Mean Boys MR – leikdómur

Karitas M. Bjarkadóttir

Síðasta föstudag frumsýndi leikfélagið Frúardagur í MR verkið Mean Boys. Leikstjórar og yfirumsjónarmenn handritsgerðar voru þau Alma Mjöll Ólafsdóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson, sem bæði eru útskrifuðaf sviðshöfundabraut í Listaháskólanum. Handritið er að mestu leyti byggt á hinni sívinsælu aldamótamynd Mean Girls sem sem Tina Fey skrifaði á sínum tíma, en verkið er fært í nútímalegri og notendavænni íslenska útgáfu. Og svo er hlutverkunum snúið við.

Við könnumst flest öll við söguna, ný stelpa úr framandi umhverfi flytur í nýtt hverfi og byrjar í nýjum skóla, þar sem illkvittinn vinkvennahópur ræður ríkjum og heldur dauðahaldi um stjórnartauma skólans. Nýja stelpan kynnist „fríkum“ skólans og vingast við þau, fellst á að grafa undan vinkvennahópnum en verður fyrir vikið óvart ein af þeim og gerir sér ekki grein fyrir því fyrr en hún hefur brennt allar brýr að baki sér og stendur uppi vinalaus og allslaus.

Hér er þetta fært í nýjan búning, þar sem nýi aðilinn í skólanum er ekki stelpa sem eytt hefur megninu af ævi sinni í Afríku innan um ljón og gíraffa, heldur einfaldur sveitastrákur utan af landi sem kann á sauðburð og sláturtíð. Sveitastrákurinn, Kjartan, er leikinn af Degi Ágústssyni, sem satt best að segja stóð sig með ólíkindum vel. Hvort sem persónan hans var í hlutverki saklauss sveitastráks eða harðvíraðs fokkboi, alltaf tókst Degi að hrífa áhorfendur inn í sögusviðið og gera bæði sinni eigin persónu, sem og öðrum, góð skil. Dagur missteig sig ekki einu sinni, var skýrmæltur og í karakter allan tímann, undirrituð er viss um að hann á eftir að gera mjög góða hluti þegar fram í sækir.

Persónan Áróra vakti einnig verðskuldaða athygli, en hún er annað „fríkið“ sem Kjartan vingast við þegar hann hefur námið við Menntaskólann við Tjörn. Áróra er leikin af Ástu Rún Ingvadóttur, og er einkar sannfærandi í hlutverki sínu sem sendandi Kjartans á njósnir um strákahóp skólans, Boisana. Besti vinur hennar, Benóný (Matthías Löve) er einnig vel heppnuð persóna, og þó svo að hann hafi virst ögn stirður í byrjun sýningarinnar, var Matthías ekki lengi að koma sér á skrið og stela senunni ítrekða, meðal annars með óborganlegum flutningi og íslenskuðum texta á laginu „Our Last Summer“ með ABBA.

Á heildina litið stóð leikhópurinn sig ótrúlega vel, og virtist hafa góða kemistríu sín á milli. Undirrituð var örlítið skeptísk á Boisana fyrri hluta sýningarinnar, og átti svolítið erfitt með að kaupa bæði persónurnar og túlkun leikaranna á þeim, en allt gjörbreyttist eftir hlé. Boisarnir eru grunnhyggnar týpur, og eiginlega bara alveg rosalega pirrandi batterí fram að hléi, en þegar fram í sækir fær hver einasti meðlimur vinahópsins meiri dýpt og persónuleika, og áhorfendur gera sér grein fyrir því hvaða menn (og konur) strákarnir hafa raunverulega að geyma. Elísu Björgu Tryggvadóttur,  Stefáni Kára Ottóssyni og Tómasi Óla Magnússyni tókst öllum að sýna einlægni og vanlíðan sinnar persónu frábærlega í seinni lotunni, svo áhorfendur fyrirgáfu Boisunum látalætin fyrir hlé. Þegar allt vatn var runnið til sjávar var leikur krakkanna einstaklega góður, og öllum tókst einhvern veginn að gera persónunum sínum skil á einstakan hátt, svo samspilið var framúrskarandi.

Það var ekki margt sem undirrituð gat sett út á, en eitt sem má nefna var lýsingin, þegar leikararnir sátu fremst á sviðinu, en hún varpaði undarlegum skugga á andlit leikara svo þau urðu ógreinileg. Einnig er vert að taka það fram að salurinn í Félagsheimili Seltjarnarness hallar ekki, svo erfitt getur verið fyrir áhorfendur sem sitja aftarlega eða eru lágvaxnir, að sjá leikarana þegar þeir sitja eða standa alveg fremst á sviðinu. Þó svo að undirrituð skilji notagildið í því að sitja fremst á sviðinu hefði ef til vill verið betri útfæring að hækka sviðið örlítið meira með pöllum, og færa aftar, svo allir í salnum sjái nú örugglega það sem fer fram, því það er sko þess virði að sjá það allt.

Skiptingarnar voru mjög hraðar og góðar allt verkið og handritið tók mjög vel á hinum ýmsu vandamálum í samfélagi unglinga, ein og stafrænu kynferðisofbeldi, karlmennsku unglingsstráka og eitruðum samböndum. Á heildina litið var sýningin mjög góð, og undirrituð óskar hópnum til hamingju með vel unnin störf!

★★★★ 1/2

Hægt er að kaupa miða á slóðinni https://tix.is/is/event/7129/mean-boys/

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: