Að sýna raunveruleikann eins og hann er

Melkorka Gunborg Briansdóttir

Melkorka Gunborg Briansdóttir skrifar

Orri Starrason og Þorsteinn Sturla Gunnarsson útskrifuðust báðir frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember síðastliðnum. Á síðustu önninni í MH unnu þeir sjálfstætt lokaverkefni saman, heimildarmynd um fatlað fólk í kvikmyndagerð. Myndin er ríflega klukkutími að lengd og ber titilinn Are We Rolling. Þeir stefna báðir á framhaldsnám í kvikmyndagerð.

Birtingarmynd fatlaðra í samfélaginu hefur verið Þorsteini og Orra hugleikin. Sýnileiki

ólíkra hópa segir mikið um stöðu þeirra í samfélaginu og hvar jafnréttisbarátta þeirra er stödd. Miðlar gegna þar mikilvægu hlutverki og skipa kvikmyndir stóran sess.

Um 15-20% fólks í heiminum er fatlað, en talan er breytileg eftir því hvernig fötlun er skilgreind. Þrátt fyrir það er þessi hópur nánast ósýnilegur í kvikmyndaheiminum. Margir minnihlutahópar eru ekki nógu sýnilegir í kvikmyndum. Með vitundarvakningu og umræðu um jafnrétti hefur þó ýmislegt breyst til hins betra, en við eigum langt í land.

Hefur fatlað fólk gleymst?

Hvaðan kom hugmyndin að verkefninu? Af hverju vilduð þið gera heimildarmynd um þetta?

Orri: Hugmyndin kom reyndar upprunalega frá mér. Við vildum báðir gera sjálfstætt lokaverkefni í MH. Þorsteinn ætlaði að gera handrit, en ég vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að gera. Við vorum báðir frekar týndir, en svo datt mér í hug að hann gæti gert verkefni um stöðu fatlaðs fólks í kvikmyndagerð. Við höfðum af og til spjallað um þetta efni. Þegar hann var byrjaður að redda viðtölum fannst mér þetta svo spennandi að ég ákvað að hætta við mitt verkefni og vinna með honum í staðinn.

Þorsteinn: Augljóslega völdum við þetta af svolítið persónulegum ástæðum.

Orri: Þorsteinn hefur lengi ætlað sér í kvikmyndagerð og við höfum oft talað um áskoranirnar sem fylgja því fyrir fatlaða manneskju. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það er engin umræða um fatlað fólk í kvikmyndaiðnaðinum. Svo kviknaði hugmyndin út frá því.

Þorsteinn: Svo var líka annað markmið að kynnast fólki í kvikmyndabransanum á Íslandi. Hitta það og búa til tengsl.

Stefnið þið báðir á framhaldsnám í kvikmyndagerð?

Orri: Já, áhuginn hjá mér vaknaði í raun út frá þessu verkefni. Núna er ég að undirbúa umsókn í kvikmyndaskóla í Berlín.

Þorsteinn: Já, ég hef stefnt á kvikmyndanám í mörg ár. Ég er samt ekki alveg búinn að ákveða hvar það verður, ég er ennþá að skoða möguleikana. Ég er að sækja um á sviðshöfundabraut í Listaháskólanum líka.

Hver var helsta niðurstaða heimildarmyndarinnar?

Orri: Við þurftum einmitt að velta því fyrir okkur þegar við klipptum lokakaflann í myndinni.

Þorsteinn: Það var eitt það erfiðasta.

Orri: Okkur fannst niðurstaðan nefnilega svo óljós. Þetta var svolítið ólíkt eftir viðmælendum. Við reyndum að skýra lokaskilaboðin þannig að helstu hindranirnar fyrir fatlað fólk í kvikmyndagerð væru oftast ekki þær áþreifanlegu. Oftast er þetta ekki spurning um aðgengi, því það er yfirleitt hægt að leysa.

Þorsteinn: Frekar er þetta huglægt.

Orri: Þetta er huglægt, bæði hjá fólki í kvikmyndabransanum sjálfum þar sem sumir líta á fatlað fólk sem töf á ferlinu og vesen, en líka hjá fötluðu fólki. Því finnst vinna við kvikmyndir vera eitthvað sem það getur ekki gert. Það þarf fyrirmyndir, það þarf að sjá að þetta sé hægt.

Þorsteinn: Myndinni lýkur á jákvæðum nótum. Við tókum jákvæðustu bútana úr viðtölunum og settum þá saman, því myndin á að virka sem hvatning. Niðurstaðan er sú að það er ekki jafn mikil fyrirstaða og fólk heldur.

Orri: Við enduðum myndina á því sem Sólveig Arnarsdóttir leikkona segir: ,,Það þarf bara að gera þetta.“ Það á svo vel við, því það skortir fyrirmyndir í kvikmyndagerð fyrir fatlað fólk. Það er ekkert kerfi sem hvetur það inn í kvikmyndabransann.

Þorsteinn: Sérstaklega ekki á Íslandi, það er aðeins betra í Bandaríkjunum, en hér er fólk ekki meðvitað um þetta. Við fengum líka að heyra það frá öllum viðmælendunum að það hafði aldrei velt þessu fyrir sér.

Orri: Það var ótrúlega flott að finna hvað flestir voru áhugasamir samt. Margir viðmælendur sögðu okkur að við hefðum vakið þá til umhugsunar, að þeir hafi verið að hugsa um þetta síðan við höfðum samband.

Þorsteinn: Ólafur Darri hvatti okkur til dæmis til að hafa sambönd við fagfélögin á Íslandi, félög leikara og félög leikstjóra og láta vita af þessu vandamáli.

Myndin hefst á því að ferðamenn og Íslendingar á gangi í miðbænum eru spurðir hvort þeir geti nefnt einn fatlaðan einstakling sem starfar í kvikmyndaiðnaðinum. Það er sláandi að enginn getur nefnt neinn. Af hverju sjáum við svona lítið af fötluðu fólki í kvikmyndagerð?

Þorsteinn: Mögulega er fólk hrætt við að fötluðum einstaklingi sem vinni að kvikmynd fylgi of mikið vesen. Maður sér fyrir sér senur þar sem fólk er til dæmis að ganga upp á fjöll, en það er í raun ekki svo stór hluti af kvikmyndagerð. Þetta virðist meira vandamál en það er. Undirbúningsvinnan tekur nokkrar vikur eða mánuði og er oft skrifstofuvinna, að hafa samband við fólk og redda öllu fyrir tökur. Tökurnar geta farið fram í kvikmyndaverum sem eru oftast nær frekar aðgengileg af því að það þarf að koma að myndavélum og alls kyns búnaði. Auðvitað eru tökur stundum á stöðum þar sem aðgengið er mun verra en það er ekki alltaf þannig.

Orri: Þá er hægt að finna út úr því. Í versta falli kæmist fötluð manneskja ekki á örfáa tökustaði. Það er enginn heimsendir.

Þorsteinn: Svo er það öll eftirvinnan sem fer fram í tölvu. Henni getur fatlað fólk vel sinnt. Eins og Ragnar Vald Ragnarsson klippari segir í myndinni, þá eru komnar augnastýrðar tölvur í dag, svo að algjörlega lömuð manneskja ætti samt að geta klippt mynd, þó að það geti vissulega tekið lengri tíma.

Orri: Ég held að þetta sé tvíþætt. Fordómar og hugmyndir um tímatap eru eitt. Í auglýsingabransanum þurfa hlutir til dæmis að gerast hratt. Það var einmitt eitthvað sem nokkrir viðmælendur minntust á, að auglýsingaframleiðendur geti horft á fatlaða manneskju og hugsað: ,,Nei, þetta mun rústa tímatöflunni minni. Ég get þetta ekki.“ Kvikmyndaframleiðendur og leikstjórar gætu hugsað í svipuðum dúr. Í öðru lagi held ég að fólk hugsi almennt ekki um þetta, það áttar sig ekki á vandamálinu. Fólk er samt tilbúið að breyta til og hlusta, það þarf bara aðeins að vekja það til umhugsunar.

Þorsteinn: Þeir fötluðu kvikmyndagerðarmenn sem við tókum viðtöl við vinna bara á bak við myndavélina. Í þeim tilvikum er ómögulegt að vita að fötluð manneskja hafi unnið að kvikmynd út frá kreditlistanum. Hvatningin kæmi í raun helst út frá leikurunum, en það er ennþá sjaldgæfara.

Orri: Eins og Ólafur Darri kom inn á, ímyndaðu þér að vera fatlaður leikari sem er að reyna að koma sér á framfæri. Þú hefur nánast engar fyrirmyndir.

Hvað finnst ykkur um það þegar ófatlaðir leikarar leika persónur með fötlun?

Þorsteinn: Ég skil það upp að vissu marki, þetta er bransi þar sem sum andlit selja meira en önnur. Á sama tíma finnst mér ófatlaðir leikarar hafa einokað hlutverk þar sem persónan er fötluð. Það ætti ekki að vera svoleiðis. Eins og RJ Mitte úr Breaking Bad sannar, þá er hann frábær leikari. Hann gerði sitt mjög vel og hans karakter er ekki bara ,,fatlaði gæinn, heldur hluti af söguþræðinum.

Orri: Ég held að stök hlutverk séu ekki vandamálið. Eins og ef við lítum á The Intouchables, þá yrði ég ekki reiður út í staka mynd, en það er einokunin sem er vandamál. Það gerist nánast aldrei að fötluð manneskja leiki fatlaða persónu og það er vandamál.

Hvernig stendur Ísland sig í þessum efnum í samanburði við önnur lönd?

Orri: Við töluðum bara við tvo fatlaða einstaklinga sem hafa unnið við kvikmyndagerð á Íslandi.

Þorsteinn: Það gekk ekki að finna fleiri. Við fundum engan fatlaðan leikara á Íslandi til dæmis, en í Bandaríkjunum er það algengara.

Orri: Bandaríkin eru náttúrulega mun stærra samfélag og bransinn þar af leiðandi stærri. Við náðum bara viðtali við einn erlendan einstakling, en við leituðum að fleiri fötluðum leikurum og leikstjórum erlendis, en fundum mjög fáa. Þónokkrir sem við fundum voru blindir eða heyrnarlausir. Við komumst svolítið að því að Hollywood, og sennilega kvikmyndabransinn í heild sinni er opnari fyrir ,,fallegum fötlunum.“

Þorsteinn: Já, ósýnilegum fötlunum. Ef þú ert til dæmis heyrnarlaus þá sést það ekki á þér. Ef þú ert lamaður þá sést það á þér, og það selur minna.

Orri: Og ef það er lamaður einstaklingur í mynd, þá er hann yfirleitt fallegur líka.

Þorsteinn: Það helsta sem okkur datt í hug var Intouchables og Theory of Everything. Þar eru bara fallegir, ófatlaðir hvítir menn að leika fatlaða einstaklinga.

Hvað þarf að breytast í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi til þess að fatlað fólk taki ríkari þátt?

Þorsteinn: Aðallega hugarfarið.

Orri: Ég held það þurfi vitundarvakningu. Ef það er engin fötluð manneskja að vinna að myndinni, þá tekurðu ekki aukaskrefin til að tryggja aðgengi. Þegar það er fötluð manneskja í hópnum þarf svo lítið til að gera ráðstafanir þegar að því kemur.

Þorsteinn: Ísland er líka það lítið land og kvikmyndabransinn þar með enn minni, að um leið og ein fötluð manneskja kemst inn í bransann og nær árangri, þá ætti það að teygja sig yfir allan bransann. Þetta eru þrjú, fjögur framleiðslufyrirtæki sem öll vinna mjög náið. Um leið og það er ein fötluð manneskja kominn inn getur boltinn byrjað að rúlla.

Orri: Ef fatlaðir kæmust inn í bransann myndu þeir ekki endilega bara segja sögur um það að vera fatlaður. Það er alltaf gott að fá ný sjónarhorn. Þetta er ekki spurning um að pumpa inn fjölbreytileika fjölbreytileikans vegna, heldur snýst þetta um raunveruleikann. Við eigum að fá rétta endurspeglun af þeim heimi sem við búum í.

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart við gerð myndarinnar?

Orri: Hvað þetta skiptir fólk miklu máli þegar það áttar sig á málefninu. Það voru flestir tilbúnir að taka þátt í umræðunni og höfðu margt að segja.

Þorsteinn: Ég var tilbúinn í að fá stuttaraleg svör og að þetta yrði bara afskrifað.

Orri: En flestir sýndu þessu mikinn áhuga og fannst þetta mikilvægt. Það var frábært. Okkur langar líka að vinna áfram með þessa mynd, fínpússa hana og taka hana lengra.

Þorsteinn: Við myndum vilja sýna hana opinberlega og fá leyfi frá viðmælendunum til þess.

Orri: Við viljum að hún verði til þess að ýta undir vitundarvakninguna sem þarf að eiga sér stað.

Er eitthvað sem þið viljið segja að lokum?

Orri: Ég vil bara biðja fólk að hafa augun opin fyrir þessu þegar það horfir á bíómyndir. Þegar maður er meðvitaður fer maður að sjá þetta alls staðar, hvað það fer lítið fyrir þessum stóra hluta af samfélaginu okkar í bíómyndum og allri menningu almennt. Við fjölluðum bara um kvikmyndaheiminn af því að við höfum áhuga á honum, en til dæmis get ég ekki nefnt stakan fatlaðan tónlistarmann sem ég hlusta á. Ekki hreyfihamlaðan, til dæmis.

Þorsteinn: Svo má fólk bara hafa augun opin ef okkur tekst að koma myndinni í opinbera sýningu.

,,Ég held að fatlað fólk hafi gleymst í söguheimi kvikmynda. (…) Á sama tíma og konur eru að verða stærri leikstjórar og stærri handritshöfundar erum við farin að segja stærri sögur af konum og kvenpersónur eru að verða sterkari. Ég held að það sé einhver samnefnari þarna á milli. Við þurfum að hleypa fötluðu fólki inn í sögurnar okkar, og ég held að á sama tíma hleypum við fötluðu fólki inn í bransann. Þetta helst allt í hendur.“ – Baldvin Z., leikstjóri.

,,Það þarf allsherjar vitundarvakningu í að bjóða upp á tækifæri fyrir fatlað fólk.“ – Ólafur Darri Ólafsson, leikari.

Bandaríski leikarinn RJ Mitte er einn af viðmælendum myndarinnar, en hann fer með hlutverk Walter “Flynn” White Jr. í Breaking Bad-þáttunum. Líkt og persónan sem hann leikur í þáttunum er Mitte með heilalömun (e. cerebral palsy).

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: