Tinderbykkjur og skömmusturölt – örviðtal við Braga Valdimar

Karitas M. Bjarkadóttir

1. Hvenær byrjaðir þú að skrifa dægurlagatexta og hvað vakti áhuga þinn á textagerð?
Ég byrjaði að krota upp einhverja misgáfulega texta í menntaskóla, þá fyrir hinar ýmsu hljómsveitir sem ég var í. Fór svo ekki að gera þetta af neinni íþrótt fyrr en um og upp úr 2000. Það var svo sem ekkert eitt sem kveikti áhugann, en ég hef alltaf hlustað á texta og las þá helst beint af plötuumslögunum til forna.  Ég hef alltaf haft áhuga á því hvað allt þetta tónlistarfólk er að reyna að segja manni. Fyrir mér eru textarnir stór þáttur tónlistarinnar — og því eins gott að vanda sig.

2. Finnur þú fyrir einhverjum trega gagnvart því að viðurkenna sletturnar og slangrið sem þú notar í textunum þínum? (sbr. gordjöss)
Nei alls ekki. Slangur og settur eru fyrirtaks textafóður. Geta brotið upp textann og komið skemmtilega á óvart. Svo er alltaf kærkomið að fá ný orð og orðskrípi til að ríma við.

 3. Semur þú textana með flytjanda í huga, eða ræðst það bara af tilviljunum?
Það er allur gangur á því. Ef ég veit fyrirfram hver syngur þá finnst mér gaman að leika mér með karakter viðkomandi í textanum, samanber t.d. Rúna Júl, Pál Óskar og Bó. Það er líka gaman að setja óvænt orð eða jafnvel óviðeigandi setningar inn í textann, sem eru kannski alveg úr karakter fyrir flytjandann, eins og t.d. þegar Jóhanna syngur Mamma þarf að djamma. En stundum er allt góða stöffið strokað út í hljóðverinu!

4. Hvað hefur þú á bakvið eyrað þegar þú semur?
Það er auðvitað fyrst og fremst lagið sjálft. Laglínan. Ég sem eiginlega alltaf texta við lag. Hjá sumum er þetta þveröfugt. Ef ég sem lögin sjálfur, þá eru þau oftast með einhverjum algjörum bulltexta fyrst, einhverju undarlegu enskulíki. Ef ég er að semja fyrir aðra reyni ég að finna einhverja stemningu í laginu og einhvern þráð til að fylgja. Það er ekkert verra ef það álpast eitthvað innihald í textann og helst smá sannleikur líka.

5. Hver eru þín uppáhalds nýyrði og slangur sem þú hefur notað í þínum textum?
Tjah, nýleg dæmi eru orð eins og tinderbykkjur og skömmusturölt úr Grenja. Á tímabili var ég voða hrifinn af því að lauma sjitti og fokki inn í hina ýmsu texta, sérstaklega barnalög. Gordjöss auðvitað, öskupöddufullur, „það var sagt mér að það væri partí hérna“, „það er komið sumar, það er komið sól“ og svo auðvitað allrahanda orðaleikir uppásnúningar og leynidjókar. Svo hef ég voða gaman af að nýta orð sem fá annars aldrei að vera með í textum, eins og myntkörfulán og þjóðargjaldþrot. Annars hefur enginn kvartað yfir orði hjá mér svo ég muni, nema reyndar þegar ég notaði ristavél. Þá var fólki verulega misboðið.

 

Myndin er tekin af síðu DV.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: