GRÓA: Úr bílskúrnum á Bravó

Karitas M. Bjarkadóttir

Karitas M. Bjarkadóttir skrifar

Hljómsveitin GRÓA hefur slegið rækilega í gegn undanfarið og tröllriðið íslensku grasrótartónlistarsenunni. Það sem byrjaði sem tómstundarútrás í bílskúr í Vesturbænum er nú orðið að gífurvinsælli verðlaunahljómsveit sem spilar fyrir fullum sal dansþyrstra áheyranda. Framhaldsskólablaðið fékk tækifæri til að setjast niður með þeim Fríðu Björgu Pétursdóttur bassaleikara (17 ára), Hrafnhildi Einarsdóttur trommara (17 ára) og Karólínu Einarsdóttur söngvara, gítar- og hljómborðsleikara (16 ára). Allar þrjár stunda nám við Menntaskólann við Hamrahlíð, en hafa þekkst frá blautu barnsbeini.

Afhverju GRÓA?

„Nafnið er skemmtilegt, sko. Við vorum ótrúlega lengi að finna nafn.“

„Við þurftum að finna nafn fyrir Músíktilraunir og vorum svolítið bara að drífa okkur.“

„Við höfðum þess vegna ekkert svo langan tíma til þess að finna nafnið. Ég [Karólína] og Hrafnhildur erum systur, svo við ákváðum bara að fyrsti sameiginlegi forfaðir okkar tveggja með Fríðu, yrði nafnið á hljómsveitinni.“

„Svo við fórum inn á Íslendingabók og þá komu upp hjónin Gróa og Einar, og okkur fannst Gróa hljóma aðeins betur en Einar.“

Ykkur fannst hljómsveitarnafnið „Einar“ ekki eins grípandi?

„Nei… Við prófuðum líka nafnið „Greinar“, svona blandað saman, en það var eiginlega bara skrítið.“

„Já, það var eiginlega bara ógeðslega lélegt.“

„Núna hefði ég samt reyndar kannski valið Einar.“

Þannig að þið urðuð til, hvað, í kringum Músíktilraunir fyrir tveimur, þremur árum?

„Nei…“

„Við urðum til þá, svona í kringum þann tíma ákváðum við að vera í hljómsveit, og svo bara ákváðum við að taka þátt í Músíktilraunum stuttu seinna. En við stofnuðum hljómsveitina ekki með Músíktilraunir í huga.“

„Við vorum bara eitthvað að leika okkur-“

„- og þetta var bara svona það sem var næst, það sem við hefðum getað tekið þátt í, einhvern veginn.“

„Og þetta var svona það sem fékk okkur mest til þess að gera eitthvað, semja fyrsta lagið okkar, finna nafn á hljómsveitinni og koma okkur áfram.“

„Ótrúlega mikið samt bara að hoppa beint í djúpu laugina. Ég meina, við erum þarna komnar á sviðið í Hörpunni og höfðum aldrei komið fram og enginn vissi til dæmis að Karó væri að syngja.“

„Já, það vissi enginn af þessu. Að við værum í hljómsveit. Það þekktu okkur bara allir sem vinkonur og svo vorum við allt í einu bara uppi í sviði einhvers staðar.“

„Svo var ein vinkona mín [Hrafnhildar] sem var eitthvað að hlusta á það hverjir væru að taka þátt í Músíktilraunum, og heyrði allt í einu nöfnin okkar, og skildi ekki neitt í neinu.“

„En hljómsveitin varð svona til í kringum þann tíma, aðeins fyrr samt, við vorum búnar að vera svolítið lengi bara að leika okkur að spila saman.“

„Án þess samt að segja að við værum í hljómsveit. En GRÓA varð til þarna, fyrir tveimur árum.“

„En svo byrjum við að semja. Því fyrst vorum við ekkert að spila saman til þess að semja, bara til þess að fá smá útrás og spila með öðrum. Gera eitthvað eftir skóla.“

Hafiði haldið ykkar upprunalegu mynd frá stofnun?

„Við erum á alveg sömu hljóðfærum en við höfum samt rosa mikið þróast og breyst.“

„Sérstaklega bara síðasta árið!“

„Svo erum við líka að byrja í hljómsveitinni á þessum aldri þar sem erum að breytast svo ótrúlega mikið og hratt. Og ég held líka að hljómasveitin bara breytist mjög mikið með því.“

„Og líka bara eftir því sem við kynnumst fleira tónlistarfólki og hlustum á fjölbreyttari tónlist, það hefur áhrif. En ég myndi líka segja að tónlistin okkar og stefnan sem við erum að taka, hún er búin að breytast mjög hratt, finnst mér.“

„Já, algjörlega.“

„Við erum að fara í allt aðra átt en fyrstu lögin okkar. Það sem við erum að gera núna er svo allt öðruvísi en þegar við vorum að byrja.“

„En við höldumst samt alltaf í sama forminu.“

„Við höfum samt núna verið að vinna meira með það að hafa bara bassa, trommur og söng, og prófa eitthvað nýtt á hljómborðið. Bara allskonar. Af því fyrst vorum við rosalega mikið bara með gítar og söng.“

„Við höfum líka allar verið í námi í tónlistarskóla og æft píanó lengi, en höfðum ekki spilað á þau hljóðfæri sem við spilum á í hljómsveitinni þegar við stofnuðum hana. Svo breyttist það og við fengum meiri áhuga á að verða betri á þau hljóðfæri sem við spilum á, og fórum að æfa á þau.“

Hvað finnst ykkur skemmtilegst við að búa til tónlist og geta flutt hana?

„Ég [Karó] fæ einhverja svona sérstaka tilfinningu þegar ég spila. Þetta er bara það langskemmtilegasta sem ég geri.“

„Þetta er svo gaman!“

„Svo ótrúlega gaman!“

„Og líka sérstaklega af því þetta kemur í svona köflum, við erum kannski alveg mjög mikið að reyna að semja og ótrúlega mikið að pæla, einhvern veginn. Þetta er ótrúlega mikil útrás og frelsi að fá að spila bara, og enginn fær að segja neitt um það. Við fáum bara að gera það sem við viljum.“

„Já, stundum langar okkur kannski að semja nýtt lag sem á að vera einhvern veginn, með þessu og hinu í, og vera kannski ótrúlega lengi að leggja ótrúlega mikla vinnu í lagið, og vera svo sáttar með útkomuna.“

„Og geta spilað það og vera ánægðar með það, án þess að fá ógeð af því.“

„Þó það hafi alveg líka komið fyrir að allt í einu finnist manni smá óþægilegt að spila það, það er mismunandi eftir aðstæðum samt. Þótt þetta sé ótrúlega næs þá getur þetta líka verið mjög stressandi.“

„Mér finnst það hafa minnkað samt mjög mikið núna. Að koma fram.“

„Við eigum alveg mismunandi erfið gigg, stundum er maður mjög niðurdreginn eftir á og hugsar bara; Stelpur hvað var þetta? Eigum við að breyta einhverju? Fá nýjan meðlim, eða eitthvað?“

„Það voru til dæmis mjög óþægilegir tónleikar þegar við vorum einhvern tímann að spila og Hrafnhildur gleymdi snerilnum sínum, og hún þurfti að keyra heim og sækja hann.“

„Og á meðan var bara fullur salur af fólki.“

„Þetta var í Airwaves vikunni, fyrst. Og við Fríða vildum ekki að allir myndu fara, svo við vorum með svona mini-uppistand á ensku.“

„Alveg í svona, hálftíma eða tuttugu mínútur, þar sem við vorum bara að segja sögur og skapa umræður. Hver og einn átti að segja frá hvaða landi þeir kæmu, frekar fyndið bara.“

„En það gekk alveg ótrúlega vel samt, góð redding bara.“

„Það er líka alveg gaman, ekki það að það sé gaman að eiga leiðinleg gigg, en það er ótrúlega gaman ná svo aftur að spila vel.“

„Við höfum líka svo mikla og góða stjórn á þessu, það er svo margt sem er hægt að laga, og þægilegt að geta haft eitthvað til að einbeita sér að því að laga og gera betur. Eftir tónleika er maður alltaf með einhverja nýja punkta.“

„Við getum alltaf gert eitthvað öðruvísi, það er enginn sem er að stjórna því sem við erum að gera, þó við myndum bara allt í einu gera eitthvað allt annað, hafa bara söng eða eitthvað, þá getum við það bara. Mér fannst alveg ótrúlega mikill léttir að allt í einu fatta eftir smá tíma að við ráðum okkur sjálfar.“

„Við megum bara gera þetta nákvæmlega eins og við viljum.“

Skiptist þið á að semja, hvernig gengur ferlið fyrir sig?

„Lögin semjum við alveg rosalega mikið saman. Við tölum alltaf saman fyrst, því við vinnum svo mikið saman og það eru engin hlutverk fyrir hvern og einn. Við ræðum um það hvernig okkur líður, hvernig lag við getum samið á hverjum og einum tímapunkti í okkar persónulega lífi. Hvernig vibe viljum við?“

„Svo erum við líka svo mikið í sama umhverfinu, að okkur líður oft mjög svipað.“

„Við tölum, eins og þú sagðir, mikið um það hvaða fíling við viljum hafa í laginu. Við erum oft með einhvern smá texta tengdan því hvernig okkur hefur liðið.“

„Já, við eigum rosa mikið af stökum setningum hér og þar.“

„Eða bassalínur, sem við höfum nú þegar og getum unnið með. Það gengur ekkert alltaf í fyrstu tilraun að semja í kringum hana, en hún heldur sér alltaf.“

„Lögin breytast líka ótrúlega mikið milli tónleika. Við prófum kannski að spila eitthvað á tónleikum sem verður svo allt öðruvísi í sinni tilbúnu mynd. Fólk fattar ekkert alltaf að þetta er sama lagið.“

„Maður breytist líka svo mikið þegar maður fer að spila fyrir fólk, þó svo að það sé alls ekki vísvitandi, þá gerist það.“

„Um leið og það er fólk að horfa á mann, og fylgjast með manni.“

„Þó svo að manni finnist það alls ekki óþægilegt, þá hegðar maður sér samt alltaf öðruvísi þegar fólk er að fylgjast með.“

Finnið þið fyrir því að fólki finnist undarlegt að sjá þrjár stelpur saman í hljómsveit?

„Við höfum fengið alveg ótrúlega mikið af góðum hrósum sem okkur þykir vænt um, en við höfum líka fengið svona frekar skrýtnar athugasemdir. Á tímabili vorum við alltaf að fá athugasemdir við kynið okkar, í staðinn fyrir það hvað við vorum að gera.“

„Við lögðum líka svo mikla vinnu í lögin og fyrst voru einu kommentin sem við fengum bara um það að við værum hugrakkar að vera  þrjár ungar stelpur.“

„Ég [Hrafnhildur] tek samt meira eftir því núna þegar við erum orðnar eldri og farnar að spila meira að það vantar alveg ótrúlega mikið kvenkyns fyrirmyndir í þessu.“

„Ég man ekki eftir að hafa haft neina kvenkyns fyrirmynd sem gerir eitthvað svipað og við. Ég þurfti alveg ótrúlega mikið að kynna mér þetta og grafa eftir þessum flottu konum í tónlist.“

„Við höfum náttúrulega fengið ótrúlega mikið af flottum og fallegum hrósum. En það sem mér fannst skrítnast svona fyrst var þegar við vorum að spila, og fólk var alltaf að benda á að við gætum alveg spilað á trommur þó svo að við værum stelpur. Eins og það væri bara fáránlegt. Þetta virkaði stundum eins og þversögn, en kannski bara af því að það var óheppilega orðað.“

„En það er alveg ótrúlega gaman að heyra að við séum fyrirmyndir, það besta sem er hægt að heyra.“

Þið gáfuð út plötu í vor og hafið farið sigurför um íslensku grasrótarsenuna síðan þá, getiði sagt mér frá ári GRÓU?

„Þetta er búið að vera alveg ótrúlega gott ár. Alveg ruglað, eiginlega.“

„Við komum inn í post-dreifingu, í byrjun árs. Það breytti öllu.“

„Við kynntumst fullt af fólki í gegnum það batterí, og á sama tíma vorum við að byrja í MH þar sem er líka aragrúi af flottu fólki sem fílar það sama og við og hvetur okkur áfram.“

„Fólk er miklu opnara fyrir einhverju sem er öðruvísi og það hefur hvatt okkur í því að breyta og bæta tónlistina okkar. Við getum verið æstari.“

„Við erum búnar að eiga alveg ótrúlega gott 2018, og búnar að spila miklu meira en áður. Við höfum ekki tölu á því hvað við spiluðum oft í fyrra, en við ætlum að telja giggin okkar í ár.“

Hvernig sjáiði GRÓU2019 fyrir ykkur?

„Við spáum mjög góðu GRÓU 2019 ári.“

„Við erum að vinna í mjög spennandi plötu, sem er svona aðeins hrárri en það sem við höfum verið að gera, hún er meira experimental, með smá draugum og líka pínu geimverum, við erum mjög spenntar fyrir þeirra útgáfu.“

„Mjög ólík fyrstu plötunni okkar, við erum alveg mjög spenntar fyrir því hvernig hún er að hljóma, þó svo að það sé mikil vinna eftir.“

„Fyrsta platan var náttúrulega bara fyrstu sjö lögin okkar. Við vorum alveg ótrúlega mikið að prófa bara allskonar, vissum kannski ekki endilega hvernig við vildum hafa þetta.“

„Svolítið svona bara að koma fyrstu lögunum okkar frá okkur. Sem er auðvitað geggjað, að henda því út.“

„Núna erum við að gefa okkur aðeins meiri tíma.“

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: