Innsendur pistill: Gleðilega sjálfsuppgötvun

Ritstjórn

Mars skrifar

Halló. Við erum hér komin saman af því það eru 78 hommar á Íslandi. Eða voru það 78 kyn? Uuuuuu, nei, kæru börn. Það er af því að árið 1978, þegar það var bannað að segja orðin hommi & lesbía í útvarpinu þá voru stofnuð samtök. Samtök byltingarmanna og kvenna sem áttu það eitt sameiginlegt að, vera það sem við köllum í dag, hinsegin.

Ég heiti Mars og ég er hinseginfræðari fyrir Samtökin ’78. Það þýðir að í frítíma mínum ferðast ég ásamt fríðu (og regnbogalitu) föruneyti um skóla landsins að fræða ungmenni um hinseginmálefni líðandi stundar. Í fræðslunni segjum við þeim frá því hver munurinn er á kynvitund, kynhneigð og kyneinkennum. Kennum þeim nokkur góðkunn hugtök og brjótum þær örfáu staðalímyndir sem enn eru á lofti um hinsegin fólk í dag. Við reynum þó fyrst og fremst að ala á því að nálgast annað fólk, og fyrst og fremst okkur sjálf, með opnum hug. Þannig getum við gert samfélagið þægilegra fyrir okkur öll.

Margt hefur breyst frá því fyrir 40 árum þegar samtökin litu fyrst dagsins ljós. Núna samanstendur hinseginsamfélagið af fjöldamörgum hópum fólks sem skilgreina sig á allskonar vegu. Fyrir 40 árum voru það bara hommar og lesbíur. Á þeim tíma urðu þau fyrir miklum fordómum fyrir það eitt að vera þau sjálf. Ástandið var svo á köflum (eins og þegar HIV-faraldur stóð sem hæst á 10. áratug seinustu aldar) að margir hröktust úr landi. Fordómarnir leiddu til þess að Samtökin byrjuðu að veita fræðslu fyrir fólk á ýmsum sviðum þjóðfélagsins en samt aðallega fyrir ungt fólk. Hún hefur svo haldið áfram alla tíð síðan með ýmsu móti. Núna er hún þó talin svo mikilvægur partur af menntun ungra barna að hún er komin inn í mannréttindastefnu sumra sveitafélaganna (looking at you Reykjavík). Þá stendur í aðalnámsskrá að einn af grunnþáttum menntunar sé jafnrétti en undir það fellur einmitt kyn og kynhneigð.

Þrátt fyrir þessar umbreytingar í þjóðfélaginu hefur skólakerfið ekki beint staðið sig vel á þessu sviði. (Það er nú svosem ekki einsdæmi, umræðan um dræma kynfræðslu víðsvegar hefur nú verið uppá borðum lengi en það er efni í annan pistil.) Einstaka kennarar sinna hinsegin fræðslu mjög vel en það er tilviljunum háð hvar þeir leynast í skólakerfinu. Þá er lítið sem ekkert eftirlit með því hverjir hljóta fræslu og ekki. Lítið fræðsluefni hefur verið framleitt til þess að kippa því í liðin þá erum við, unga kynslóðin af athyglissjúku hinseginfólki, fengin til þess að mæta í skólana og segja frá okkar upplifunum. Þar sem við erum jafningjar krakkana er hugmyndin líka að við náum betur til þeirra.

Krakkar í dag eru upp til hópa ekki fordómafullir. Ef þau virðast vera það, vegna úreltrar orðræðu eða annarra hluta, þá er það yfirleitt af því þau vita ekki betur. Þess vegna er fræðslan svo mikilvægt tækifæri til þess að leyfa þeim að spyrja að hverju sem er án þess að þau séu dæmd. Nokkur góð dæmi:

    • Þegar þú ert í sundi, ertu þá í sundskýlu eða sundbol?
    • Hvernig á maður að koma út fyrir foreldrum sínum?
    • Á hvaða klósett fer kynsegin fólk?
    • iPhone eða Samsung?

Einhverja hluta vegna virðist símagerðin þín skipta miklu máli þegar það kemur að því að mynda djúpa tengingu við fólk í unglingadeildum grunnskólans. Spurningin sem kemur þó oft upp og vill valda nokkrum vangaveltum er þessi: Af hverju viljið þið heita hinsegin en ekki bara venjuleg?

Spurning sem ég hef aldrei heyrt frá neinum yfir 20 ára.

Það hefur nefnilega myndast ákveðin gjá á milli okkar kynslóðar og þeirra eldri hvað þessi efni varðar. Við erum alin upp í því að samkynhneigð sé venjuleg og að kynhneigð sé fljótandi. Við erum alin upp við það að trans-fólk sé sýnilegt og opinbert í mannlífinu. Við erum alin upp við það að horfa á “coming out” vídjó á YouTube. Þess vegna finnst okkur ekkert mál að teygja hugann aðeins lengra, ímynda okkur eitthvað meira. Enda er hann teygjanlegur hjá okkur á meðan hugur foreldra okkar eru ekki ein teygjanlegur. Kannski voru þau í huglægu limbó fyrirfram yfir því að konur gætu gifst hverri annarri. Hver veit. Þessvegna legg ég til að við gerumst öll mini-hinseginfræðarar og fræðum hvert annað um það sem við lesum og lærum. Líka foreldra okkar og kennara og fullorðið fólk. Þau eiga alveg eins skilið að sjá regnbogann.

Í lokin vil ég benda á að ef þú ert að íhuga þinn hinseginleika og vantar einhvern til að tala við þá eru ráðgjafar starfandi hjá Samtökunum ’78 sem hægt er að panta tíma hjá m.a. Á heimasíðu Samtakanna, samtokin78.is. Svo er vefsíðan Hinsegin frá Ö til A (otila.is) uppfull af hugtökum, reynslusögum og útskýringum á hinsegindóti, allt á Íslensku. Gleðilega sjálfsuppgötvun.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: