  kynjafræði skyldufag eða valfag í þínum skóla?

Þegar ég tók áfangann í VMA var kynjafræði ekki skyldufag á minni braut (Listnámsbraut, myndlistarkjörsvið) ég útskrifaðist í maí 2018 og veit ekki til þess að það hafi breyst síðan þá.

Ef það er valfag, afhverju valdirðu það?

Ég valdi kynjafræði vegna þess að ég tel mig mjög femíníska og finnst saga femínisma og jafnréttindabaráttu almennt mjög áhugaverð og eitthvað sem allir ættu að kynnast.

Hvað finnst þér mikilvægast að læra? (Um heilbrigð samskipti og sambönd, klámvæðingu osfrv)

Það er ekkert eitt sem mér finnst mikilvægara en annað, mér fannst hinsvegar skemmtilegast/áhugaverðast að fræðast um skaðlega karlmennsku og hvernig feðraveldi getur haft slæm áhrif á karla. Það er líka ótrúlega mikilvægt að kynjafræði snerti á umræðu um að ekki allir falli innan kynjatvíhyggjunnar sem við búum við og réttindabaráttu trans einstaklinga.

Hvernig taka/tóku samnemendur þínir í kynjafræðikennsluna?

Mér fannst flestir taka vel í hana. Held að allir hafi gott af því að taka að minnsta kosti einn svona áfanga.

Afhverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg/ómikilvæg?

Áfangar sem þessi víkka sjónarhorn okkar á hinum ýmsu málefnum, með því verðum við minna og minna fordómafull. Mér finnst líka mjög mikilvægt að fólk þekki hugtök sem tengjast kynjafræði til að geta tekið þátt í umræðum á uppbyggilegan hátt.

Selma Dís Hauksdóttir, fyrrum kynjafræðinemi við Fjölbrautarskóla Vesturlands Akranesi

Er  kynjafræði skyldufag eða valfag í þínum skóla?

Kynjafræði er valfag í FVA

Ef það er valfag, afhverju valdirðu það?

Ég valdi hana því mér fannst hún áhugaverð og margir sem ég þekkti höfðu mælt með áfanganum.

Hvað finnst þér mikilvægast að læra? (Um heilbrigð samskipti og sambönd, klámvæðingu osfrv)

Mér fannst mjög mikilvægt að læra um klámvæðingu, heimilisofbeldi og hvert væri hægt að snúa sér ef maðir lendir í þessum aðstæðum. Mér fannst sérstaklega áhugavert að komast að því að fyrir 2011, þegar austurríska leiðin var tekin í gildi hér á landi, þar sem ofbeldismaðurinn er fjarlægður af heimilinu, að þá varð fórnalambið fjarlægt af heimilinu en varð svo að horfast í augu við ofbeldismanninn ef sækja þurfti föt eða aðrar nauðsynjar.

Hvernig taka/tóku samnemendur þínir í kynjafræðikennsluna?

Kynjafræði var mjög vinsæll áfangi þegar ég var í framhaldsskóla og stundum voru tveir kynjafræðihópar á önn með ca 25 manns, sem er ansi gott miðað við 370 manna dagskóla. Flestir voru virkir í tímum og umræðurnar um efnið urðu oft miklar, óháð kyni. Auk þess voru mikil vonbrigði þegar það átti að leggja kynjafræðina niður, en það gleymdist að taka hana út þegar valið fór fram fyrir vorönn 2017 og þar sem skráningin var svo mikil var ekki hægt að hætta við að kenna hana.
     Afhverju finnst þér kynjafræðikennsla mikilvæg/ómikilvæg?

Mér finnst kynjafræðsla mikilvæg því við þurfum að átta okkur á stöðu kynjanna innan samfélagsins, því það er eina leiðin til að breyta því. Það hagnast allir á því að taka kynjafræði, því maður sér heiminn í nýju ljósi. Þetta snýst ekki um að hafa annað kynið æðra en hitt, heldur að allir séu jafnir óháð kyni, en það eru ennþá atriði sem hindra það hjá öllum kynjum.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: