ÁSTIN FÉKK SÉNS Á NÝ: Uppsetning Verzlunarskólans á Xanadu

Karitas M. Bjarkadóttir

Karitas M. Bjarkadóttir skrifar

Það var spennt, en örlítið áhyggjufull ung kona sem settist í sal Háskólabíós og beið þess með óttablandinni eftirvæntingu að ljósin yrðu slökkt og uppsetning Verzlunarskólans á cult-klassíkinni Xanadu hæfist. Verandi einn af eftirlætissöngleikjunum mínum hafði ég undirliggjandi áhyggjur af því að hérna, í Háskólabíó klukkan 20 á mánudagskvöldi, umkringd fyrrum kennurum mínum, yrði sá söngleikur eyðilagður fyrir mér. Þær áhyggjur voru gjörsamlega óþarfar á hvern þann hátt sem hugsast gæti. Það var alls ekki það að ég hefði ekki trú á leikhópnum og listrænum stjórnendum, en Xanadu er eitt af þessum handritum sem mjög auðvelt er að steypa fram af kletti með einni rangri útfærslu.

Verkið hófst á einræðu karl-söguhetjunnar, Svenna Mássonar (Mímir Bjarki Pálmason), og hann greip salinn strax. Það geislaði af honum leikgleðinn, hann átti augljóslega heima á þessu sviði, og við, áhorfendurnir, aðeins gestir í griðarstaðnum hans. Þessi flutningur setti gjörsamlega tóninn fyrir sýninguna alla, þar sem útgeislunin var alls ekki minni hjá mótleikkonu hans Kolbrúnu Maríu Másdóttur í hlutverki Kríu, sköpunargyðju sem kominn er til jarðarinnar til að fylla Svenna innblæstri. Kolbrún stóð sig einstaklega vel, hún hefur frábæra söngrödd sem fékk algjörlega að njóta sín allt verkið, og gott vald á rúlluskautum, sem er helber nauðsyn þegar kemur að þessu verki.

Í rauninni tekur því varla að telja upp alla sem stóðu sig frábærlega í sýningunni, því þá þyrfti ég að telja upp allan 40 manna sviðslistarhópinn eins og hann leggur sig. Þess má samt alveg geta að Kjalar Martinsson Kollmar, sem brilleraði hér fyrr á árinu í hlutverki Brooks í uppsetningu skólans á Shawshank Redemption, gaf heldur betur ekki eftir í þessari sýningu. Kjalar lék heldur stirðari persónu í þetta skiptið, viðskiptamongúlinn Diðrik, sem elskaði og missti og er bitur vegna þess. Kjalar syngur af einstakri einlægni lagið „Er ég ungur var“, og sviðið fyllist af danspörum og sviðsetningin verður danssalur gamla tímans, Diðrik með ástina sína við hönd.

Sviðsmyndin, sem hönnuð er af fjöllistamanningum Kristni Arnari Sigurðssyni, er mjög einföld, til hliðar eru tvö hringlaga tjöld sem þjóna þeim snilldar tilgangi að fela sviðsmenn og propsa þegar þeir eru færðir inn á svið. Þannig verða allara skiptingar hraðar og einfaldar, og hægja ekkert á sögþræðinum. Til viðbótar við það er notast við skjávarpa og stórt tjald, og þannig hægt að skipta um sögusvið hratt en örugglega.

Öll hópdansatriði fönguðu áhorfendur, voru mjög mikilfengleg og það er augljóst að Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, sem bæði leikstýrir og semur dansa, hefur fengið að njóta sín í botn og blómstra með dönsurunum sem stóðu sig öll með ólíkindum vel.

Að lokum verð ég að minnast á þær Sigurbjörgu Nönnu Vignisdóttur og Kötlu Njálsdóttur í hlutverkum illu systranna tveggja, Melpómenu og Kallíópu. Þær gjörsamlega stálu sviðinu í hvert skipti sem þær stigu sínum stígvélaklæddu tám á það. Innlifunin, leikgleðin, útgeislunin, þetta var allt til staðar á þann hátt að áhorfendur einfaldlega fengu ekki nóg. Flutningur þeirra á laginu „Hættuleg kona“ var allt of stuttur, ég hefði getað horft á þær sprella og syngja eins og gyðjur því sem virtist áreynslulaust í hálftíma.

Á heildina litið er þetta einstaklega flott uppsetning, aðlögun handrits framúrskarandi og þýðingin sömuleiðis, leikarar og dansarar eins og atvinnufólk og enginn fór heim án þess að brosa sínu breiðasta.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: