Shawshank fangelsi Versló – leikdómur

Karitas M. Bjarkadóttir

Föstudaginn 9. nóvember síðastliðinn frumsýndi Listafélag Verzlunarskólans leikritið Shawshank – fangelsið undir leikstjórn Viktors Péturs Finnssonar og Höskuldar Þórs Jónssonar. Við hjá Framhaldsskólablaðinu vorum svo heppin að fá að kíkja á fyrstu æfingu leikhópsins fyrir framan áhorfendur, miðvikudeginum fyrir frumsýningu. Leikritið er byggt á mynd Franks Darabont og Stephens King, sem kom út árið 1994. Verkið fjallar í stuttu máli um líf afbrotamanna innan veggja Shawshank-fangelsisins, grimmdina, samheldnina og daglegar athafnir. Það fyrsta sem við verðum vitni að þegar ljósin í áhorfendasalnum dofna, er atburðurinn sem setur aðra aðalpersónuna í fangelsið, Andy Dufresne (Ágúst Örn Wigum). Þegar hann er svo dæmdur og lokaður inni fléttast saman spennandi atburðarrás, sem undirrituð ætlar ekki að fara út í nánar, en hvetur fólk eindregið til að kíkja á sýninguna og sjá verkið.

Þó svo að verkið snúist að vissu leyti aðallega bara um fangana sem fylgst er með er vert að nefna hvað fangaverðirnir í Shawshank voru einstaklega sannfærandi og skemmtilegar persónur. Þar ber að nefna Mími Bjarka Pálmason í hlutverki kafteins Hadleys, en Mímir stóð sig afar vel í sínu harðræðishlutverki, og tókst að hræða áhorfendur á sama tíma og hann létti andrúmsloftið með hæðnislegum athugasemdum, sem oftast var beint að samfangavörðum sínum. Auðunn Ingason í hlutverki Henrys var mjög gott val í fangavörð númer tvö í goggunarröðinni, og hafði góð tök á samspili þess að styðja við Hadley í ruddaskapnum, sem og mýkja viðmót áhorfenda til hans. Svo ber að nefna Snorra Beck Magnússon í hlutverki Rons, þriðja fangavarðarins og einskonar kjarklausan leiksopp Hadleys. Snorri var mjög sannfærandi í þessu hlutverki, og stal algerlega senunni þegar persóna hans fékk að handleika píanó, og að sama skapi sýna meiri dýpt. Fjórða illmennið í starfsliði Shawshank er svo að sjálfsögðu fangelsisstýran, Fröken Norton, sem leikin er af Kötlu Njálsdóttur. Kötlu tókst með því sem virtist engum erfiðismunum að standa með sínum illa innrætta, peningagráðuga og ofbeldishneigða karakter, og stökk ekki svo mikið sem bros á vör alla sýninguna, hélt yfirlætinu og hrokanum allan tímann.

Kjalar Martinsson Kollmar stóð líka uppúr, en hann sinnti hlutverki bókasafnsvarðarins Brooks Hatlen, sem hlýtur sorgleg örlög þegar honum er loks sleppt úr haldi, eftir rúm 40 ár í Shawshank fangelsinu. Dauði Brooks var einstaklega vel útfærður, jafnvel allt of vel, því undirrituð viðurkennir fúslega að hafa haft áhyggjur af Kjalari, svo raunverulegt var atriðið. Lýsingin var fullkomin, hljóðið í algjöru samræmi, og klippt var á sýninguna yfir í hlé á hárréttum tímapunkti. Það eina sem út á atriðið hefði verið hægt að setja var bara það að áhorfendur fengu ekki að sjá meira af Kjalari eftir þetta. Á heildina litið stóðu allir leikararnir sig einstaklega vel í sínum hlutverkum, og fyrir utan örlítið óskýrmæli og fát í byrjun sýningarinnar, er alls ekki hægt að kvarta undan því að leiksins hafi verið ábótavant.

Hins vegar er mikilvægt að minnast á það að verkið í heild sinni og með hléi er tæpar þrjár klukkustundir, sem er óvenju langt fyrir menntaskólaleikrit af þessu tagi. Það voru þónokkur atriði sem hægt hefði verið að sleppa, og þar með stytta leikritið og halda betur einbeitingu áhorfenda. Lýsingin var líka á svolitlu reiki, oft voru sérkennilegir skuggar á andlitum leikara, svo ekki var auðvelt að sjá svipi þeirra eða litlar hreyfingar, sem gat á köflum bæði komið vel út, en oft var það áhorfandanum til trafala. Þar að auki voru margar skiptingar allt of langar, á einum tímapunkti voru ljósin slökkt svo lengi að áhorfendur héldu að sýningin væri hreinlega búin. Það er í höndum leikstjóra að stytta það sem stytta þarf og finna út úr skiptingum sem virka, og það er leiðinlegt að þeir tæknilegu gallar hafi sett skugga á upplifun áhorfenda á sýningunni. Þrátt fyrir þetta var sviðsmyndin ótrúlega flott og vel útfærð, og spilaði stórt hlutverk í sýningunni sjálfri, og salurinn í Verzlunarskólanum var allur nýttur út í ystu æsar. Einstaklega falleg umgjörð sem hnýtti verkið saman í fallega og heilsteypta slaufu.

Á heildina litið stóðu leikararnir sig einstaklega vel, en ljós, leikstjórn og útfærsla bíómyndarinnar var ábótavant á mörgum stöðum. Þó er ekki annað hægt en að hrósa leikhópnum fyrir vel unnin störf, en undirrituð er enn í sjokki yfir því að þetta hafi verið 16-19 ára krakkar, en ekki þaulvanir atvinnuleikarar, svo ég mæli með að allir kíki í leikhús!

★★★ 1/2

Hægt er að kaupa miða á slóðinni nfvi.is/midasala

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: