Innsendur pistill: Stjórnmálavöldin

Ritstjórn

Silja Snædal Drífudóttir skrifar

2018 var ekki ár perrans. Það var ár þeirra hugrökku kvenna sem þorðu að segja frá perraskap. Sem betur fer hafa þær haldið því áfram inn í nýja árið. Undanfarið hafa stjórnmálamenn verið einkum áberandi í þeirri umræðu. Hið margumrædda Klaustursmál, Ágúst Ólafur Ágústsson og nú síðast Jón Baldvin Hannibalsson. Mál Jóns Baldvins finnst mér hvað áhugaverðast þar sem það er langt í frá nýtt. Konur hafa verið að segja frá áreiti af hans hálfu í mörg ár og árið 2012 steig Guðrún Harðardóttir fram og lýsti, í ítarlegu viðtali við Nýtt Líf, kynferðislegum bréfum og meira áreiti frá Jóni Baldvini. Sér til stuðnings hafði Guðrún téð bréf sem hún hafði geymt. Jón Baldvin gat ekki logið sig út úr þessum ásökunum. Samt sem áður virtist það ekki miklu máli skipta. Jú, hann fékk vissulega ekki að kenna áfanga upp í Háskóla Íslands eða skipa sæti á lista Samfylkingarinnar en valdasjúkir menn deyja ekki ráðalausir. Að sjálfsögðu tókst honum alltaf að finna einhvern áhugasaman um að birta skoðanir hans og reynslu. Þetta með bréfin og konurnar, það var nú bara allt saman misskilningur og Jón Baldvin er jú svo mikilvægur samfélagsgagnrýnandi og auðvitað fyrrverandi utanríkisráðherra! Að sjálfsögðu er ekki hægt að sniðganga þennan mann.

Ég hef sjálf tekið þátt í stjórnmálum á Íslandi og lært pólitík í dönskum lýðháskóla. Ég hef mikið velt fyrir mér áreiti innan stjórnmála og mun þar á milli Íslands og annarra landa. Kynferðislegt áreiti snýst fyrst og fremst um völd og valdbeitingu. Völdin eru í stjórnmálum. Þessi mál sem hafa komið upp í kjölfar metoo koma því mjög lítið á óvart. Auðvitað er mikið af valdasjúkum einstaklingum í stjórnmálum og auðvitað áreita þeir.

Það er merkilegt að fara frá Íslandi og fá annað sjónarhorn á menninguna. Þetta er nefnilega alveg einstök menning sem við eigum hérna. Margt sem getur ekki annað en talist virkilega gott en einnig gríðarlega slæmir hlutir. Hvernig við þekkjumst öll og erum oft svo náin að við leyfum hvort öðru að komast upp með fáránlegustu hluti. Hvað allt er nátengt og snertir innstu hjartarætur. Þetta kristallast svo í stjórnmálunum okkar. En tímarnir breytast og menningin verður að gera það líka. Við verðum að hætta að taka þátt í þessari helvítis meðvirkni. Við verðum að hætta að styðja perranna og byrja að styðja konurnar sem segja frá þeim.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: