FORWARD WITH DANCE / FWD YOUTH COMPANY

Melkorka Gunborg Briansdóttir

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar

Forward with Dance er í senn danshópur og dansnám, ætlað þeim sem hafa góðan grunn í dansi og hafa áhuga á að þroskast frekar sem danslistamenn. Danshópurinn er hugsaður fyrir ungt fólk og er í umsjón Dansgarðsins, regnhlífarverkefnis sem byggir starf sitt í kringum Klassíska listdansskólann. Dansgarðurinn hefur það að markmiði að auka aðgengi allra að danskennslu. Listrænir stjórnendur Forward with Dance eru þau Hrafnhildur Einarsdóttir og Ernesto Camilo Aldazabal.

Þátttaka í FWD býður meðal annars upp á faglega tækniþjálfun, skapandi vinnu, tækifæri til að sýna á opinberum vettvangi og vinna með danshöfundum. Frá því að hópurinn var stofnaður fyrir tveimur árum hafa þátttakendur hans upplifað ólíkar vinnuaðferðir á sviði dansins. Hann hefur sýnt bæði hérlendis og erlendis. Má þar nefna viðburði eins og Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Unglingurinn – Reykjavík Dance Festival, Safnanótt, Listahátíð í Reykjavík og Alþjóðlega danskeppni í Lettlandi auk fjölda annarra verkefna. Hópurinn er hugsaður sem brú á milli framhaldsnáms og háskólanáms eða atvinnumennsku. FWD heldur inntökupróf á hverju ári og er ætlaður ungu fólki á aldrinum 18-26 ára.

Núna í janúar sýndi FWD dansverkið “A Reversal of Fortune” eftir Sandrine Cassini, þar sem rannsakaður er mismunandi líkamleiki klassískrar balletttækni.

Ég ræddi við þær Bjarteyju Elínu Hauksdóttur, Ernu Kristínu Jónasdóttur og Hrefnu Kristrúnu Jónasdóttur, þrjá þeirra 16 dansara sem mynda FWD Youth Company. Bjartey er nemi á fyrsta ári á samtímadansbraut við Listaháskóla Íslands, en Erna og Hrefna eru báðar í MR og stefna eftir það á framhaldsnám erlendis.

Hvað hafið þið verið að dansa lengi?

Erna: Ég hef verið að dansa frá því ég var um fjögurra ára, en þá bjó ég í Bandaríkjunum. Síðan lærði ég hjá Guðbjörgu Björgvins í eitt ár og fór svo í Listdansskólann. Þaðan útskrifaðist ég síðasta vor og um haustið byrjaði ég að dansa með FWD, ásamt því að vera áfram í tímum í Listdansskólanum.

Hrefna: Sama með mig, ég hef verið að læra dans frá því ég var að verða fjögurra ára. 15 ár alls.

Bjartey: Sama hér, fjögurra ára líka.

Er það skylda til að taka þátt í FWD? Eruð þið allar með áralanga reynslu í dansi?

Bjartey: Það er mjög misjafnt. Við höfum líka lært mismunandi dansstíla, sumir hafa verið meira í jazz-ballett eða nútímadansi.

Hrefna: Bakgrunnarnir eru mjög ólíkir.

Erna: Inntökuprufurnar eru líka hugsaðar þannig að fleiri geti sótt um að vera með í FWD, alveg sama úr hvaða dansskóla þau koma. Alls konar bakgrunnar geta sótt um.

Hvað er FWD Youth Company, í ykkar eigin orðum?

Bjartey: FWD er danshópur fyrir ungt fólk, þar sem flestir eru búnir að útskrifast úr dansnámi. Þetta er fyrir þá sem vilja dansa meira og þjálfa sig í að koma fram. Í hópnum er fólk sem dansar allan daginn en líka aðrir sem eru t.d. í háskólanámi en vilja ekki hætta að dansa.

Hrefna: Þetta getur einmitt verið brú á milli þess að vera búinn í dansskóla og fara í atvinnumennsku, eða leið fyrir fólk að halda áfram í dansi samhliða öðru námi.

Hvenær og hvernig byrjaði starfið?

Bjartey: Þetta byrjaði haustið 2016. Það hafði lengi verið draumur hjá stjórnendum skólans að stofna hóp af þessu tagi, en hafði aldrei gerst. Við vorum sex í útskriftarbekknum mínum úr Klassíska listdansskólanum og vildum allar halda áfram, svo að við bjuggum til þennan hóp. Á þeim stutta tíma sem hefur liðið síðan þá hefur hann vaxið mikið, núna eru dansararnir orðnir 16.

Af hverju vilduð þið dansa með FWD?

Hrefna: Mér fannst þetta frábært tækifæri til þess að kynnast fleirum innan dansheimsins, danshöfundum og atvinnumönnum sem hafa langa reynslu á þessu sviði. Þátttaka í hópnum veitir manni góð tækifæri til að koma fram og auka reynslu sína sem performer.

Erna: Þetta er öðruvísi en að vera í hefðbundnu dansnámi í dansskóla. Þar fær maður að sýna á skólasýningum, en hér koma danshöfundar til að vinna með okkur í styttri tíma en við erum vanar. Við fáum fleiri tækifæri til að sýna.

Bjartey: Við gerum svo margt ólíkt og erum að fást við mismunandi verkefni. Ég hef aldrei verið að sýna jafn mikið og síðan ég byrjaði í FWD.

Hvernig vinnur hópurinn verk? Hvernig er ferlið?

Bjartey: Það er misjafnt. Þegar við byrjuðum samdi kennari hér í skólanum verk fyrir okkur en síðan þá höfum við fengið alls konar fyrirspurnir og tækifæri, til dæmis frá vídeólistamönnum og danshöfundum, og svo frá Reykjavík Dance festival. Við höfum líka fengið til okkar erlenda danshöfunda.

Hrefna: Stundum hafa listahátíðir samband, en stundum eru danshöfundar fengnir hingað til að vinna með hópnum.

Erna: Tengslanetið er mikilvægt í dansheiminum. Danshöfundurinn sem er að vinna með okkur núna, Sandrine Cassini, hefur komið þrisvar til Íslands og byggt upp tengsl í leiðinni. Svo fékk hún tækifæri til að vinna dansverk með okkur.

Bjartey: Verkefnin eru mjög ólík, ég hef gert allt frá því að leika kind upp í það að dansa í Hörpu. Svo höfum við líka farið til Lettlands til að taka þátt í danshátíð þar.

Er eitthvað verkefni sem var ykkur sérstaklega minnisstætt?

Bjartey: Verkefnið þar sem ég lék kind var eftirminnilegt. Það er kanadískur danshópur sem ferðast um með þetta verk. Hugmyndin á bakvið það er að færa sveitalífið inn í borgina. Ákveðnir kjarnameðlimir eru alltaf með en svo fá þau aðra, eins og okkur, til að vera með. Þetta var mjög fyndið og skemmtilegt, ólíkt því sem ég hef gert áður. Við vorum í raun ekki að dansa heldur einfaldlega að leika kindur. Við fluttum atriðið einu sinni í Kringlunni en vorum svo með sýningar á Listahátíð í Reykjavík. Það sáu það margir, börn voru sérstaklega hrifin. Svo hef ég líka tvisvar dansað á Vínartónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er líka mjög gaman, alvöru viðburður í Eldborg með fullum áhorfendasal.

Erna: Við Hrefna byrjuðum bara síðasta haust, svo að við misstum því miður af Vínartónleikunum og kindaverkefninu. Verkefnið með Sandrine sem við erum að vinna núna er annað verkið okkar með FWD. Það fyrsta byggði mikið á spuna og samtímadans, þar sem við fengum að leggja til okkar eigin hugmyndir. Verkið eftir Sandrine er meira eins og í ballettkompaníum, þar sem einhver semur sporin fyrir mann. Þetta er neó-klassískt nútímaverk en byggt á klassískri tækni. Þrátt fyrir að verkefnin hafi bara verið tvö hingað til, þá eru þau mjög ólík. Fjölbreytileikinn er skemmtilegur.

Hvernig er það að dansa með FWD ólíkt því sem þið hafið áður kynnst í dansnámi?

Hrefna: Hér kemur fólk að vinna með okkur sem hefur bara ákveðinn tíma til að semja verk, eins og tíðkast í atvinnumennsku.

Erna: Það er ólíkt hefðbundnum skólasýningum, því þá byrjar maður einhvers staðar og reynir að klára fyrir sýningu. Það er krefjandi en gaman að þurfa að vinna hratt og nota hugann meira. Það er líka skemmtilegt að vinna með fleira fólki sem á ólíkan bakgrunn í dansi og hefur ekki verið saman í skóla.

Bjartey: Hér fáum við líka að takast á við öðruvísi verkefni en við erum vön. Þegar maður er í dansskóla eru sýningarnar svipaðar ár frá ári, en þetta er alls konar. Að gera vídeóverk og gjörninga, leika kind, dansa í Hörpu. Fjölbreytileikinn myndi ég segja að væri helsti munurinn.

Hvað er mest krefjandi við að taka þátt í FWD?

Erna: Það reynir náttúrulega líkamlega á. Oft erum við á fjögurra tíma æfingum og fáum kannski tíu mínútna pásu. En manni líður alltaf svo vel eftir á.

Bjartey: Við erum svo seint á æfingum, við þurfum að æfa eftir að skólakrakkarnir eru búnir. Við byrjum klukkan 20 alla virka daga og erum búnar kl 22, það getur verið erfitt.

Hvað er á döfinni hjá FWD?

Bjartey: Við eigum eftir að taka stöðufund um það, en eftir A Reversal of Fortune ætlar Sigurður Andrean Sigurgeirsson úr Íslenska dansflokknum að semja verk fyrir okkur. Við vitum ekki ennþá hvenær það verður.

Hrefna: Við munum líklega sýna brot úr A Reversal of Fortune á Safnanótt 8.febrúar næstkomandi, svo að fólk getur haft augun opin fyrir því.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: