Innsendur pistill: Almenningssamgöngur eru jafnréttismál

Ritstjórn

Ragna Sigurðardóttir skrifar

Ég sting mér í föðurlandið, fötin og ullarsokkana. Klæði mig í stígvélin og kippi með mér hálfvolgu kaffi í ferðamáli. Reyni að taka nokkuð stóra sopa úr milli hraðra skrefa í átt að strætóstoppistöðinni sem er svona 300 metrum frá heimili mínu í vesturjaðar Reykjavíkur. Í strætó númer 13 er alls konar fólk. Ungt fólk, gamalt fólk, fjölskyldufólk, einstæðingar, útlendingar, vinnandi fólk og nemendur. Ég fletti í gegnum símann á meðan ég fylgist með fólki stíga í og úr strætisvagninum. Við keyrum framhjá MH og vagninn nánast tæmist. Nokkrir til viðbótar fara út við Versló og nokkur okkar hoppa út við gamla Borgarspítalann í Fossvoginum þar sem við ýmist störfum eða stundum nám.

Hvers vegna strætó?

Í nýrri skýrslu samtakanna Intergovrnmental Panel on Climate Change eða IPCC kemur fram að verulegar líkur á því að 1,5°C aukning á hitastigi á heimsvísu komi til með að hafa neikvæðar afleiðingar á heilsu okkar og ekki síst þeirra einstaklinga sem eiga heima á heitari svæðum á hnettinum. Miklar líkur eru á því að með hlýnun um 2°C verði afleiðingarnar á heilsu enn meiri og eru þar nefndar sérstaklega afleiðingar smitsjúkdóma sem þekkjast helst á hlýrri svæðum heimsins en á litla Íslandi. Þá er auðvitað líka hægt að benda á þær áþreifanlegu afleiðingar sem mengun; koltvísýringslosun og annar útblástur, hefur á heilsu okkar hér heima, sérstaklega hér í borginni. Einstaklingar sem búa við skerta heilsu, til dæmis einstaklingar með astma og aðra öndunarfærasjúkdóma, finna sérstaklega mikið fyrir þessu.

Í því samhengi og í samhengi hnattrænnar hlýnunar er ekki nóg að keyra aðeins minna á bensínbílnum eða stöðva aðeins sjaldnar á umferðarljósum. Til þess að minnka útblástur koltvísýrings og afstýra óhóflegri hlýnun jarðar þarf byltingu í ferðamáta, framleiðsluaðferðum og neysluvenjum okkar. Stjórnvöld og við öll sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðunum verðum a standa okkar plikt gagnvart þeim sem búa í nálægð við okkur sem og þeim sem búa í fjarlægum löndum.

Hvað með kostnaðinn?

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda nemur rekstur einkabíls með öllum tilheyrandi gjöldum, svo sem af tryggingum, bensíni, bílastæðum, og viðgerðum, um það bil eina milljón króna á ári. Kostnaðurinn við það að halda uppi bíl er því mikill og einn stærsti útgjaldaliður okkar. Það að nemakort í strætó sem kosta nærri því tuttugu sinnum minna en það að reka bíl er því gríðarlega mikilvægt.

Almenningssamgöngur sem jafnréttismál

Hagkvæmar samgöngur til og frá skóla eru nefnilega jafnréttismál. Sömuleiðis er það það að ódýrari kostur standi einstaklingum og fjölskyldum til boða en einkabíllinn. Þá eru ótaldar þau áhrif á heilsu sem mengun og hnattræn hlýnun hefur bæði á okkur hér á Íslandi og íbúa annarra landa. Oft eru þau áhrif hvað mest á þau sem minnst eiga á milli handanna.

Af þessum ástæðum þurfum við að leggja kapp á að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auka notkun almenningssamgangna og umhverfisvæns ferðamáta. Þrýstum á stjórnvöld að bæta almenningssamgöngur. Þrýstum á Borgarlínu. Verum leiðtogar í okkar eigin umhverfi og notum almenningssamgöngur. Það er ekkert sem segir að ungt fólk geti ekki haft áhrif í þessum málaflokki sem og öðrum – slíkt hefur nú áður gerst.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: